Fréttir
Vindaspá fyrir miðnætti sunnudagsins.

Varað við illviðri og vatnavöxtum

Illviðri spáð síðdegis á sunnudag og fram á mánudag - mjög slæmt ferðaveður

28.11.2014

Veðurstofan vekur athygli á spá um illviðri síðdegis á sunnudag og fram á mánudag (sjá einnig viðvörun vegna vatnavár hér undir).

Spár gera ráð fyrir að hraðfara og dýpkandi lægð nálgist landið sunnan úr höfum á sunnudag með vaxandi suðaustanátt, meðalvindhraði víða á bilinu 18-25 m/s síðdegis. Suðaustanáttinni fylgir rigning eða slydda og er útlit fyrir talsverða úrkomu S- og V-lands. Það er útlit fyrir þíðu á láglendi, en líkur eru á að það verði slydda eða snjókoma á heiðum og fjöllum.

Á sunnudagskvöldið verður lægðin á norðurleið skammt vestan við landið og sunnan við hana er mikill vindstrengur. Á sunnudagskvöldið og aðfaranótt mánudags mun þessi strengur herja á landið. Má búast við vestan og suðvestan 20-30 m/s á suðurhelmingi landsins um kvöldið en norðantil aðfaranótt mánudags. Með vestanáttinni kólnar og færir úrkoman sig yfir í að vera á formi snjóélja. Það er sem sagt búist við að meðalvindhraði geti farið yfir 28 m/s sem kallast ofsaveður skv. vindstigakvarða Beaufort sem lengi var við lýði. Búast má við hættulegum vindhviðum og að þær geti náð yfir 50 m/s við fjöll, þá einkum hlémegin, norðan og austan þeirra.

Á mánudagsmorguninn er gert ráð fyrir suðvestan stormi (18-25 m/s) en að allhvass eða hvass vindur verði síðdegis (13-20 m/s). Útlit er fyrir éljagang, en að létti til norðaustan- og austanlands. Þá kólnar í veðri, hiti um og undir frostmarki þegar kemur fram á daginn.

Af ofansögðu er ljóst að spáð er vonskuveðri síðdegis á sunnudaginn og fram á mánudag og mjög slæmt ferðaveður.

Þessi tilkynning er unnin með aðstoð tölvuspáa með greiningartíma kl. 00 á föstudag. Veðurspár verða að jafnaði áreiðanlegri eftir því sem þær ná styttra fram í tímann. Þegar ný gögn berast eru spár uppfærðar og má sjá þær m.a. á vef Veðurstofunnar. Taka skal fram að þegar mismunur er á textaspám og sjálfvirkum spám (staðaspár, veðurþáttaspár) þá gildir textaspáin.

Eftir tiltölulega rólegan og mildan nóvembermánuð er nú veður á Íslandi að skipta um gír og benda spár til að veður verði órólegt út næstu viku.

Viðvörun (pdf) gerð fös. 28. nóv. 2014 kl. 12:00
Vakthafandi veðurfræðingar:
Teitur Arason
Theodór Freyr Hervarsson

Viðvörun vegna vatnavár

Mikilli rigningu er spáð á Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Suðausturlandi á laugardag og fram á aðfaranótt mánudags. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 100 mm (sjá meðfylgjandi kort, stækkanlegt). Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökla og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð.

Vatnavársérfræðingar: Matthew J. Roberts og Jón Ottó Gunnarsson.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica