Fréttir
Ný GPS stöð í Kverkfjöllum, Dyngjujökull í baksýn. Bergur H. Bergsson við störf.

Unnið við erfiðar aðstæður

Mælitækjum fjölgað vegna hrinunnar í norðvestanverðum Vatnajökli

23.8.2014

09:35 Allt frá fyrsta degi, stuttu eftir að skjálftavirkni varð vart í Bárðarbungu, hafa starfsmenn Veðurstofunnar verið að störfum á skjálftasvæðinu við það að setja upp tæki til að efla vöktun með atburðarrásinni, þá einkum til að bæta næmni jarðskjálftakerfisins og fjölga GPS mælingum til að skilja betur kvikuhreyfingarnar.

Þar vinna starfsmenn við erfiðar aðstæður uppi á jökli og þurfa að ferðast langar vegalengdir á sérútbúnum tækjum og vélsleðum en jafnframt hefur tæknimönnum verið komið á ákveðin svæði með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Unnið er í samráði við Almannavarnir. Starfsmennirnir tilkynna sig á vakt Veðurstofunnar tvisvar sinnum á sólarhring, kl. 8:00 og kl. 20:00. Þegar starfsmenn eru inni á hættusvæði fylgjast Almannavarnir með þeim með GPS staðsetningarbúnaði og eru í viðbragðsstöðu til þess að sækja þá ef á þarf að halda. Samskipti fara síðan fram gegnum talstöðvar og farsíma.

Þegar nýir mælar eða tæki eru settir upp þarf einnig að setja upp tæki til rafmagnsframleiðslu og til fjarskipta sem þurfa að virka við erfiðar aðstæður og veðurskilyrði á hálendi Íslands, til þess að gögnin berist þangað sem þeim er ætlað að berast. Sum gögn eru send til sérfræðinga VÍ og samstarfsaðila en önnur berast á vefinn í rauntíma. Ljósmyndir úr vinnuferðum má skoða í sérstakri myndagallerígrein.

Tækin og tæknin

Meðal þeirra tækja sem sett hafa verið upp eru ný GPS stöð í Kverkfjöllum ásamt skjálftamæli sem sendir inn upplýsingar í rauntíma inn í jarðskjálftastaðsetningarkerfi VÍ. Þá var skjálftamælir settur upp á Brúarjökli og á Hamrinum þar sem þegar hafði verið settur upp búnaður fyrir GPS stöð sem hægt var að samnýta. Mælarnir senda gögn sem síðan birtast á vefnum. Að mælauppsetningunni komu einnig starfmaður JH og starfsmaður Cambridge háskóla. Í sömu ferð settu þau jafnframt upp jarðskjálftamæli inni á skjálftasvæðinu á Dyngjujökli sem skráir upplýsingar á staðnum. Mælarnir eru settir upp í tengslum við rannsóknarverkefnið FutureVolc.

Hamarinn
""
Vegna jarðhræringanna við Bárðarbungu. Úr vinnuferð á Hamrinum 23. ágúst 2014. Vinnu lokið í ljósaskiptunum. Ljósmynd: Benedikt G. Ófeigsson.

Leiðnimælar hafa verið settir upp í Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga, í Köldukvísl og Rjúpnabrekkukvísl. Við Grímsstaði á Fjöllum var settur upp efnamælir til að mæla uppleyst efni í vatninu ásamt gasmæli sem mælir mögulega gaslosun í vatni. Báðir þessir mælar eru reknir í tengslum við FutureVolc.

Færanlegar ratsjár eru staðsettar við Syðri Hágöngu og Hótel Laka. Þær vinna á styttri bylgjulengdum heldur en fastar ratsjár og nema ösku og fleira í andrúmsloftinu betur heldur en þær, en þó á minna svæði. Föstu ratsjárnar eru á Egilsstöðum og við Keflavíkurflugvöll.

Samhliða uppsetningu nýrra mæla og mælitækja hafa starfsmenn einnig sinnt viðhaldi á þeim tækjum sem fyrir voru á svæðinu. Fleiri ljósmyndir úr vinnuferðum má skoða í sérstakri myndagallerígrein.

Future Volc

Svona öflugu mælakerfi væri ekki hægt að koma upp á svo skömmum tíma ef ekki væri fyrir FutureVolc,  Evrópusamstarfsverkefni sem styrkt er af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins.

Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofa Íslands gegna lykilhlutverki í verkefninu auk Almannavarna og markar það mikilvægan áfanga í uppbyggingu rannsóknarinnviða til eldfjallarannsókna á Íslandi. Verkefnið leggur til um einn milljarð íslenskra króna til uppbyggingar mælikerfa, til þróunar á vöktun og umtalsverðra rannsókna á íslenskum eldfjöllum. Margir helstu vísindamenn í Evrópu í eldfjallarannsóknum vinna að verkefninu og nýtur Ísland góðs af þeirra framlagi.

Vatnajökull
""
Hluti af samsettri gervitunglamynd úr Landsat 8 hinn 21. ágúst 2014 kl. 12:28. NASA USGS.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica