Fréttir
Skeiðarárbrúin yfir þurrum farvegi 2010.

Málþing LOKS verkefnisins

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á orkukerfi og samgöngur

30.4.2012

Á Norðurlöndum hefur verið unnið að ítarlegum athugunum á áhrifum veðurfarsbreytinga á orkukerfi og orkuframleiðslu, m.a. í svokölluðu CES verkefni sem birti sína lokaskýrslu fyrr á árinu.

Málþing á Veðurstofu Íslands

Á málþingi sem haldið er á Veðurstofu Íslands 30. apríl 2012 eru kynntar niðurstöður úr íslensku systurverkefni CES, sem ber heitið Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á orkukerfi og samgöngur (LOKS). Þátttakendur í verkefninu eru sérfræðingar í þróun og notkun fræðilegra líkana, sem beitt er við rannsóknir á veðurfari, vatnafari og jökulafkomu með yfirvofandi breytingar á fyrri hluta 21. aldar í huga. Skilgreindir verkþættir og viðfangsefni eru reifuð hér undir en helstu niðurstöður verkefnisins og tengla á skýrslur má skoða í sérstöku yfirlitsskjali.

Veðurfarshópur

Niðurstöður loftslagslíkana, fengnar úr grófu reiknineti sem nær yfir allan lofthjúp jarðar, voru endurreiknaðar sérstaklega fyrir tiltekið svæði hnattarins (t.d. Norðurlönd) og um leið tekið sérstakt tillit til þekkingar á staðbundnu veðurfari, sem stjórnast af landslagi, hafstraumum og fleiri þáttum. Lögð var sérstök áhersla á aukna reikniupplausn fyrir Ísland og hafsvæðið umhverfis landið en áhrif landslags á úrkomu reiknast betur á þéttara neti. Til viðbótar hefur verið unnið að greiningu á breytingum í árstíðasveiflu lofthita og úrkomu. Helstu niðurstöður hópsins má sjá í sérstöku pdf-skjali (0,1 Mb).

Vatnafarshópur

Unnið hefur verið að endurbótum á afrennsliskorti fyrir Ísland og reiknaðar sviðsmyndir rennslisbreytinga í hlýnandi loftslagi. Afrennslisreikningar taka tillit til þess að vatnasvið einstakra vatnsfalla eru mjög mismunandi að gerð; sum eru t.d. jökli hulin að hluta og verður því að gera ráð fyrir leysingarvatni frá jökli í reikningunum og árstíðasveiflu jökulvatns. Einnig er framlag snjóbráðar breytilegt eftir legu vatnasviða á landinu. Þá er berggrunnur mismunandi og sprungustefnur hafa veruleg áhrif á rennslisleiðir vatns. Einnig þarf að meta uppgufun af mismunandi svæðum landsins.  Fyrir kvörðun voru valin vatnasvið Sandár í Þistilfirði og vatnasvið Austari-Jökulsár, sem fellur frá Hofsjökli niður í Skagafjörð. Helstu niðurstöður hópsins má sjá í sérstöku pdf-skjali (0,1 Mb).

Jöklahópur

Markmiðið var að leggja mat á breytingar á afkomu jökla og afrennsli frá þeim, fylgjast með legu jökulsporða og áætla breytingar á vatnasviðum á jöklum. Settar voru fram spár um rúmmálsrýrnun jökla og tilheyrandi afrennslisbreytingar. Meðal annars var byggt á daglegri greiningu á hita og úrkomu á veðurstöðvum og greiningu niðurstaðna úr afkomumælingum á Langjökli, Hofsjökli og Vatnajökli. Hluti vinnunnar hefur miðast við að fylgjast með aðstæðum við jökla landsins og leggja mat á þær breytingar, sem vænta má á komandi áratugum. Helstu niðurstöður hópsins má sjá í sérstöku pdf-skjali (0,1 Mb).

Tímaraðahópur

Dagleg hitakort af Íslandi með 1 km upplausn voru útbúin fyrir tímabilið 1949–2010. Þau eru nú aðgengileg vísindamönnum á sviði vatna-, jökla- og veðurfars-rannsókna, auk þess sem þau nýtast fræðimönnum á ýmsum öðrum sviðum. Ennfremur hafa áhrif veðurfarssveiflna síðastliðinna áratuga á vatnsföll og eiginleika þeirra verið rannsökuð. Ellefu vatnasvið með mismunandi eiginleika og rennsli voru könnuð og svörun þeirra við breytileika í hitafari rannsökuð. Þessar upplýsingar hafa verið greindar ásamt upplýsingum um snjódýpt, snjó- og ísbráðnun og rigningu, reiknað frá daglegu úrkomu- og hitamati með 1 km reikniupplausn. Helstu niðurstöður hópsins má sjá í sérstöku pdf-skjali (0,1 Mb).

Orkukerfishópur

Vinna þessa hóps hefur farið fram á Landsvirkjun og var kostuð af framlagi fyrirtækisins til LOKS. Miðast hún við kerfisathuganir til að meta áhrif loftslags- og afrennslisbreytinga á orkugetu og takmarkanir í íslenska raforkukerfinu.

fyrirlesarar við háborð

Málþing LOKS verkefnisins um loftslag og orkukerfi á Bústaðavegi 7 þann 30. apríl 2012. Á myndinni eru Árni Snorrason og Tómas Jóhannesson ásamt öðrum sem að málþinginu stóðu. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica