Íslensk eldfjöll

Ljósmyndir úr vinnuferðum vegna Bárðarbungu

Mælitæki sett upp haustið 2014 og viðhaldi sinnt fram eftir vetri

Í þessari grein eru ljósmyndir úr vinnuferðum sem farnar eru 2014 og 2015 vegna jarðhræringanna á norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var með færanlega ratsjá að Hágöngum, mælitæki sett upp á Hamrinum nærri Bárðarbungu; og GPS stöð sett í Bárðarbunguöskjuna. Einnig sést uppsetning og viðhald mælitækja uppi á jöklum við erfiðar aðstæður. Á myndunum er starfsfólk Veðurstofu nema annað sé tekið fram.

Þriðjudagur 19. maí 2015

Enn var farið að hraunflákanum til að mæla gasið og huga að búnaði. Nánar má lesa um niðurstöður mælinganna í upplýsingagrein. Ljósmyndirnar tók Bergur H. Bergsson.

Brunnin stika
""
Baldur Bergsson við stiku, sem er brunnin sundur vegna hitans. Ljósmynd: Bergur H. Bergsson.
Með nesti og nýja skó
""
Enn þurfa menn að æja sem fyrrum. Áð við nyrsta gíg raðarinnar. Ljósmynd: Bergur H. Bergsson.

Þriðjudagur 3. og miðvikudagur 4. mars 2015

Í þriggja daga vinnuferð eftir goslok var hugað að gasmælingum og gasmælitækjum við Holuhraun. Einn DOAS mælir var færður frá Urðarhálsi niður á flæðurnar og annar settur upp austan við Jökulsá. Einnig var svokallaður multiGAS mælir færður frá stöð í Þorvaldshrauni niður á flæðurnar. Hugað var að gasmælingum og voru mælingar teknar í hlíðum Baugs og við gufuop á hrauninu. Að auki var hugað að viðhaldi GPS mælakerfi veðurstofunar. Sjá nánar í skýrslum frá 3. mars og 4. mars (að hluta til á íslensku, pdf 0,7 Mb).

Endurnýjun
""
Af vettvangi 3. mars 2015, Sara Barsotti, Benedikt G. Ófeigsson og Baldur Bergsson við veðurstöðina í Þorvaldshrauni. Ljósmynd: Richard Yeo.
Gasmæling
""
Af vettvangi 3. mars 2015. Baldur Bergsson með MultiGAS mæli við gufuauga eða gufuop í nýja hrauninu. Ljósmynd: Sara Barsotti.

Fimmtudagur 22. janúar 2015

Í vinnuferð 22. janúar 2015 voru ný tæki sett upp nærri eldstöðvunum í Holuhrauni. Þetta er veðurstöð ásamt MultiGAS tæki sem greinir hinar ýmsu gastegundir. Bæði tækin streyma gögnum til Veðurstofunnar, þar sem þau eru notuð til að vakta viðburðina.

Gastegundirnar sem vaktaðar eru H2O, SO2, CO2, H2S og H2 eða vatn, brennisteinstvíildi, kolefnistvíildi, brennisteinsvetni og vetni. Gögnin munu nýtast við að spá fyrir um þessa þætti í eldgosum framtíðarinnar. Gasmælitækið fellur undir FutureVolc verkefnið og er hluti samstarfs við ítalskan háskóla, University of Palermo.

Veðurstöðin mælir ýmsa staðbundna umhverfisþætti, svo sem vindhraða, vindátt og rakastig, sem auðveldar ráðgjöf til þeirra sem vinna nærri eldgosinu og auðveldar einnig túlkun sjáanlegra breytinga á gosmekkinum. Veðurstöðin er hluti af samstarfi við breska jarðvísindafélagið British Geological Survey.

Meðfylgjandi mynd tók Richard Yeo. Á myndinni sést Baldur Bergsson við störf og talið frá vinstri: veðurstöðin, gasmælitækið og vindmyllan sem framleiðir rafmagn til að knýja tækin.

Miðvikudagur 21. janúar 2015

Farið á Dyngjujökul þar sem jarðskjálftamælistöðin var á kafi í snjó. Rörið fyrir vindrafstöðina var framlengt um 2,5 metra og stendur vindrellan nú í um 2 metra hæð. Bætt var röri við hlið tækjatunnunnar og þar voru sett samskiptaloftnet fyrir farsíma og GPS loftnet.

Vindrafstöðin virk
""
Pálmi Erlendsson við störf á Dyngjujökli. Upphaflega var búnaðurinn á kafi í snjó. Ljósmyndir: Bergur H. Bergsson.

Laugardagur 10. janúar 2015

Tæki bjargað frá hrauninu
""
Gro Birkefeld Pedersen, Reynir Pétursson og Ármann Höskuldsson á vettvangi. Einu af SO2 mælitækjunum, sem hafði verið króað af nærri Holuhrauni frá því fyrr í vetur, var bjargað 10. janúar 2015. Þetta tæki er hluti af FutureVolc samstarfinu; n.t.t. samvinnu við Chalmers University of Technology og University of Applied Sciences in Dusseldorf. Ljósmynd: Morten S. Riishuus.

Föstudagur 5. desember 2014

Mælitæki í ís
""
Bergur H. Bergsson og Vilhjálmur S. Kjartansson fóru á vettvang ofarlega á Dyngjujökul 5. desember að sinna mikilvægum jarðskjálftamæli sem settur var upp í lok október. Mælirinn er þessi snævi þakta strýta fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Vilhjálmur S. Kjartansson.

Fimmtudagur 20. nóvember 2014

Richard Yeo og Hermann Arngrímsson settu upp innrauða myndavél, IR Nicarnia, á Vaðöldu til mælinga á SO2 gasi frá eldstöðinni í Holuhrauni. Þetta tæki fellur undir FutureVolc verkefnið.

Mökkur í sjónmáli
""
Innrauð myndavél sett upp á Vaðöldu til mælinga á brennisteinsgasi. Ljósmynd: Richard Yeo.

Fimmtudagur 20. nóvember 2014

Farið að Urriðahálsi. Richard Yeo, Sara Barsotti og Mellissa Anne Pfeffer settu upp DOAS tæki sem mælir brennisteinsmengun með útfjólubláu ljósi. Þetta tæki fellur undir FutureVolc verkefnið. Myndirnar eru teknar um kl 18. Á annarri þeirra sést bjarminn frá eldgosinu.

Eldbjarmi
Nýtt tæki sett upp á Urriðahálsi. Ljósmynd: Richard Yeo.
Froststillur
Nýtt tæki sett upp á Urriðahálsi. Ljósmynd: Richard Yeo.

Lok október 2014 - Dyngjujökull

Útvörður
""
Í lok október komu Bergur H. Bergsson og Vilhjálmur S. Kjartansson fyrir jarðskjálftamæli ofarlega á Dyngjujökli; öðrum af tveimur sem settur er í ís án snertingar við jörð. Hann veitir mikilvægar upplýsingar um umbrotin í Bárðarbungu og er hluti af Futurvolc verkefninu. Ljósmynd: Vilhjálmur S. Kjartansson.

Fimmtudagur 11. september - Í sjálfa öskjuna

Í dag var flogið var á Bárðarbungu miðja þar sem tveir starfsmenn Jarðvísindastofnunar, Eyjólfur Magnússon og Finnur Pálsson, voru settir úr. Þeirra hlutverk var að setja upp GPS stöð og koma af stað gagnasendingu.

Á Bárðarbungu
""
Finnur Pálsson og Eyjólfur Magnússon skildir eftir. Ljósmynd: Pálmi Erlendsson

Áfram var flogið, meðan þeir sinntu sínu, í Kverkfjöll þar sem Pálmi Erlendsson og Björn Oddsson frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra settu upp móttökutæki fyrir gagnastrauminn frá GPS tækinu á Bárðarbungu og tengdu það farsímabeini (router) sem þegar var í Kverkfjöllum. Einnig var gert við vefmyndavél mogt.is og henni snúið svo hún sjái gosstöðvarnar.

Tengiliður
""
Úr Kverkfjöllum. Pálmi Erlendsson o.fl. settu upp radio-link frá þessu tæki að nýja tækinu í Bárðarbungu vegna þess að þar er ekki símsamband.

Úr Kverkfjöllum
""
 Úr Kverkfjöllum. Eldgosið í Holuhrauni fjær. Ljósmynd: Pálmi Erlendsson.

Að þessu loknu var svo haldið til baka á Bárðarbungu þar sem Finnur og Eyjólfur voru sóttir og GPS punktur mældur þar sem önnur mælitæki höfðu verið. Þar með er komin rauntímavöktun á hæð íssins í miðju Bárðarbunguöskjunnar! Að lokum var sporður Dyngjujökuls skoðaður, gosstöðvarnar og jaðar hraunsins kortlagður úr lofti.

Tvær vættir mætast
""
Hraunið rennur við kvísl Jökulsár á Fjöllum 11.9.2014, gufustrókar. Ljósmynd: Pálmi Erlendsson.

Þriðjudagur 2. september - Við mælingar

Á vettvangi
""
Þorgils Ingvarsson skiptir um geyma í hitamyndavél við nýja hraunið í Holuhrauni kl. 09:30 hinn 2. september 2014. Ljósmynd: Baldur Bergsson.
Gosið í Holuhrauni
""
Eldstöðvarnar 2. september 2014 kl. 11:30.

Sunnudagur 31. ágúst - Holuhraun

Eldar uppi í Holuhrauni á ný, nú með auknu hraunstreymi. Myndina tók Benedikt G. Ófeigsson 07:15.


Laugardagur 30. ágúst - Holuhraun

Gasmæling í gígnum. Baldur Bergsson við störf.

Gasmælingar við eldstöðina í Holuhrauni, norður af Dyngjujökli. Baldur Bergsson við störf.

Föstudagur 29. ágúst - Urðarháls

Ný GPS stöð á Urðarhálsi. Kistufell í baksýn. Þorsteinn Jónsson að loknu verki. Myndirnar tók Benedikt G. Ófeigsson:

Miðvikudagur 27. ágúst - Vonarskarð

Nýja GPS stöðin nálægt Gjallanda, norður af Vonarskarði. Hún hefur fengið skammstöfunina gjac.


Nýja GPS stöðin nálægt Gjallanda, norður af Vonarskarði. Þorsteinn Jónsson frá Jarðvísindastofnun Háskólans leggur lokahönd á verkið. Bárðarbunga í fjarska. Ljósmyndir: Benedikt G. Ófeigsson.

Laugardagur 23. ágúst 2014 - Herðubreið

Á Herðubreið. Þorgils Ingvarsson aðstoðar björgunarsveitarmenn úr Hafnarfirði við að skipta um endurvarpa á toppi Herðubreiðar. Þyrlusveitin undirbýr gestabókarskrif.

Laugardagur 23. ágúst 2014 - Hamarinn

Mælitæki sett upp á Hamrinum, Pálmi Erlendsson við störf. Farartækið var þyrla Landhelgisgæslunnar. Í fjarska sjást Hágöngur þar sem ratsjáin er staðsett. Myndirnar tók Þorgils Ingvarsson.



Föstudagur 22. ágúst 2014 - Hágöngur

Færanleg ratsjá sett upp. Vel sést til Bárðarbungu. Hamarinn í fjarska. Tækið vinnur en Hermann Arngrímsson hallar sér að steini við stillingarnar. Myndirnar tók Þorgils Ingvarsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica