Um hitafar á Íslandi og á norðurhveli frá landnámi til 1800
Flestar greiningar á veðurlagi fortíðar með aðstoð ritaðra heimilda (sjá t.d. Ogilvie 1991, 1992, 1996 og Ogilvie og félaga 2000 [35-39]) og svokallaðra veðurvitna [2] benda til þess að talsverðar sveiflur hafi verið í veðurlagi hér á landi frá landnámi til okkar daga.
Ársmeðalhiti er algengastur mælikvarða á veðurfar fortíðar hér á norðurslóðum, en á suðlægari breiddarstigum eru breytingar á úrkomu gjarnan veigamestar árferðisþátta.
Þótt Ísland sé á mörkum hins byggilega heims þegar illa árar hefur árferði aldrei orðið það slæmt til lengdar að byggð hafi eyðst í landinu. Þetta setur ágiskunum um veðurlag fortíðar nokkrar skorður. Við þekkjum nú hitafar í landinu í grófum dráttum aftur til upphafs 19. aldar.
Breyttar aðstæður
Efnalegar framfarir voru byrjaðar í landinu þegar hið erfiða kuldakast frá 1859 til 1888 reið yfir þannig að við vitum ekki hvernig samfélag fyrri alda hefði tekið sambærilegu 30 ára kuldakasti.
Við þykjumst geta fullyrt að samfélag nítjándu aldar hefði þolað ívíð verra kuldakast því fólki fjölgaði í landinu. Hluti fjölgunarinnar flutti hins vegar til Vesturheims. Í ámóta kuldakasti á 17. öld hefði sennilega orðið hungursneyð.
Þótt menn greini nokkuð á um það hver landgæði voru hér við landnám er næsta víst að gróður var þá mun betur á sig kominn en nú og hefur honum hnignað fram undir þetta. Erfitt er að greina áhrif versnandi veðurlags annars vegar og áníðslu á landinu hins vegar í sundur. Ekki er víst að landgæðahnignun sé eingöngu hægt að túlka sem versnandi veðurlag.
Fullvíst er talið að jöklar hafi gengið fram eftir landnám og náðu sumir þeirra ekki hámarksútbreiðslu fyrr en seint á 19. öld. Eins og minnst var á annars staðar hafa menn hingað til einkum reynt að lesa í veðurlagið með aðstoð heimilda um harðindi og góðæri, auk þess sem greinilegt samband er milli hafíss og veðurlags. Einnig er vitað að jöklar hafa gengið fram á sögulegum tíma, en mikil óvissa er um útbreiðslu þeirra við landnám. Nokkra vissu telja menn fyrir því að sumir jöklar hafi ekki náð hámarksútbreiðslu fyrr en undir lok 19. aldar, en aðrir eitthvað fyrr (Hjalti Guðmundsson, 1997 [11]).
Aftur uppNý gögn til rannsókna
Á síðustu árum er smám saman að bætast í jarðsögulegar upplýsingar á tíma byggðar í landinu, mest þó með kjarnatöku í sjávar- og vatnaseti, rannsóknum nærri sporðum skriðjökla landsins og gróður- og byggðarannsóknum ýmiss konar. Enginn hefur þó tekið það allt saman og lesið nýja heildarmynd eða staðfest hina gömlu, enda liggja niðurstöður þessara nýju rannsókna ekki endanlega fyrir. Því er ekki hægt að fjalla um þær hér og fátt um ný tíðindi, en vonandi að úr rætist fljótlega.
Ýmislegt (sjá t.d. Jennings og félaga 2001 [17]) bendir til þess að meginuppblástursskeiðið hafi þó e.t.v. ekki hafist fyrr en seint á 17. öld eða jafnvel síðar og það var ekki fyrr en á 19. öld sem sandurinn hélt loks innreið sína niður á austanvert Suðurlandsundirlendið (Guðmundur Árnason, 1958 [6]).
Og uppblástur heldur enn áfram þótt víða hafi vörn verið snúið í sókn (sjá t.d. Ólaf Arnalds og félaga, 2001 [41]). Á skammvinnu hlýskeiði 19. aldar leitaði byggð til heiða sökum fólksfjölgunar, líklegt er að slíkt hafi gerst áður á hlýrri tímabilum þó ekkert skuli um það fullyrt né fjallað um frekar hér.
Mynd 1. Hiti á norðurhveli frá upphafi Íslandsbyggðar, áætlaður með fjölvitnagreiningu (sjá ítarefni). Ágiskun Mann, M.E. and P.D. Jones (2003 [31]). Gögn fengin frá: Mann, M.E. and P.D. Jones, 2003. 2,000 Year Hemispheric Multi-proxy Temperature Reconstructions, IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology. Data Contribution Series #2003-051.
Aftur uppNýlegar rannsóknir á veðurfari fortíðar
Á síðastliðnum 10 árum eða svo hefur ágiskunum á veðurfari fortíðar fleygt mjög fram og hafa verið gerðar margar tilraunir til að búa til hitaraðir bæði fyrir ákveðna staði sem og fyrir allt norðurhvel jarðar. (Í ritgerð Overpeck og félaga (1996 [40]) má finna dæmi um fjölmargar vitnaraðir norðurslóða.)
Aðferðirnar eru margar og er aðeins fjallað um þær vinsælustu í ítarefni. Spurningin er þá hvort þær gagnast okkur nokkuð í ágiskunum um hitafar Íslandssögunnar. Margs konar fyrirvara verður að hafa á því en við skulum samt líta á nokkur dæmi.
Mynd 1 sýnir þá þekktustu af þessum ágiskunum. Hún er ýmist kennd við höfundana, þá Michael Mann og Philip Jones (sjá t.d. Mann og Jones, 2003 [31]) eða við hokkíkylfu (hokkíkylfan). Síðarnefnda nafnið er fengið af lögun útjafnaða ferilsins (þess bláa á myndinni), löng stöng með stuttum krók. Grái ferillinn á ekki við árin hvert fyrir sig, heldur er í heimildinni sett á hann sía sem leggur áherslu á áratugi, eins konar 10-ára keðjumeðaltal.
Sé rétt giskað má hér sjá að hlýtt var á norðurhveli frá upphafi Íslandsbyggðar og fram yfir aldamótin 1100. Síðan tók við heldur kaldari tími fram yfir 1400 og að því loknu enn kaldara skeið fram yfir 1900 og mun hlýrra síðan.
Aftur upp
Litla ísöldin
Hugtakið „Litla ísöld“ hefur verið notað um óljóst tímabil innan síðustu þúsund ára, hér má segja að hún standi frá 1450 til 1900 (sjá t.d. Astrid Ogilvie og Trausti Jónsson, 2000 [39] ). Einnig má túlka þetta eftir bláu línunni, að hægt og bítandi hafi kólnað frá 1100 og fram á 17. öld, síðan hafi heldur hlýnað fram yfir 1900 og mikið síðan.
Þetta virðist segja svipaða sögu og sú mynd sem hingað til hefur verið dregin upp af veðurfari á Íslandi (sjá t.d. Pál Bergþórsson [44] og Sigurð Þórarinsson [50]). Kvarðinn er þó talsvert annar eins og við er að búast. Kvörðun veðurvitna er alltaf mikið vandamál. Sjáum við dæmi um það hér á eftir. Af fjórum síðustu öldum er hin 17. greinilega sú kaldasta, síðan kemur hin 19. og sú 18., en 20. öldin er langhlýjust aldanna fjögurra, sú hlýjasta frá landnámi.
Ritaðar heimildir segja okkur mjög lítið um 15. og 16. öldina, ágiskunin hér er því e.t.v. betri en engin. Við vitum af kuldaköstum á 13. og 14. öld og almennt er talið að hlýtt hafi verið fyrstu aldir byggðar í landinu.
Mynd 2. Hiti á norðurhveli frá upphafi Íslandsbyggðar, áætlaður með fjölvitnagreiningu (sjá ítarefni). Ágiskun Moberg og félaga (2005 [32]). Grái ferillinn sýnir 11- ára keðjumeðaltöl upprunalegrar gagnaraðar (vinstri kvarði ? þykkdregna línan er enn frekari útjöfnun). Rauði ferillinn sýnir 11-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi (hægri kvarði). Gögn fengin frá: Moberg, A., et al. 2005. 2,000-Year Northern Hemisphere Temperature Reconstruction. IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology Data Contribution Series # 2005-019.
Séu myndir 1 og 2 bornar saman má sjá að heildarsveiflan er talsvert stærri hjá Moberg og félögum heldur en hjá Mann og Jones. Aðalatriðin eru þó hin sömu, hlýtt er fram yfir aldamótin 1100, síðan tekur heldur kaldari tími við fram um 1450, en kuldakastið um 1350 er veigaminna hjá Moberg. Þar koma köldustu kaflarnir á 16. öld en 17. öldin er líka mjög köld. Nítjánda öldin virðist svipuð eða ívið hlýrri en sú 18. og báðar síðasttöldu aldirnar virðast greinilega hlýrri en hin 17. Tuttugasta öldin er hér álíka hlý og 11. öld, en var talsvert hlýrri hjá Mann og Jones, ágiskun Moberg nær ekki nema fram til 1979, en síðan þá hefur hlýnað verulega.
Hvað Íslandssöguna varðar eru þessar ágiskanir álíka trúlegar og á þessu stigi málsins er varla hægt að segja hvor giskar betur. Í aðalatriðum virðast ferill Mobergs og Stykkishólmsferillinn (sá rauði á mynd 2) fylgjast að (athugið þó kvarðamuninn), þeir sýna báðir umtalsverða hlýnun á síðustu 200 árum. Spurning er hvort við trúum því að áberandi kaldara tímabil hafi komið hérlendis um 1600. Ísland er þrátt fyrir allt eyja úti í hafi og líklegt má því telja að mestu kuldakasta meginlandanna gæti ekki hér í alveg sama mæli, þrátt fyrir hafísinn.
Mynd 3. Hiti á norðurhveli frá 1500 (blár ferill, borholugreining Huang, 2004 [14]) og frá 1600 (jöklasporðagreining Oerlemans, 2005 [34]). Grái ferillinn sýnir 11-ára keðjumeðaltöl í Stykkishólmi. Gögn Huang fengin frá: Huang, S.. 2004. Integrated Northern Hemisphere Surface Temperature Reconstruction. IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology. Data Contribution Series #2004-063 og gögn Oerleman frá: Oerlemans, J. 2005. Global Glacier Length Temperature Reconstruction. IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology Data Contribution Series #2005-059.
Aftur uppBorholugreining
En ágiskanirnar eru fleiri fyrir norðurhvelið allt. Mynd 3 sýnir tvær þeirra, borholugreiningu Huang og jöklasporðagreiningu Oerlemans. Borholuferillinn er samsuða úr hitamælingum úr fjölmörgum borholum víða um norðurhvelið
Hér er rétt að hafa í huga að þó jörðin muni hitasveiflur á yfirborði, deyfast þær og smyrjast/þynnast út eftir því sem lengri tími líður. Holuhitamælingarnar bera með sér þau ótvíræðu skilaboð að hlýnað hefur á síðustu 300 árum, þótt þær segi hins vegar lítið sem ekkert um atburði á skemmri tímakvarða. (Lesa má meira um holumælingar og vandamál tengdum þeim í Huang og félögum (1996, 2000 og 2004 [12-14]).
Þekktustu holuhitamælingarnar eru úr holum grænlandsískjarnanna, en þar má enn sjá ísöldina greinilega (Dahl-Jensen og félagar, 1998 [5]).
Jöklaferillinn (Oerlemans 2005 [34]) er eðli málsins samkvæmt líka mjög útjafnaður, jöklar bregðast mishratt við veðurfarsbreytingum. Minnkun jökla hér á landi er ótvírætt merki þess að hlýnun hafi í raun og veru átt sér stað. Ferillinn hér sýnir að þetta á einnig við um norðurhvelið í heild.
Mynd 4 sýnir súrefnissamsætufrávik (δ18O í ?) í GISP2 ískjarnanum sem amerískir vísindamenn boruðu við hábungu Grænlandsjökuls fyrir um 15 árum (sjá t.d. Alley og félaga 2000 [2], Stuiver og félaga 1995 [52], White og félaga 1997[68]).
Athugið að frávikabilið -37? til -33? samsvarar um 10°C hitamun staðbundið, en allur Mobergkvarðinn á myndinni er 7°C. Spönn 11-ára Moberggagna er hins vegar aðeins um 0,9°C. Spönn 11-ára ískjarnagagna samsvarar um 7°C. Útjafnaði Moberg-ferillinn sýnir um 0,5°C spönn, en útjafnaði ísferillinn um 1°C. Í norðurhvelsferlinum er breytileiki á aldakvarða mikill hluti heildarbreytileikans en í ískjarnanum er aldabreytileikinn óverulegur miðað við breytileika frá einum áratug til annars.
Þetta er reyndar í góðu samræmi við mynd 1 í Hitabreytingar á Íslandi samanborið við nágrannalöndin sem sýndi hitafar á V-Grænlandi síðustu 150 árin. Ískjarnaferillinn sýnir um 1°C hækkun meðalhita frá því um 1800 til 1980. Þetta er ekki fjarri því sem hiti hækkaði hér á landi á sama tíma (sjá t.d. mynd 1 í Hitafar). Útjafnaði ísferillinn er lægstur um aldamótin 1800 og 18. öldin er sú kaldasta, en hún var hlýrri en sú 17. í öðrum áætlunum sem við höfum litið á.
Mynd 4. Fjölvitnaröð Moberg (rauðar línur) og súrefnissamsætufrávik úr GISP2-ískjarnanum á Grænlandi (Alley og félagar, 2000 [2]). Þunnar línur sýna 11-ára keðjumeðaltöl en þær þykkdregnu eru útjöfnun. Sjá annars megintexta.GISP2 ? gögn: Alley, R.B,. 2004.GISP2 Ice Core Temperature and Accumulation Data. IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology. Data Contribution Series #2004-013. Moberg og félaga, sjá texta með mynd 2.
Mynd 5 sýnir síðustu 400 ár GISP2-kjarnans (til og með 1977-1987) og síðustu 200 árin í Stykkishólmi. Í fljótu bragði virðist samræmi milli ferlanna ekki vera svo gott en þegar nánar er að gáð sést að mjög margir atburðir eru samtímis, þótt spönn þeirra sé misjöfn. Um þetta má lesa frekar í greinargerð (Trausti Jónsson, 2005 [62]).
Meginástæður misræmis virðast í fljótu bragði vera að minnsta kosti þrjár.
- Einstakir stórir og staðbundnir úrkomuatburðir á Grænlandi ríða gögnum sumra ára á slig
- Ískjarninn er tekinn við hábungu Grænlandsjökuls hún fréttir stundum illa af grunnum kuldum eins og þeim sem gjarnan fylgja miklum hafís við Ísland.
- Þegar mjög kalt er á Grænlandi, er hitabratti yfir til Íslands oft mjög mikill.
Slíkum hitabratta í háloftum fylgir oftast sunnanátt hér á landi sem vegur upp á móti áhrifum kuldanna. Á lengri kvarða, svo sem 100 árum, jafnast þetta misræmi þannig að ekki er ótrúlegt að gráa línan á mynd 30 geti átt við Ísland (sjá t.d. mynd 1 í Hitafar).
Mynd 5. Samsætufrávik í GISP2-kjarnanum á Grænlandi frá því um 1600. Þunn grá lína sýnir 11-ára keðjumeðaltöl, en sú þykka er útjöfnun (sömu gögn og línur og á mynd 4). Rauða línan sýnir 11-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi frá 1798. GISP2-gögn: Sjá texta með mynd 4.
Aftur uppSkýringar?
Menn hafa mjög reynt að skýra heildarsvip norðurhvelshita síðustu 1100 ára, þ.e. hlýindin í upphafi skeiðsins, kólnandi veðurlag eftir 1100, kuldann frá 1550 til 1900 og hlýnunina síðan. Reynd hafa verið líkön sem taka tillit til þekktra breytinga á geislunarmótun lofthjúpsins á þessu tímabili (sjá t.d. Crowley, 2000 [4]).
Helstu breytingaþættirnir eru:
- Breytingar í virkni sólar
- Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins
- Breytingar á armengun
- Breytingar á landnotkun
- Eldgos
- Breytingar á brautarþáttum jarðar
- Tilviljanakenndur, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar
1. Breytingar á virkni sólar hafa verið nokkrar
Hér verður ekki fjallað um eðli þessara breytinga en fjölmargir hafa reynt að magnsetja þær. Nýleg rannsókn (Lean, 2000 [27]) rökstyður t.d. að sólstuðullinn svonefndi hafi sveiflast um nærri 3 Wm-2 á síðustu 400 árum. Fyrir geislunarjöfnuð lofthjúpsins samsvarar þetta um 0,5 Wm-2 aukningu á þessu tímabili.
Rétt er að geta þess að ný skýrsla IPCC telur aukningu af völdum sólar aðeins vera um 0,1 til 0,2 Wm-2 frá 1750. Við skulum þá taka eftir því að samkvæmt Lean er hækkun sólstuðulsins frá 1750 um 2 Wm-2 (1 Wm-2 var þá þegar komið fram) eða lítillega meira en niðurstaða IPCC. Sólarvirknin hefur verið rakin lengra aftur í tímann.
Við sjáum á línuritinu á mynd 6 að kólnun norðurhvels frá 1860 til 1910 er samstíga minnkun á virkni sólar á sama tíma og að hækkunin frá 1920 til 1950 er einnig samstíga sólinni. (Lesa má um hitamæliraðir síðustu 150 ára í t.d. Jones og félögum (1999 [25]).)
Kyrrstaða er á virkni sólar eftir þann tíma, en hitinn sýnir fyrst lækkun (vegna armengunar?) en síðan gríðarlega hækkun, alveg úr takti við sólarbreytingar. Langflestir telja að aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum hafi valdið síðasta hlýnunarkastinu.
Mynd 6. Virkni sólar 1600 til 2000 (ágiskun Lean ? rauður ferill) ásamt 11-ára keðjumeðaltölum norðurhvelshita (CRU) frá 1856 (blár ferill). Sýnd eru mestu sólblettalágmörkin, hið fyrra á 17. öld, en þá var sólin nánast blettalaus í marga áratugi, en hið síðara snemma á 19. öld. Gögn frá Lean: Lean, J. 2004. Solar Irradiance Reconstruction. IGBP PAGES/World Data Center for Paleoclimatology. Data Contribution Series # 2004-035.
Mynd 7. Virkni sólar 1600 til 2000 (ágiskun Lean ? rauður ferill) ásamt 11-ára keðjumeðaltölum Stykkishólmshita frá 1798 (blár ferill). Sólargögn: Sjá texta með mynd 6.
Mynd sem ber saman hita í Stykkishólmi og sólvirkniferil Lean sýnir svipaða mynd. Hlýindaskeið 19. aldar fylgir sólvirknihámarki sama tíma furðuvel, en á síðari hluta aldarinnar er leitni ferlanna andstæð.
Hlýnunin eftir 1920 er snarpari í Stykkishólmi, en höfum í huga að teikna mætti myndina öðruvísi. Kuldakastið eftir 1960 sést ekkert í sólvirkninni og hlýnun síðustu 20 ára ekki heldur.
Aftur upp2. Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins
Þessar breytingar hafa orðið langmestar á 20. öld og nær eingöngu af manna völdum. Þær eru taldar valda stórum hluta hitaaukningarinnar sem hefur verið í gangi upp á síðkastið. Minniháttar breytingar voru í magni koltvísýrings á öldunum fyrir iðnbyltingu. Þessar breytingar eru inni í hermilíkönum og virðast skipta einhverju máli, en ósamkomulag er um hversu mikið.
Ástæða skammtímabreytileika koltvísýrings fyrir iðnbyltingu er oftast talin felast í breytingum á gróðurlendi af manna völdum, en um það er deilt. Aukinn skógarvöxtur í Evrópu eftir Svartadauða er t.d. talinn hafa dregið koltvísýring tímabundið úr lofthjúpnum, en hlutur hans lækkaði lítillega um það leyti.
3. Breytingar á armengun
Þær eru langmestar síðustu 2 - 3 hundruð árin, vegna umsvifa mannkyns. Mengun var sums staðar mjög mikil á 19. öld en nálgaðist það að verða hvelræn (norðurhvel) eftir síðari heimsstyrjöld og er talin aðalástæða hiksins sem kom í hlýnunina um svipað leyti. Að öðru leyti er armengun ekki kennt um atburði síðustu 1100 ára, þó að staðbundin áhrif gætu hafa gert sig gildandi.
Óbein áhrif ars á skýja- og úrkomumyndun er ekki talin hafa valdið neinum hnattrænum áhrifum síðasta árþúsundið ef stærstu eldgos eru undanskilin.
Aftur upp4. Breytingar á landnotkun
Breytingar á landnotkun geta haft bæði bein og óbein áhrif á veðurkerfin. Beinu áhrifin eru þau sem koma fram í breyttu endurskinshlutfalli jarðarinnar. Talið er að skógaeyðing á síðmiðöldum í Evrópu hafi haft einhver áhrif, skógeyðing í Kína og Evrópu á 18. öld og mikil skógeyðing á 19. öld í N-Ameríku og víðar. Skóglendið var víða einnig brotið til ræktunar.
Endurkastshlutfall akra er oftast meira en skóglendis og breytingar af þessu tagi valda því lækkun á meðalhita. Einna mestu munar þegar snævi þaktir akrar á vetrum koma í stað skóglendis eins og algengt var t.d. í Kanada. Talið er að aukin skógrækt í tempraða beltinu sé nú farin að verka í öfuga átt.
Lítið er vitað um stærð breytinga á endurgeislun síðustu 1000 árin, en hugmyndir eru þó um að þessar breytingar hafi haldið aftur af hækkun hita vegna aukinnar virkni sólar á 19. öld. Sá möguleiki eykur heldur óvissu varðandi bein áhrif breytingar á sólvirkni á hitafar.
Breytt landnotkun getur einnig haft óbein áhrif vegna þess að vatnsbúskapur stórra svæða breytist. Þetta getur haft áhrif á ferskvatnsstreymi til sjávar og á viðkvæmum svæðum er hugsanlegt að hringrás hafsins hnikist. Litlar líkur eru þó taldar á því að slík áhrif geti orðið á hvelsvísu.
Aftur upp5. Eldgos
Mjög stór eldgos geta haft umtalsverð áhrif á veðurlag en eru hins vegar flókin og verða ekki rakin hér. Í flestum tilvikum standa áhrifin aðeins í nokkra mánuði og upp í um tvö ár. Að meðaltali valda eldgos kælingu, tímabil þegar stór gos eru tíð eru því heldur kaldari en tímabil þar sem þau eru sjaldgæf. Unnið er að úttektum á eldgosum aftur í tímann. Er þá einkum stuðst við afurðir þeirra í ískjörnum.
Eldgos hafa verið mistíð í heiminum síðastliðin 1100 ár. Fyrri hluti 20. aldar var rólegur og hitahækkunin á þeim tíma er stundum kennd þessum rólegheitum.
Aftur upp6. Breytingar á brautarþáttum jarðarinnar
Breytingar á möndulhalla, sólnándarreki og hringviki eru litlar á 1000 ára tímakvarða, en hafa þó þróast þannig að til lítils háttar kólnunar leiðir á norðurhveli. Í upphaflegum greinum Mann og félaga (1998,1999 [29, 30]) um hitafar síðustu 1000 ára voru þessar breytingar taldar aðalorsakaþáttur kólnunarinnar eftir 1100 fram undir okkar daga.
Aftur upp7. Innri breytileiki
Eftir að farið var að keyra lofthjúps- og sjávarlíkön sem tóku tillit til þáttanna hér að ofan kom í ljós að þeir duga að mestu leyti til að skýra stærstu breytingar tímabilsins, þó að sumt sé samt á huldu. Tilraunir hafa verið gerðar með afskiptaleysi, þ.e. að láta líkön lofthjúps og hafs eingöngu ganga á eigin breytileika. Þessar tilraunir sýna að líklega er ekki hægt að kenna innri breytileika einum um allar hita- og úrkomubreytingar sem menn nú þekkja síðustu 1100 árin, orsaka breytinga sé fremur að leita í þeim fjölbreytta hvata sem þættirnir hér að ofan veita. Hugsanlegt er að fleira komi við sögu.
Flest virðist benda til þess að fremur hlýtt hafi verið á norðurhveli á 11. öld og sennilega einnig hér á landi. Veðurfari hafi hrakað á 13. og 14. öld og hiti hafi náð lágmarki á tímabilinu 1550 til 1700. Hiti hafi síðan heldur hækkað, en varla þó marktækt fyrr en seint á 19. öld. Mikið hlýnaði á 20. öld.
Erlendu gögnin hér að ofan eru flest fengin frá NOAA Satellite and Information Service.