Fréttir
Fjölmenni sótti kynninguna

Veruleg þörf á aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga

Fjölmenni sótti kynningu á nýrri skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi

3.5.2018

Fjölmenni sótti kynningarfund á nýrri skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi sem haldinn var á Veðurstofunni í dag. Umhverfisráðuneytið hefur í tvígang látið vinna skýrslur um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Þær voru unnar af Vísindanefnd um loftslagsbreytingar og kom sú fyrsta út árið 2000 og sú næsta árið 2008. Árið 2014 var farið að huga að ritun næstu skýrslu og var Vísindanefnd um loftslagsbreytingar skipuð haustið 2015 aðilum frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Nýja skýrslan bætir miklu við fyrri skýrslur vísindanefndar. Í þessari skýrslu er m.a. fjallað ítarlegar um súrnun sjávar, sjávarstöðubreytingar, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá, samfélagslega innviði og nauðsynlega aðlögun vegna þessa. Einnig eru uppfærðar  upplýsingar úr fyrri skýrslum um hlýnun síðustu áratuga og áhrif hennar á náttúrufar á landi og í hafinu umhverfis það.

Helstu niðurstöður skýrslunnar.

  • Frá aldamótum og fram að miðbiki aldarinnar er líklegt að hlýni um 1.3 - 2.3 °C á landinu og hafsvæðinu umhverfis það. Umfang hlýnunar ræðst af losun gróðurhúsalofftegunda og ef hún verður mikil getur hlýnun til loka aldarinnar náð 4°C.
  • Bráðnun og þynning jökla veldur landrisi og umfangsmiklum breytingum á vatnafar á jaðri þeirra.
  • Hlýnun hefur aukið afrakstur ræktarlands og trjávöxt, en á móti kemur að ýmsir skaðvaldar gróðurs hafa orðið meira áberandi.
  • Á hnattræna vísu er súrnun sjávar hvað örust í hafinu nærri Íslandi og því líklegt að neikvæð súrnun komi því fyrr fram hér.
  • Breytingar á ástandi sjávar hafa haft veruleg áhrif á vistkerfi sjávar sem skýrir að hluta breytingar í stofnstærð og útbreiðslu sumra uppsjávarfiska, sérstaklega loðnu, makríls og sandsílis.
  • Sjávarstöðu- og úrkomubreytingar hafa áhrif á fráveitur og ofanvatnskerfi, og veruleg þörf er á aðlögun slíkra kerfa.
  • Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um aðlögunarþörf vegna afleiðinga loftslagsbreytinga, og ólíkt nágrannaþjóðum er ekki til landsáætlun í þeim efnum. Lítið hefur verið hugað að samlegðaráhrifum mótvægisaðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðum til aðlögunar.

Nánar má kynna sér efni skýrslunnar hér.

20180503-_DSC7417

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, afhenti Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra fyrsta eintakið. (Ljósmyndir: Sigurjón Magnússon)

20180503-_DSC7462

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands og formaður Vísindanefndar, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar.

20180503-_DSC7481

Fulltúar í Vísindanefnd, frá vinstri: Halldór Björnsson, Veðurstofu Íslands, formaður, Trausti Jónsson, Veðurstofu Íslands, Trausti Baldursson, Náttúrufræðistofnun Íslands, Jón Ólafsson, Háskóla Íslands, Snjólaug Ólafsdóttir, ritari nefndarinnar frá Andrými ráðgjöf, Ólafur S. Ástþórsson, Hafrannsóknastofnun, Sæmundur Sveinsson, rektor Landbúnaðarháskólans sat fyrir Bjarna Diðrik Sigurðsson. Einnig Brynhildur Davíðsdóttir, Háskóla Íslands, sem var fjarverandi.

Smelltu hér til að horfa á upptöku frá kynningunni.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica