Fréttir
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Alain Ratier forstjóri.

Full aðild að evrópsku veðurtunglastofnuninni

Ísland fær fulla aðild að EUMETSAT

30.8.2013

Ísland fær fulla aðild að evrópsku veðurtunglastofnuninni EUMETSAT en ferlið fór í endanlegan farveg nú 30. ágúst 2013 þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Alain Ratier, forstjóri EUMETSAT, undirrituðu aðildarsamning.

Sem aðildarríki mun Ísland hafa óheftan aðgang að gögnum sem varða fjölmarga þætti náttúrufars og taka fullan þátt í stefnumarkandi ákvörðunum stofnunarinnar. Þá munu íslensk fyrirtæki og framkvæmdaaðilar geta boðið í verkefni og Íslendingar fá tækifæri til að vinna að verkefnum á vegum EUMETSAT.

Undirritun aðildarsamningsins fór fram í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu 15 að viðstöddum Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, Paul Counet, yfirmanni alþjóðatengsla EUMETSAT, Silvia Castañer, yfirmanni lögfræðisviðs EUMETSAT, ásamt fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Veðurstofu Íslands.


Bakgrunnur

Evrópska veðurtunglastofnunin byggist á milliríkjasamningi um rekstur gervitungla, upphaflega stofnuð af evrópskum veðurstofum 1986 í þeim tilgangi að útvega gervitunglagögn til notkunar við veðurspár, veðurspárreikninga og loftslagsathuganir; einkum með hagsmuni aðþjóðaflugsins í huga. Afurðum hefur fjölgað síðan þá og notkunarsviðið víkkað. EUMETSAT framleiðir og dreifir gögnum til veðurstofa aðildarlanda allan sólarhringinn, alla daga ársins og er í samstarfi við veðurstofur innan vébanda Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO.

Stofnunin er ennfremur í fullu samstarfi við rekstraraðila gervitungla í Bandaríkjunum og er að þróa samvinnu á því sviði við Kína, Indland, Japan, Kóreu og Rússland. Næsta stóra verkefni þeirra er að setja í loftið gervitungl til að fylgjast með Norðurskautssvæðinu, og mun það bæta þjónustu við Ísland verulega.

Ísland hefur verið aukaaðili að EUMETSAT síðan 2006 og haft aðgang að EUMETSAT-gögnum samkvæmt tímabundnum aðlögunarsamningi að fullri aðild. Með fullri aðild tryggja Íslendingar sér nú óheftan aðgang að gögnum sem nýtast til dæmis við veðurspár og loftslagsrannsóknir, haf- og náttúrufræðirannsóknir og við vegagerð. Gögnin nýtast opinberum stofnunum, háskólum og hugbúnaðarfyrirtækjum.

Sem dæmi um birtingu afurða hér á vefnum má nefna hitamyndir frá veðurtunglum EUMETSAT. Einnig vakta veðurtungl EUMETSAT vind á hafi.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica