Fréttir
Sólarupprás við Ölfusá 14. janúar 2016.

Tíðarfar í janúar 2016

Stutt yfirlit

1.2.2016

Tíð telst fremur hagstæð; hiti var víðast hvar rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en neðan meðallags síðustu tíu ára. Kalt var í veðri inn til landsins á landinu norðanverðu. Úrkoma var undir meðallagi um meginhluta landsins, og á fáeinum stöðvum um landið norðvestanvert var þetta þurrasti janúar um langt skeið.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var +0,2 stig, 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var -2,6 stig, -0,4 stig undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -2,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti janúar á Akureyri síðan 1995 en í Reykjavík var lítillega kaldara í fyrra heldur en nú.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik 1961 - 1990 röð af vik 2006 - 2015
Reykjavík 0,2 0,7 57 til 58 146 -1,0
Stykkishólmur -0,2 1,1 58 171 -1,0
Bolungarvík 0,1 1,3 38 119 -0,4
Grímsey 0,8 2,0 28 143 -0,3
Akureyri -2,6 -0,4 82 135 -2,7
Egilsstaðir -2,5 0,1 36 62 -2,3
Dalatangi 1,2 0,8 35 78 -1,1
Teigarhorn 0,3 0,5 58 til 59 144 -1,2
Höfn í Hornafirði 0,4 0,4 -1,1
Stórhöfði 2,0 0,7 49 140 -0,7
Hveravellir  -6,6 0,0 32 51 vantar
Árnes -1,3 0,7 56 137 -1,0

Að tiltölu var hlýjast við norðurströndina og á Vestfjörðum, þar sem hiti var á fáeinum stöðvum rétt við meðallag síðustu tíu ára, næst því á Flateyri og á Patreksfirði, -0,1 stig. Kaldast að tiltölu var inn til landsins á austanverðu Norðurlandi, stærsta neikvæða vikið, miðað við síðustu tíu ár, var -3,3 stig í Möðrudal og við Mývatn.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +3,2 stig, en lægstur við Kárahnjúka -6,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,6 stig. Talsvert vantaði af athugunum frá mörgum hálendisstöðvum og var mánaðarmeðalhiti þeirra því ekki reiknaður.

Mest frost í mánuðinum mældist -24,7 stig við Mývatn þann 15. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist -19,4 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 15.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Mörk á Landi þann 22., 12,0 stig. Þann dag voru janúarstöðvamet slegin á nokkrum stöðvum um landið sunnan- og vestanvert. Hæsti hiti á mannaðri stöð, 9,5 stig, mældist á Dalatanga þann 23. og þann 24. á Skjaldþingsstöðum.

Úrkoma

Úrkoma var undir meðallagi. Á nokkrum stöðvum á Vestfjörðum, við innanverðan Breiðafjörð, í Hrútafirði og vestantil í Húnavatnssýslu, virðist hún hafa verið minni en áður hefur mælst á þeim slóðum. Endanlegt uppgjör liggur þó ekki fyrir, þannig að hægt sé að skera úr um það með fullri vissu enn sem komið er.

Úrkoman í Reykjavík mældist 61,5 mm og er það um um 20 prósent undir meðalúrkomu áranna 1961 til 1990 – ekki mjög óvenjulegt. Á Akureyri mældist úrkoman 51,5 mm og er það um 7 prósent undir meðallagi. Í Stykkishólmi var úrkoman aðeins rétt rúmur helmingur meðalúrkomu, þurrara var þó þar í janúar 2014. Úrkoma mældist 152,1 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 í Reykjavík, 3 færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 8, 3 færri en í meðalári eins og í Reykjavík.

Ískristallar
""
Ískristallar, 1-2 sentímetra hrím, á snjóyfirborði í Tungudal við Skutulsfjörð. Krónupeningurinn sýnir stærð kristallanna. Yfirborðshrímið er sambærlegt við dögg sem myndast á sumrin. Ekki þarf nema mjög lítinn vind svo kristallarnir hrynji eins og spilaborg. Myndin er tekin 19. janúar 2016. Ljósmynd: Sigríður Sif Gylfadóttir. Sjá fróðleiksgrein um sama efni.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 22,2 og er það 4,7 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 11,1; 4,6 fleiri en í meðalári og flestar í janúar frá 2010.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,6 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,9 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára. Austlægar áttir voru ríkjandi alla daga mánaðarins nema fjóra. Mjög hvasst af austri var víða um land þann 7. og 8.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 998,1 hPa og er það 2,2 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Gufuskálum þann 25., 965,8 hPa, en hæstur 1027,9 hPa á Egilsstaðaflugvelli þann 15.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 12, þremur færri en að meðallagi 1971 til 2000, snjómagn var þó í meðallagi. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 23 og er það í meðallagi.

Skjöl fyrir janúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2016 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í janúar 2016, er einnig hægt að lesa sem pdf (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica