Fréttir
Við Seljalandsfoss
Við Seljalandsfoss 8. maí 2009.

Loftslagsbreytingar og orkugjafar á 21. öld

Lokaskýrsla CES-verkefnisins

21.2.2012

Norræna ráðherranefndin hefur gefið út skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á 21. öld á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum: Climate Change and Energy Systems - Impacts, Risks and Adaptation in the Nordic and Baltic countries.

Skýrslan er lokaskýrsla um sameiginlegt rannsóknaverkefni Norðurlanda og Eystrasaltslanda: Climate and Energy Systems (CES) og er afrakstur viðamikils samvinnuverkefnis 30 stofnana og fyrirtækja í þessum löndum, sem Veðurstofa Íslands stýrði á árunum 2007-2011. Sérstök áhersla var lögð á að meta áhrif loftslagsbreytinga á nýtingu vatnsorku, vindorku og lífrænna orkugjafa og benda niðurstöður til þess að hlýnunin geti leitt til aukinnar orkuframleiðslu á svæðinu á komandi áratugum.

Á vegum verkefnisins voru reiknaðar sviðsmyndir loftslags fyrir tímabilið 2021-2050 og niðurstöður bornar saman við tímabilið 1961-1990. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hlýnun og verður hún mest um 3°C að vetrarlagi í Finnlandi og á norðanverðum Skandinavíuskaga. Hlýnun er áætluð 1-2°C á svæðinu öllu að sumarlagi.

Úrkoma mun að líkindum aukast um 5-15% en litlar breytingar verða á meðalvindhraða. Jöklar munu rýrna mjög og hörfa og afrennsli frá þeim verður í hámarki á tímabilinu 2040-2070. Hlutur snævar í heildarúrkomu mun minnka og dregur þá að sama skapi úr umfangi vorleysinga. Aftakaflóð munu sums staðar minnka en stækka á svæðum þar sem úrkoma fer vaxandi. Aukin jöklaleysing og úrkoma mun víða leiða til vaxandi afrennslis til uppistöðulóna og verður þá mögulegt að auka raforkuframleiðslu um 10% á Norðurlöndum utan Íslands, en um allt að 20% hérlendis.

Miklir möguleikar eru enn til aukinnar nýtingar vindorku á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum, jafnvel þótt vindafl á svæðinu muni ekki taka miklum breytingum í hlýnandi loftslagi. Hraðari vöxtur skóga mun gera kleift að auka orkuframleiðslu sem byggir á lífrænum orkugjöfum, auk þess sem stefnt er að auknum mónytjum í sumum landanna, m.a. til eldsneytisframleiðslu.

Viðskipti með raforku milli einstakra landa á svæðinu (utan Íslands) munu aukast og útflutningur raforku til annarra Evrópulanda fara vaxandi. Lögð er áhersla á verulega óvissu í sviðsmyndum og líkanreikningum af veðurfari, vatnafari, jöklabreytingum og skógavexti í framtíð og því var á vegum verkefnisins fengist við áhættumat varðandi fjárfestingar í orkuiðnaði. Verkefnið Climate and Energy Systems hefur treyst samstarf norrænna loftslagsfræðinga og orkugeirans og leitt af sér ný samstarfsverkefni með skyldar áherslur.

Verkefnisstjóri CES er Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, og aðalritstjóri lokaskýrslunnar er Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofunni.

Eldri fréttir um  verkefnið (frá 2010):

Lokaráðstefna CES

Norræn rannsóknarverkefni



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica