Greinar
Yfirborðshrím
Yfirborðshrím á ísilögðum polli ofarlega í Þjórsárdal 12. mars 2009.

Yfirborðshrím

Guðrún Nína Petersen 7.4.2009

Yfirborðshrím myndast þegar hluti af vatnsgufunni í loftinu þéttist og hélar á yfirborði, þ.e. ís myndast beint úr vatnsgufu. Yfirborðshrím getur myndast á t.d. snjóþekju, ís, grasi, trjágreinum og bílum.

Skilyrði fyrir ísmynduninni er að loftið sé rakt og að yfirborðshitinn sé lægri en daggarmark loftsins. Það þýðir að þegar loftið kemst í snertingu við yfirborðið kólnar það niður fyrir daggarmarkið og rakinn þéttist á yfirborðinu sem hrím. Það verða því fasahvörf, vatn fer frá því að vera á formi vatnsgufu í að vera á föstu formi sem ís. Hrímið getur svo vaxið við það að vatnsgufa heldur áfram að þéttast á hríminu og kristallarnir stækka. Hér skiptir máli að það sé hægur vindur svo að rakt loft berist að yfirborðinu en hvass vindur brýtur kristallana jafnóðum og feykir þeim í burtu.

Yfirborðshrím
Yfirborðshrím
Yfirborðshrím á ísilögðum polli ofarlega í Þjórsárdal 12. mars 2009. Ljósmynd: Ólafur Freyr Gíslason.

Yfirborðshrím getur tekið á sig mismunandi myndir, allt eftir rakastigi og frosti, líkt og snjókristallar. Það geta myndast stórir kristallar, sem minna á laufblöð eða flatar plötur, oft margir saman, eða stærri sexhyrndir, holir bollakristallar. Myndirnar sýna yfirborðshrím af fyrri tegundinni, stóra laufblaðslíka kristalla sem mynduðust á ísi lögðum polli.

Ef yfirborðshrím á snjóþekju lendir undir meiri snjó getur það haldist óbreytt í lengri tíma. Hrímið myndar þá lélega tengingu milli snjóþekjunnar yfir og undir, svokallað veikburða lag í snjóþekjunni. Snjóflóð geta orðið vegna bresta í veikburða lögum þó að algengast sé á Íslandi að snjófljóð falli í aftakaveðrum með mikilli snjókomu og skafrenningi.

Sjá fleiri dæmi um yfirborðshrím.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica