Fréttir
Vindskafið ský.

Breytingar á veðurþjónustu

6.11.2015

Veðurstofan er um þessar mundir að gera breytingar á veðurþjónustu sinni. Bakgrunnur þessara breytinga liggur í því að starf veðurfræðings hefur verið að breytast mikið að undanförnu vegna tæknilegra framfara, þróunar veðurlíkana og nútímamiðlunar veðurupplýsinga. Segja má að starf veðurfræðings sé að færast frá skrifum veðurspáa yfir í túlkun og mat á áhrifum veðurs á íslenskt samfélag, þótt vissulega muni veðurfræðingar halda áfram að skrifa veðurspár. Starf veðurfræðings í framtíðinni mun því beinast meira að ráðgjöf til samfélagsins og viðbragðsaðila en verið hefur.

Þær breytingar sem hafa átt sér stað, eða munu eiga sér stað, eru sem hér segir:

  • Breyting á útgáfutímum veðurspáa og lestri í útvarpi:
    • Formlegum útgáfutímum svæðisskiptrar landsspár hefur verið fækkað úr fjórum í tvo. Nú er landsspá gerð kl. 09:00 og 22:00. Taka ber fram að landsspá er uppfærð á milli útgáfutíma ef þurfa þykir. Landsspá verður lesin í útvarpi kl. 10:03, 12:45 (12:40 um helgar) og 22:05.
    • Formlegum útgáfutímum sjóspár fyrir mið og djúp hefur verið fækkað úr fjórum í tvo. Nú er sjóspá gerð kl. 04:20 og 17:30. Taka ber fram að sjóspá er uppfærð á milli útgáfutíma ef þurfa þykir. Sjóveðurspá kl. 04:20 hefur verið lengd og tekur til tveggja daga í stað eins. Sjóveðurspá er lesin í útvarpi kl. 04:30 og 18:50.
  • Hætt hefur verið gerð fjöldægru fyrir mið, þ.e. veðurspá fyrir þriðja og fjórða dag á miðum landsins.
  • Hætt hefur verið að gefa út veðurlýsingu í kjölfar reglubundinna veðurathuganatíma (átta slíkir á sólarhring). Tekin verður upp veðurlýsing fyrir daginn í heild með útgildum (hámörk og lágmörkum) á ákveðnum veðurþáttum og lýsingu á hvernig veðrið hefur þróast yfir daginn. Slík veðurlýsing verður lesin með veðurfregnum kl. 22:05.
  • Hafin hefur verið útgáfa veðurpistils kl. 07:00. Veðurpistill fjallar um veður næstu daga og möguleg samfélagsleg áhrif þess ásamt ítarefni ef ástæða þykir til. Veðurpistillinn ber heitið hugleiðingar veðurfræðings og honum verður miðlað til allra fjölmiðla.

Þessar breytingar eru ekki endanlegar. Áætlað er að innleiða nýtt viðvaranakerfi á næsta ári þar sem varað verður við veðurvá og hverri viðvörun gefin litakóði sem ákvarðast mun af líkum og áætluðum samfélagslegum áhrifum. Síðar meir mun viðvaranakerfið ná til allrar náttúruvár. Nýtt viðvaranakerfi verður kynnt betur áður en því verður hleypt af stokkunum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica