Greinar
maður klífur mastur, lágreist hús, malarvegur
Frá Sauðárkróki.

Nöfn vindstiga og greining veðurhæðar

Trausti Jónsson 21.11.2007

Veðurhæðar er nú að jafnaði getið í hraðaeiningunni metrar á sekúndu (m/s) enda er hann nú mældur með hraðamælum. Áður var notast við mat sem byggðist á svokölluðum Beaufort-kvarða. Kvarðinn sá hefur lengst af verið 13 stiga, lægst núll, hæst 12. Við matið var notast við töflu sem ber áhrif vindsins saman við mældan vindhraða. Beaufort-kvarðinn var upphaflega þróaður til notkunar á sjó og á seglskipum þar sem sjá mátti áhrif vinds á segl og sjávarlag við mismunandi vindhraða. Mat á áhrifum vindsins á landi hefur ætíð verið vandasamara. Vindhraðamælar voru lengi sjaldgæfir hér á landi, enda eru þeir dýrir.

Mat vindhraða eftir Beaufort-kvarða

Stig Heiti m/s Áhrif á landi
0 Logn 0-0,2 Logn, reyk leggur beint upp.
1 Andvari 0,3-1,5 Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki.
2 Kul 1,6-3,3 Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast.
3 Gola 3,4-5,4 Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra.
4 Stinningsgola 5,5-7,9 Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast.
5 Kaldi 8,0-10,7 Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist.
6 Stinningskaldi 10,8-13,8 Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi.
7 Allhvass vindur 13,9-17,1 Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu. 
 8 Hvassviðri 17,2-20,7  Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert. 
 9 Stormur 20,8-24,4  Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar.  
 10 Rok 24,5-28,4  Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.  
 11 Ofsaveður 28,5-32,6  Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti.  
 12 Fárviðri  >= 32,7   Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

Aftur upp

Nöfn vindstiganna

Nöfn þau sem notuð eru á vindstigin hafa ætíð verið mikið álitamál. Má í fyrsta lagi nefna að vindorð eru mun fleiri til í íslensku en þau formlegu sem talin eru í töflunni og í öðru lagi er tilfinning manna misjöfn gagnvart orðunum sjálfum. Jafnvel er á því landshlutamunur.

Í grein sem Jón Eyþórsson veðurfræðingur skrifaði í tímaritið Veðrið 19651 er nokkuð gott yfirlit um nafnasögu vindstiganna hér á landi. Hér er notast við það yfirlit, en einnig bætt við nokkrum atriðum. Jón bendir á að þó skilgreiningar vindstiganafna séu formlegar í leiðbeiningum Veðurstofunnar hafi notkun þeirra oftast spannað 1-2 vindstig fremur en að þau hafi hvert um sig fylgt einu þeirra strangt. Hann gefur upp eftirfarandi notkun:

  • gola                      3-4 vindstig
  • kaldi                     4-5
  • stinningskaldi       5-6
  • allhvass                6-7
  • hvassviðri             7-8
  • stormur                8-9
  • rok eða stórviðri  10 eða þar yfir 

Danska vísindafélagið

Menn hafa í meir en 200 ár reynt að staðla notkun á orðum yfir veðurhæð. Rasmus Lievog, sem var konunglegur stjörnuathugunarmeistari í Lambhúsum við Bessastaði frá 1779 og fram yfir aldamótin 1800, notaði forskrift danska vísindafélagsins (í lauslegri en bókstaflegri þýðingu), vindstigin voru 7:

  • Stille            (logn)                    (0)
  • Let Vind       (léttur vindur)       (1)
  • Vind             (vindur)                (2)
  • Blæst           (blástur)               (3)
  • Stærk Blæst (sterkur blástur)   (4)
  • Storm          (stormur)              (5)
  • Stærk Storm (sterkur stormur) (6)
Aftur upp

Leiðbeiningar Sveins Pálssonar

Í leiðbeiningum um veðurathuganir2 sem Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, setti saman á íslensku 1792 mælir hann með eftirfarandi vindstigaskiptingu, takið eftir að vindstigin eru aðeins fjögur:

  • Logn:         Þegar ekki finnst hvaðan hann er á
  • Gola:          Meðan ekki hvítstýfar á vatni
  • Hvassviðri: Þegar hvítfyssar vatn, en skefur ekki
  • Stormur:    Þegar vatn skefur, torfhús skjálfa s.fr.

Beaufortkvarðinn

Beaufortkvarðinn er frá upphafi 19. aldar - hann var í fyrstu miðaður við notkun á seglabúnaði stórra skipa, en síðar við útlit sjávar. Margar tilraunir voru gerðar til að kvarða hann við vindmæla og gegnum tíðina hafa vindstigin ekki alltaf merkt sömu vindhraðabil og festust fyrir um 100 árum, m.a. voru mörk 12 vindstiga ívið neðar um tíma en nú er. Einnig hefur verið misjafnt eftir löndum og tímum hvort miðað er við 1 mínútu, 10 mínútna eða klukkustundarmeðaltöl vindhraða.

Formlegur reikningur Beaufort-kvarðans

Vindhraðatafla Beaufort-kvarðans er frá 1903, þá var eftirfarandi jafna lögð til grundvallar:

  • V = 1.624 x B3/2 (gefur vindhraða í hnútum við miðgildi vindstigsins) eða
  • V = 0,836 x B3/2 fyrir m/s.

Árið 1944 var stiginn framlengdur eftir þessari formúlu allt upp í 17 vindstig (hitabeltisframlenging) en eftir u.þ.b. tvo áratugi gekk sú breyting til baka, þó enn sjáist hennar merki.

Esjan
skýjuð Esja, snjór í giljum, dimmur og úfinn sjór
Mynd 2. Esjan kl. 12 á hádegi 16. nóvember 2006. Ljósmynd: Eiríkur Þ. Einarsson.
Vindhraði á Skrauthólum undir Esjunni var 11,2 m/s (6 vindstig) úr 350°, sem telst hánorður. Hiti var -6,2°C. Skýin ofan á fjallinu flokkast eftir smekk annaðhvort sem cumulus fractus (tættir bólstrar) eða stratocumulus fractus (tætt flákaský).  Sjá ítarlegri umfjöllun.

Landkvarðinn

Sjö stiga kvarðinn (kallaður landstigi eða landkvarði) hélst í notkun í veðurathugunum hér á landi alla 19. öld og þrettán stiga kvarði var ekki tekinn upp hér á landi fyrr en í fyrstu veðurskeytunum (1906), en var síðan notaður við allar athuganir frá og með 1. janúar 1912.

Árni Thorlacius í Stykkishólmi notaði 7-skiptan kvarða frá upphafi 1845 - orðin eru sennilega frá Jónasi Hallgrímssyni eða öðrum hjá Bókmenntafélaginu.

  • 0 Logn
  • 1 Andvari
  • 2 Kaldi
  • 3 Stinningskaldi
  • 4 Hvassviðri
  • 5 Stormur
  • 6 Ofviðri
Aftur upp

Nafngiftir Magnúsar Grímssonar (?)

Í Lanztíðindum 15. júní 1850 er gerð grein fyrir vindhraða og vindhraðamælingum - Jón Eyþórsson telur séra Magnús Grímsson vera höfund textans. Þar eru vindstigin í fyrsta skipti á íslensku kvörðuð við hraða. Kvarðinn er 7-skiptur, númer fylgdu ekki, en hraðabil voru tiltekin, bæði í fetum (sem talin eru þriðjungur úr metra) og metrum á sekúndu.

  • andvari - blær  0,5m/s
  • kalda-korn       1 m/s
  • golu-vindur      2 m/s
  • stinningskaldi  5 m/s
  • stormkorn       9,3 til 18,6 m/s
  • stormur        27 m/s
  • fellibylur       36 m/s

Jón ritstjóri Ólafsson

Þegar sendingar veðurskeyta hófust héðan árið 1906 fór fréttablaðið Reykjavík (undir ritstjórn Jóns Ólafssonar) fljótlega að birta veðurskeyti frá nokkrum veðurstöðvum. Þar fylgdu með nöfn á hinum 13 stigum Beaufort-kvarðans. Líklegt er að Jón hafi sjálfur raðað nöfnunum á kvarðann:

  • 0 Logn (logn)
  • 1 Andvari (andvari)
  • 2 Kul (kul)
  • 3 Gola (gola)
  • 4 Kaldi (stinningsgola, blástur)
  • 5 Stinningsgola (kaldi)
  • 6 Stinnings kaldi (stinningskaldi)
  • 7 Snarpur vindur (allhvass vindur)
  • 8 Hvassviðri (hvassviðri)
  • 9 Stormur (stormur)
  • 10 Rokstormur (rok)
  • 11 Ofsaveður (ofsaveður)
  • 12 Fárviðri (fárviðri)

Eru hér að mestu komin sömu nöfnin og Veðurstofan notaði síðar í veðurspám, þau má sjá í sviganum í töflunni. Fyrstu stigin þrjú, frá logni til kuls, eru gjarnan kölluð hægviðri og reyndin var sú að orðið gola var oftast notað sem samheiti á 3 til 4 vindstigum eins og í töflu Jóns Eyþórssonar, svo sem áður var getið.

Aftur upp

Fleiri vindanöfn

En vindanöfnin eru miklu fleiri. Í þeirri ágætu bók Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson3 er talinn upp fjöldi vindaheita. Þórður gerir okkur þann greiða að raða þeim lauslega eftir styrkleika eins og þau voru notuð undir Eyjafjöllum. Hér eru flest tiltekin í styrkleikaröð Þórðar, við getum dundað okkur við að setja á þau vindstig eða m/s.

Hér má sjá að hvassviðri er talið meira en bæði stormur og rok og að kaldi er minni vindhraði en gola. Stormur og rok lenda á ámóta stað og í töflu Veðurstofunnar, en víða um land mundi stormur vera talsvert neðar, jafnvel á svipuðum stað og blástur eða gustur.

Við getum líka reynt að finna á okkur hvort sum orðin beri í sér nákvæmari merkingu en aðeins vindhraðann. Trúlega væri fljótræði að nota þau umhugsunarlaust um hvort sem er hviður eða jafnvindi. Hugsanlegt að þau beri líka í sér einhverja hita- eða árstíðabundna merkingu.

Veðurhæðarheiti úr Veðurfræði Eyfellings

  • andi -
  • andvari - blær
  • vindblær (-ræna)
  • kaldi - kulur - amrandi - súgur
  • stinningskaldi - njóður
  • gola - gjóla - gjóna - sagandi
  • stormsagandi - bosvindur - kjargrandi - slaukvindi - bræla
  • blökur - snarpur - gustur - gúlpur
  • blástur
  • strekkingur - vindflapur - garri - gani
  • brok - sveljandi - þræsingur
  • hryssingur
  • vindur
  • stormur - stormbelgingur
  • rok - rokbelgingur - rokstormur
  • hvassviðri
  • ofviðri
  • fárviðri - aftök

Heimildir:

1. Jón Eyþórsson: Úr ýmsum áttum (pdf 0,7 Mb). Veðrið : tímarit handa alþýðu um veðurfræði, 1965 (10 : 1), s. 3-6

2. Lbs. 306, 4to

3. Þórður Tómasson: Veðurfræði Eyfellings: greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum / Þórður Tómasson frá Vallnatúni. - Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1979, 168 bls.

Sjá einnig fróðleik um vindhraða með umreikningi og töflum.

Aftur upp


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica