Loftslagsskýrsla 2018

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Skýrsla vísindanefndar 2018

Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar var gefin út 3. maí 2018. Skýrslan bætir miklu við fyrri skýrslur vísindanefndar um sama efni, en þær komu út árin 2000 og 2008. Í þessari skýrslu er m.a. fjallað ítarlegar um súrnun sjávar, sjávarstöðubreytingar, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá, samfélagslega innviði og nauðsynlega aðlögun vegna þessa. Einnig eru uppfærðar  upplýsingar úr fyrri skýrslum um hlýnun síðustu áratuga og áhrif hennar á náttúrufar á landi og í hafinu umhverfis það.

Hægt er að hlaða niður allri skýrslunni hér (15MB)

Hér fyrir neðan eru hlekkir á einstaka kafla skýrslunnar.

Kafli 1 - Ágrip

Umfjöllun um hnattrænar loftslagsbreytingar í þessari skýrslu byggist að mestu á nýjustu samantektum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem gefnar voru út 2013 og 2014. Þær hafa verið uppfærðar þar sem þörf var á. Í skýrslunni er einnig leitast við að taka saman og gefa yfirlit um þær loftslagstengdu breytingar sem orðið hafa á náttúrufari, lífríki og samfélagi landsins frá útkomu síðustu skýrslu nefndarinnar árið 2008. 

Hlaða niður kafla

Kafli 2 - Inngangur

Um þessar mundir eru um tvær aldir síðan vísindalegur skilningur á áhrifum lofthjúpsins á hitafar við yfirborð jarðar tók að mótast. Upp úr miðbiki 19. aldar varð ljóst að vissar lofttegundir raska varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar eru hlýrri en ella væri. Þessi áhrif eru kölluð gróðurhúsaáhrif og lofttegundirnar gróðurhúsalofttegundir. Án þeirra væri meðalhiti jarðar undir frostmarki og hún vart lífvænleg. 

Hlaða niður kafla

Kafli 3 - Hnattrænar loftslagsbreytingar

Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar hvort sem litið er til síðustu áratuga eða árþúsunda. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu snævar og íss auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist. Þessa staðhæfingu má finna í upphafi fimmtu úttektarskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC1) frá árinu 2013. 

Hlaða niður kafla

Kafli 4 - Veðurfarsbreytingar á Íslandi

Ísland liggur á mörkum kaldtempraðs- og heimskautaloftslags. Í samanburði við staði á sömu breiddargráðu er hér hlýrra, árstíðasveifla minni en úrkoma meiri. Rannsóknir sýna að á nútíma (frá síðasta jökulskeiði) hefur spönn langtímabreytinga á Íslandi verið um 4°C sem eru mun meiri hitabreytingar en á jörðinni á sama tíma. Síðustu þúsundir ára kólnaði á landinu, en þó skiptust á hlýrri og kaldari tímabil. Kaldasta tímabil nútíma virðist hafa verið á litlu-ísöld sem lauk í upphafi 20. aldar. 

Hlaða niður kafla

Kafli 5 - Breytingar á jöklum, vatnafari og sjávarstöðu

Íslenskir jöklar náðu mestri útbreiðslu í lok 19. aldar. Síðan hafa þeir hopað mikið og flatarmál þeirra dregist saman um nálægt 2000 km2 sem er um 15% samdráttur. Hörfunin átti sér einkum stað á tveimur tímabilum, í hlýindum á 3. og 4. áratug síðustu aldar og frá 1995. Á tímabilinu 2000 til 2014 nam samdrátturinn rúmlega 500 km2, eða um 0,35% á ári. 

Hlaða niður kafla

Kafli 6 -Súrnun sjávar

Súrnun hafsins er staðreynd, staðfest með beinum mælingum og fræðilegum reikningum. Til að komast hjá stórfelldum breytingum á lífríki og vistkerfum í höfunum þarf að minnka losun CO2 stórlega. Framtíð hafsins ræðst af því hvernig losun manna á koltvíoxíði verður háttað og til hvaða aðgerða verður gripið fyrr en síðar. Súrnun sjávar hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins og skelfiskræktun. 

Hlaða niður kafla

Kafli 7 - Breytingar á ástandi sjávar og áhrif á lífríki í sjó

Langtímavöktun á ástandi sjávar á landgrunninu umhverfis Ísland hefur sýnt breytileika, bæði milli ára og áratuga, sem oftast tengjast víðáttumeiri veðurfarssveiflum í Norður-Atlantshafi. Frá því rétt fyrir aldamót fram til ársins 2016 hafa hiti og selta í sjónum umhverfis Ísland oftast verið um og yfir meðaltali. Breytingar á ástandi sjávar hafa á undanförnum áratugum haft veruleg áhrif á framvindu mikilvægra þátta vistkerfisins í sjónum. 

Hlaða niður kafla

Kafli 8 - Áhrif loftslagsbreytinga á lífríki Íslands

Áhrif loftslagsbreytinga á íslensk spendýr eru í flestum tilvikum óbein og tengjast fyrst og fremst breytingum á fæðuframboði. Breytileiki í veðrakerfum og hafstraumum hefur áhrif á sjávarlífverur og sýnt hefur verið fram á að það hafi áhrif á fæðuval sumra spendýra. Gera má ráð fyrir að fækkun í sjófuglastofnum hafi áhrif á afkomu refa, sérstaklega á þeim svæðum þar sem sjófuglar eru stór hluti fæðunnar. 

Hlaða niður kafla

Kafli 9 - Ræktað land

Engum sem byggir afkomu sína á ræktun jarðargróða eða sem er áhugamaður um slíka landnýtingu dylst að miklar breytingar hafa orðið á ræktunarskilyrðum á Íslandi á síðustu árum og áratugum. Af þeim hnattrænu umhverfisbreytingum sem ganga nú yfir jörðina eru það einkum veðurfarsbreytingar og síhækkandi styrkur CO2 í andrúmslofti sem gætu hafa haft mælanleg áhrif á vaxtarskilyrði hér á landi. 

Hlaða niður kafla

Kafli 10 - Aðlögun í alþjóðlegu samhengi og framkvæmd

Í Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992 var strax lögð áhersla á aðlögun, þrátt fyrir að upphaflega hafi meiri áhersla verið lögð á mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Þessi áherslumunur tók að breytast þegar þriðja matsskýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna kom út árið 2001 en þar var lögð mikil áhersla á mikilvægi aðlögunar.

Hlaða niður kafla

Kafli 11 - Áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnuvegi og samfélag

Áhrif loftslagsbreytinga á innviði eru af margvíslegum toga og fara áhrifin eftir staðsetningu, tjónnæmi og aðlögunarhæfni. Í sumum tilvikum geta áhrifin verið jákvæð, svo sem í orkuframleiðslu sem tengist jökulám, eða neikvæð, eins og t.d. áhrif sjávarstöðuhækkunar á fráveitukerfi. Í þessum kafla er fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á innviði og atvinnuvegi.

Hlaða niður kafla

Kafli 12 - Náttúruvá

Athuga þarf hvort ástæða sé til að uppfæra hönnunarstaðla fyrir fráveitumannvirki til að mæta aukinni ákefð úrkomu í framtíðinni. Brýn þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á rigningaflóð í þéttbýli, efla þarf athugananet og bæta gögn um landupplýsingar. Líklegt er að rigninga- og leysingaflóð muni taka breytingum við hlýnandi veðurfar. 

Hlaða niður kafla

Um skýrsluna

Umhverfisráðuneytið hefur í tvígang látið vinna skýrslur um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Þær voru unnar af Vísindanefnd um loftslagsbreytingar og kom sú fyrsta út árið 2000 og sú næsta árið 2008. Árið 2014 var farið að huga að ritun næstu skýrslu og var Vísindanefnd um loftslagsbreytingar skipuð haustið 2015 aðilum frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Nýja skýrslan bætir miklu við fyrri skýrslur vísindanefndar um sama efni. Í þessari skýrslu er m.a. fjallað ítarlegar um súrnun sjávar, sjávarstöðubreytingar, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá, samfélagslega innviði og nauðsynlega aðlögun vegna þessa. Einnig eru uppfærðar  upplýsingar úr fyrri skýrslum um hlýnun síðustu áratuga og áhrif hennar á náttúrufar á landi og í hafinu umhverfis það.

.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica