Fréttir
skýli í krapahrönn
Krapahrönn eftir leysingar í Fnjóská. Skýli yfir vatnshæðarmæli er umlukið.

Um notkun textaspáa og staðaspáa

11.2.2011

Talsvert hefur borist af fyrirspurnum um staðaspár á síðustu dögum og því bendir Veðurstofan á leiðbeiningar um notkun staðaspáa sem lesa má hér á vefnum.

Við gerð veðurspáa nýta veðurfræðingar veðurlíkön og veðurathuganir, jafnt á jörðu niðri sem frá veðurtunglum, veðurkönnum, flugvélum og veðursjá, auk þekkingar á veðurfræði og veðurlíkönum, til að meta ástand og útlit hverju sinni.

Veðrið er vaktað allan sólarhringinn alla daga ársins á Veðurstofu Íslands. Veðurspár eru skrifaðar oft á sólarhring og iðulega gefnar út viðvaranir um vá vegna veðurs.

Tölvureiknuðu spánum ber ekki alltaf saman um veigamikil atriði eins og brautir lægða, dýpt þeirra og tímasetningu umskipta í veðri. Sjálfvirkar veðurspár, bæði staðaspár og veðurþáttaspár, eru byggðar á einni tölvureiknaðri spá. Staðaspáin er að auki eingöngu reiknuð fyrir þá veðurstöð sem um ræðir. Það er því eðlilegt að einhver munur sé á sjálfvirkri spá og textaspá sem tekur tillit til fleiri þátta, auk þess að ná yfir stærra svæði.

Það er því ekki að tilefnislausu að notendum vedur.is er bent á að sé munur á sjálfvirkri spá og textaspá þá gildir textaspáin.

Veðurþáttaspárnar sem birtar eru á vedur.is eru reiknaðar í punktum með 3 km millibili fyrir landið og miðin, tvo daga fram í tímann. Ströndin og landslagið koma nokkuð vel fram og því er vindamynstur í samræmi við landslagið þó vindhraði sé ekki alltaf réttur. Augljóst er að tölvuspár sem reiknaðar eru með mun lengra á milli punkta taka minna tillit til raunverulegs landslags.

Auðvelt er að nálgast bæði textaspár og myndrænar sjálfvirkar spár Veðurstofu Íslands á vefnum og í farsíma. Textaspár eru lesnar í útvarpi og á símsvara, auk þess sem viðvaranir og stutt veðurspá er lesin reglulega á helstu útvarpsstöðvum. Skipuleggjendur ferða geta ávallt leitað til vakthafandi veðurfræðinga á Veðurstofu Íslands ef þörf er á, ekki síst þegar misræmi er á milli sjálfvirkra spáa og textaspár.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica