Fréttir

Ísland nú fullgildur aðili að EUMETSAT

29.1.2014

Um miðjan janúar varð Ísland fullgildur aðili að EUMETSAT, evrópsku veðurtunglastofnuninni. Með fullgildingunni opnast ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir; nú verður betri og greiðari aðgangur að gögnum veðurtunglastofnunarinnar.

Samningur þessa efnis var undirritaður í Reykjavík í ágúst síðastliðinn en beið fullgildingar og nú er því mikilvæga formsatriði lokið eftir aðeins hálfs árs bið.

Veðurstofan stefnir að því að fá sérfræðinga EUMETSAT hingað til lands á árinu til að halda námskeið og kynningu á þeim afurðum sem standa til boða en miklir möguleikar felast í því að fá enn frekari gögn úr gervitunglum til náttúruvöktunar.

Einnig fá íslenskir aðilar nú gott tækifæri til að koma að þróunarverkefnum á þessu sviði og Ísland getur tekið fullan þátt í mótun og umræðum um stefnu og stjórn EUMETSAT.

Veðurstofan getur veitt aðgang að rauntímagögnunum hér á landi en eldri gögn eru aðgengileg í gegnum vefsíðu EUMETSAT. Veðurstofan getur veitt aðstoð við úrvinnslu slíkra gagna, t.a.m. með frjálsum hugbúnaði.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica