Íslensk eldfjöll

Jarðhræringar við Bárðarbungu 2015 - febrúarmánuður

Hluti langrar upplýsingagreinar vistaður sérstaklega

Í þessari upplýsingagrein (pdf 1,28 Mb) eru birtar niðurstöður varðandi jarðhræringarnar og eldsumbrotin við Bárðarbungu en einungis í febrúarmánuði 2015. Síðasti dagur febrúarmánaðar er efst en fyrsti dagur mánaðarins er neðst. Með öðrum áþekkum greinum veitir þetta heildaryfirlit um framvindu mála: ágúst, september, október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars-apríl-maí og samantektargrein.

Dagatal

Í dagatali er flýtileið á hvern dag febrúarmánaðar.

Feb: 1-2-3-4-5-6-7-8-9-10-11-12-13-14-15-16-17-18-19-20-21-22-23-24-25-26-27-28

Víðáttamynd, tekin með gleiðlinsu í átt að eldstöðvunum 3.9.2014. Ljósmynd: Richard Yeo.

Nýjustu upplýsingar um eldgosið og jarðhræringarnar

28. febrúar 2015 - jafnvel enn meiri gasmengun

Veðurstofan samfagnar landsmönnum við goslok og þakkar bæði starfsfólki sínu og samstarfsmönnum.

Engu að síður er áfram fylgst náið með gasdreifingu. Miðað við reynslu af öðrum hraungosum þá heldur hraunbreiðan áfram að afgasast. Án hitauppstreymis frá opnum gíg fer gasið ekki mjög hátt og því má jafnvel eiga von á enn meiri gasmengun við yfirborð núna en undanfarnar vikur.

28. febrúar 2015 12:00 - yfirlýsing vísindamannaráðs Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf, 0,4 Mb). Goslokum er lýst yfir.

Eldgosinu í Holuhrauni, sem hófst þann 31. ágúst 2014, er lokið.

  • Nauðsynlegt er að fylgjast áfram mjög vel með Bárðarbungu.
  • Áfram mælist gasmengun frá gosstöðvunum og hraunbreiðunni í Holuhrauni.
  • Á þessu stigi hefur ekki verið tekin ákvörðun um að breyta aðgangsstýrða svæðinu norðan Vatnajökuls.
  • Almannavarnir vinna áfram á hættustigi. 
  • Litakóði fyrir flug hefur verið lækkaður úr appelsínugulum niður í gulan (sjá skýringar).

27. febrúar 2015 - kvöldflug

Eftirlitsflug var farið að kvöldi til að staðfesta grun, flugskýrsla fylgir (pdf 68 Kb) en engar ljósmyndir.

27. febrúar 2015 15:15 - engin glóð sást í flugi

Í þyrluflugi í dag sást engin glóð á gosstöðvunum lengur. Svo virðist því sem kvikuflæði sé lokið, þ.e. ný og heit kvika komi ekki lengur upp um gíga í Holuhrauni. Gasmengun berst þó enn frá gosstöðvunum.

27. febrúar 2015 - ratsjármynd af hrauninu

Engin stærðarbreyting sjáanleg
""
Samkvæmt upplausn á SENTINEL-1 ratsjármynd frá ESA 27.02.2015 er engin breyting á útmörkum hraunsins frá því um miðjan febrúar. Engin vísbending um virkni er sjáanleg á myndinni en aðeins væri hægt að sjá slíkt ef virknin væri allmikil; þessi gögn geta því ekki skorið úr um hvort gosið sé á enda. Stækkanleg. Jarðvísindastofnun.

27. febrúar 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf, 0,4 Mb).

Áfram dregur úr skjálftavirkni í Bárðarbungu. Ekki hefur mælst skjálfti yfir M3 að stærð síðan 21. febrúar og ekki yfir M5 að stærð síðan 8. janúar.

GPS mælingar við Vatnajökul sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu, sem benda til þess að kvika flæði enn undan Bárðarbungu. Sig öskjunnar í síðustu viku var um 5 cm á dag, að teknu tilliti til ísskriðs inn að miðju öskjunnar.

Sjálfvirkur gasmælir á Blönduósi mældi 500 μg/m³ SO2 í gær, 26. febrúar.

27. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Á annan tug skjálfta mældust í Bárðarbungu síðan í gærmorgun. Stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð kl. 01:59 í nótt en aðrir skjálftar voru allir minni en 2 stig. Í kvikuganginum mældust um 20 skjálftar og voru þeir allir minni en 1,3 stig. Tveir skjálftar voru við Tungnafellsjökul, sá stærri með stærðina 1,2. Við Herðubreið og Öskju mældust 5 skjálftar, allir minni en 1,3.

26. febrúar 2015 - hitamynd af vettvangi

Varmi ekki mikill
""
Enn má greina varmauppstreymi af gosstöðvunum á FLIR hitamynd 26.febrúar 2015. Ljóst er, að varmi er ekki mikill miðað við áður, sjá t.d. 16. des. Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Jarðvísindastofnunar.

26. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Rúmlega tugur skjálfta mældist í Bárðarbungu síðan í gærmorgun. Allir skjálftarnir voru minni en 1,4 að stærð. Í kvikuganginum mældust einnig rúmlega 10 skjálftar og voru allir minni en 1,4 stig. Tveir skjálftar voru við Tungnafellsjökul, sá stærri 1,7 stig. Við Öskju mældust 7 skjálftar, sá stærsti 2,3 að stærð kl. 05:42 í nótt. Við Herðubreið voru um 3 skjálftar, allir minni en 2 að stærð.

25. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Síðan í gærmorgun mældust á þriðja tug jarðskjálfta í Bárðarbungu. Stærstu skjálftarnir voru um 1,7 að stærð. Í kvikuganginum mældust um 20 jarðskjálftar, allir minni en 1,5 að stærð. Fáeinir skjálftar voru við Herðubreið og Herðubreiðartögl og voru þeir allir minni en 2 stig.

24. febrúar 2015 - lítið gas mælst í byggð undanfarið

Lítið gas (brennisteinsdíoxíð, SO2 ) hefur mælst á sjálfvirkum gasmælistöðvum í byggð í febrúar 2015. Engin þessara stöðva hefur farið yfir heilsuverndarmörkin 350 µg/m³ síðan 5. febrúar en þær eru um tuttugu talsins. Í dag er nítjándi dagurinn undir heilsuverndarmörkum á þessum stöðvum. Næstlengsta tímabilið með undir 350 µg/m³ á öllum stöðvum frá miðjum september 2014 (þegar mælikerfið var að mestu komið upp um allt land) er fimm dagar (5. - 9. janúar). Hafa ber í huga að öðru máli gegnir nær gosstöðvunum.

Yfirlit sjálfvirkra gasmælinga í byggð vegna eldgossins í Holuhrauni. Punktaritið sýnir dægurhámark einnar klukkustundar meðalgilda SO2 styrks (μg/m³) á hverri stöð en þær eru um tuttugu talsins. Tímabilið sem myndin spannar er 29.08.2014 - 28.02.2015.


24. febrúar 2015 12:00 - Frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf, 0,4 Mb).

Verulega hefur dregið úr hraunflæði í Holuhrauni. Áfram dregur úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þó enn teljist hún mikil. Stærsti skjálftinn frá því á föstudag mældist M3,7 á laugardag, 21. febrúar, kl. 15:20.

Sig öskjunnar er nú minna en 2 cm á dag (en var tugir sentimetra þegar mest var). Þó verður að taka tillit til ísskriðs inn að miðju öskjunnar þegar gögn úr GPS tæki eru skoðuð (vegna þess að ísskriðið vegur upp á móti siginu).

24. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Síðan í gærmorgun hefur mælst á annan tug skjálfta í Bárðarbungu og voru þeir allir minni en 2 að stærð. Í kvikuganginum urðu um 15 jarðskjálftar, sá stærsti  um 1,5 stig. Um 20 jarðskjálftar hafa verið við Herðubreið/Herðubreiðartögl, allir undir 2 að stærð. Ekki hefur sést til jarðeldsins í Holuhrauni á vefmyndavélum í nótt og morgun vegna snjómuggu á svæðinu.

Kyrrð
""

Laugardagskvöldið 21. febrúar 2015 náðist góð hitamynd af hrauninu kl. 22:06 (Landsat 7 frá NASA og USGS). Mest virkni er í syðri gígnum (auganu), svo og norðaustast í hrauninu. Stækkanleg. Jarðvísindastofnun.

23. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá því um hádegi í gær, 22.02., mældust rúmlega tíu jarðskjálftar í Bárðarbungu og voru þeir stærstu  um M2 að stærð.  Í kvikuganginum  mældust um tveir tugir jarðskjálfta og voru þeir allir minni en M1,5. Þrír skjálftar mældust við Öskju og Herðubreið, allir minni en 2 stig.

Rétt fyrir kl. 08 í morgun mátti á vefmyndavélum sjá smá bjarma frá eldgosinu í Holuhrauni.

22. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Virkni í gosinu er svipuð og undanfarna daga. Þrír jarðskjálftar yfir stærð 3 mældust í Bárðarbungu síðasta sólarhringinn, sá stærsti M3,7 í gær kl. 15:20. Alls hafa mæst þar 25 skjálftar. Um 20 skjálftar hafa mælst við kvikuæðina að Holuhrauni, allir minni en M1,2. Fjórir skjálftar hafa mælst við Öskju og þrír við Herðubreið.

21. febrúar 2015 - ljósmyndir fyrstu fimm mánuðina

Vel mótað
""
Gígurinn 31. janúar 2015. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson. Sjá miklu fleiri myndir í gallerígrein.

21. febrúar 2015 - landið, hraunið og stöðuvötnin

Ísland snævi þakið og ísilagt en ekki allsstaðar
""
Modis gervitunglamynd frá NASA frá hádegi í dag, 21. febrúar 2015. Heiðskírt yfir snævi þöktu landinu. Holuhraun sker sig úr ásamt Leginum og Þingvallavatni. Stækkanleg (náttúruleg litmynd HDFLook).

21. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Bárðarbunga: Virkni er lítil í Bárðarbungu og við kvikuæðina að Holuhrauni, svipað og undanfarna daga. Enginn skjálfti hefur náð stærð 3 í meira en 48 klst. og er þetta í fyrsta sinn frá upphafi umbrotanna í ágúst síðstliðnum, sem engin "græn stjarna" (stærð yfir 3) er þessu svæði á jarðskjálftakorti Veðurstofunnar á vefnum. Alls hafa mælst um 10 skjálftar við Bárðarbunguöskjuna og um 15 við kvikuæðina frá síðasta yfirliti í gærmorgun.

Katla: Grunnur skjálfti af stærð 3,3 mældist vestarlega í Kötluöskjunni í nótt kl. 02:26. Um fimm eftirskjálftar fylgdu, allt að stærð 2,2. Virkni hefur minnkað hratt. Viðlíka hegðun hefur oft sést í Kötlu undanfarin ár og er líklega tengd jarðhitavirkni. Ekki hefur orðið vart við breytingar á rafleiðni í ám á svæðinu.

20. febrúar 2015 - ný vettvangsskýrsla JHÍ

Úr vettvangsskýrslu Jarðvísindastofnunar 17. – 19. febrúar 2015:

Aðeins eitt gosop er virkt innan gígsins og yfirborð kvikunnar heldur áfram að lækka.  Kvikuelfurin er nú þakin svartri hraunskorpu að mestu leyti, nema þeir 200 – 300 m sem næstir eru gosopinu. Gosmökkurinn nær nú aldrei nema 1000 m hæð yfir jörðu. Meðfylgjandi myndir sýna hvernig kvikan brýst út úr skorpu hraunbreiðunnar,  15 – 16 km austnorðaustur af gígnum. Kvikan kemur úr lokaðri kvikuæð sem rennur inni í hrauninu og veldur því að það bólgnar út og þykknar.

Úr fylgsnum
""
17. febrúar 2015 kl. 15:24. Nýja kvikan brýst út og nær að leka yfir á stórgerða hnullunga sem urðu til í september síðastliðinn. Hái bakkinn í baksýn er ytra byrði lokuðu kvikuæðarinnar. Ljósmynd: Morten S. Riishuus.
Dældir og skörð
""
18. febrúar 2015 kl. 13:00. Á þykkri hraunbreiðunni fyrirfinnast dældir og þar má sjá kvikuna þrýstast út um skörð. Ávölu og sprungnu hraunmyndanirnar í baksýn hafa fræðiheitið tumuli og bera því vitni að kvikan undir niðri þrýstir upp nýmyndaðri skorpu. Ljósmynd: Morten S. Riishuus.

20. febrúar 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb). Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram, en verulega hefur dregið úr virkni þess undanfarnar vikur. Mjög hefur dregið úr sýnilegri virkni í gígunum og stækkun hraunsins er óveruleg.

20. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu hefur minnkað eftir öfluga virkni í gærmorgun milli kl. 01:25 og 02:10. Síðasta sólarhring hafa um 15 skjálftar mælst í Bárðarbunguöskjunni, enginn þeirra var yfir stærð M3. Um 20 skjálftar mældust við kvikuæðina, sá stærsti var M1,6 í morgun kl. 08:24. Að auki mældust fimm skjálftar við Öskju og um tíu við Herðubreið.

19. febrúar 2015 - um jarðskjálftahrinur og tíðni þeirra

Jarðskjálftahrinur á brúnum öskjunnar, sem vara í um það bil 30 – 90 mínútur eins og hrinan síðastliðna nótt, stafa af öskjusigi og hafa einkennt jarðhræringarnar frá því virknin hófst síðastliðið sumar.

Slíkar hrinur urðu nokkrum sinnum á dag fyrstu mánuðina en tíminn milli þeirra hefur aukist verulega, úr 2 - 4 klst. í upphafi í 12 - 24 klst. og jafnvel meira nú í febrúar.

Meiri tími milli hrina og minnkandi stærð stærstu skjálfta; þetta hvorttveggja er í samræmi við mörg önnur merki um dvínandi jarðhræringar á svæðinu undanfarnar vikur og mánuði. Bæði hefur dregið úr jarðskjálftum og eldvirkni.

Engu að síður er virknin enn allmikil og Veðurstofan fylgist mjög náið með framvindu mála.

19. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Stærstu jarðskjálftarnir á brúnum Bárðarbunguöskjunnar síðan í gærmorgun voru M4,1 kl. 14:17 og M4,3 kl. 01:26. Alls mældust um 30 skjálftar kringum öskjuna undanfarinn sólarhring, flestir í hrinu milli kl. 01:25 og 02:10 í nótt. Um 15 skjálftar mældust við kvikuganginn, allir undir M1,5. Stöku skjálfta varð vart við Öskju og Herðubreið.

18. febrúar 2015 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Engar markverðar breytingar urðu, hvorki á skjálftavirkni né eldvirkni, undanfarinn sólarhring. Dregið hefur úr virkninni undanfarið en hún helst stöðug. Um 25 skjálftar mældust á brúnum öskjunnar, allir undir 3 í stærð. Um 15 skjálftar mældust í ganginum, allir undir 1,5 í stærð. Þrír litlir skjálftar urðu nærri Öskju.

17. febrúar 2015 - fjöldi jarðskjálfta frá upphafi hræringanna

Hálft ár og degi betur er síðan jarðhræringar hófust í Bárðarbungu, hinn 16. ágúst 2014. Nokkru síðar hófst eldvirkni í Holuhrauni. Til fróðleiks má lesa kynningu á Bárðarbungu sem þá var birt og kafla Bárðarbungu úr væntanlegu heildarhættumati eldfjalla (pdf 1,0 Mb á ensku). Einnig má lesa nýja grein (á ensku) um dvínandi virkni á umbrotasvæðinu.

Hér fylgir ný tafla með fjölda jarðskjálfta frá upphafi viðburðanna og til dagsins í dag. Jarðskjálftarnir eru aðgreindir eftir stærð og flokkaðir eftir svæðum. Við venjulegar kringumstæður mælast aðeins um 10 - 15 þúsund jarðskjálftar árlega á Íslandi með sjálfvirka kerfinu (automatic).

Taflan (stækkanleg, pdf 30 Kb) er á ensku en auðskiljanleg. Intrusion: innskotið, kvikugangurinn. Caldera: askja og öskjubrúnir Bárðarbungu. Automatic: jarðskjálftar úr sjálfvirka kerfinu. Checked: yfirfarnir jarðskjálftar og þess vegna áreiðanlegri upplýsingar. Skoða má eldri samantekt.


17. febrúar 2015 11:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb). Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram. Eldgosið er enn öflugt þó dregið hafi úr krafti þess. Ekki hefur mælst skjálfti yfir M5,0 frá 8. janúar.

17. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Engar markverðar breytingar hafa orðið á jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu og við kvikuganginn síðan í gærmorgun, né heldur á eldvirkni við gosstöðvarnar í Holuhrauni.

Stærsti skjálftinn á öskjubrún varð 3,6 kl. 11:13 og allt í allt hafa um 15 skjálftar mælst við öskjuna. Alls mældust 20 skjálftar í kvikuganginum, sá stærsti 1,5 kl. 03:33 í nótt. Lítil virkni er kringum Tungnafellsjökul, Öskju og Herðubreið.

16. febrúar 2015 - hálft ár samfelldra jarðhræringa

Hálft ár er síðan jarðhræringar hófust í Bárðarbungu, 16. ágúst 2014. Lesa má kynningu á Bárðarbungu sem þá var birt. Nokkru síðar hófst eldvirkni í Holuhrauni.

16. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Bæði gosvirkni í Holuhrauni og jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu síðustu 24 klst. var svipuð og undanfarna sólarhringa. Virknin helst stöðug en er minni en síðustu vikur og mánuði. Ekkert óvenjulegt hefur mælst síðustu 24 klukkustundir. Óveðrið á svæðinu getur þó haft áhrif á skjálftamælingar og ekki er víst að minnstu skjálftarnir mælist.
Bárðarbunga: Um 12 jarðskjálftar hafa mælst við brún öskjunnar, sterkasti skjálftinn, M3,9, mældist kl. 14:12 í gær.
Kvikugangurinn: Sex jarðskjálftar mældust, allir minni en M1,5.
Önnur svæði: Jarðskjálfti, M2,2 að stærð, mældist austan við Herðubreið kl. 03:29 í nótt. Samtals mældust um 10 skjálftar á svæðinu.

15. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Á annan tug skjálfta hefur mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Stærsti skjálftinn varð klukkan 16:37 í gær, M2,1 að stærð. Tæpur tugur hefur mælst í kvíkuganginum, allir um og innan við eitt stig. Nokkrir hafa mælst á svæðinu við Herðubreið, stærsti rúmt stig. Ágætlega sást til gossins á vefmyndavélum í morgun meðan dimmt var og virtist gosið svipað og undanfarið.

Inn að kviku
""
Af vettvangi 12. feb. 2015; frá syðri gosbarmi inn í hrauntjörn Baugs. Næst er syðra gosopið í um 400 m fjarlægð frá syðri gígbarmi. Handan syðra gosopsins kraumar nyrðra gosopið. Svört áferð tjarnarinnar gefur til kynna kalda skorpu á hrauninu en appelsínugulur litur kviku. Ljósmynd: Ármann Höskuldsson.
Í vettvangsskýrslu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Jarðvísindastofnunar Háskólans 11.-12. febr. 2015 eru fleiri myndir með útskýringum og niðurstöður hitamælinga (pdf 2.5 Mb).

14. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 20 jarðskjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Þrír skjálftar yfir fjórum stigum urðu við norðaustanverða Bárðarbunguöskjuna í gærkveldi; sá fyrsti klukkan 21:13 M4,3 en annar og jafnframt sá stærsti um 10 mínútum síðar (21:22) M4,5 og sá þriðji klukkan 23:33 M4,0. Um tugur skjálfta mældist í kvikuganginum, sá stærsti M1,7 varð klukkan 13:26 í gær.

Skjálftavirkni hélt áfram við Herðubreið og Herðubreiðartögl í gær og það sem af er þessum degi. Á annan tug skjálfta hefur bæst við þá 30 sem getið var um í skýrslunni í gærmorgun.

Nú nákvæmlega 85 km²
""
Yfirlitskort. Hraunið er nú samtals orðið 85 km² (84,6 km² + 0,4 km²). Inn á kortið eru merktar útlínur 4. og 12. febrúar en afar litlar breytingar urðu á útmörkum hraunsins á þeim tíma. Kortið byggir á SENTINEL 1 ratsjármynd frá ESA 12.2.2015. Stækkanlegt. Jarðvísindastofnun. Sjá einnig örnefnakort Veðurstofu.

13. febrúar 2015 14:20 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Ríkislögreglustjórinn, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, lögreglustjórinn á Austurlandi og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa tekið ákvörðun (með tilvísun í 23.gr. í lögum 82/2008 um almannavarnir) um að breyta umfangi aðgangsstýrða svæðisins norðan Vatnajökuls.  Ákvörðunin er tekin í samráði við Veðurstofu Íslands, Vatnajökulsþjóðgarð, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni.

Punktar af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb).

13. febrúar 2015 12:00 - frá Samhæfingarstöð Almannavarna RLS

Fréttatilkynning um breytt umfang aðgangsstýrða svæðisins norðan Vatnajökuls.

Í lok janúar skilaði Veðurstofa Íslands nýju hættumati vegna gasdreifingar frá eldstöðinni í Holuhrauni. Forsendur fyrir nýju hættumati voru að dregið hafði úr eldgosinu frá því í október, árstíðabundin veðurskilyrði og gasmælingar sem gerðar eru reglulega við eldstöðvarnar. Líkan var keyrt miðað við veðurupplýsingar síðustu 10 ára fyrir mismunandi árstíðir og uppgefinn styrk af SO2. Hættumatið sem nú tekur gildi er miðað við veðurskilyrði fyrir febrúar til maí og verður því endurskoðað fyrir sumaraðstæður.

Á kortinu hér undir er lokunarsvæðið rautt og hættusvæðið grátt. Hættusvæðið er miklu stærra.

Gasmengun frá eldstöðinni getur enn verið mikil utan við lokunarsvæðið og eru því ytri mörk hættusvæðisins óbreytt frá fyrri ákvörðun. Enn er í gildi hættumat vegna flóða og öskufalls. Þeir sem hyggja á ferðalög innan hættusvæðisins lokunarsvæðinu eru hvattir til þess að sýna ítrustu varfærni og vera með viðeigangi viðvörunar- og hlífðarbúnað. Auk þess er mikilvægt að kynna sér spár um dreifingu gass á vefsíðu Veðurstofunnar. Líkön og mælingar frá því í vetur sýna að mikil mengun getur legið yfir Vatnajökul frá Flæðum, yfir Kverkfjöll og suður fyrir Norðlingalægð. Því er mælst til þess að fólk fari ekki á gönguskíðum frá Grímsfjalli að Kverkfjöllum eða austur yfir jökulinn.

Lokunarsvæði og hættusvæði, útgefið 13. feb. 2015. Stækkanlegt (pdf 3,4 Mb eða png 0,9 Mb).

13. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 20 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Enginn skjálfti náði þremur stigum (en yfirferð er þó ekki alveg lokið). Rúmur tugur skjálfta mældist í kvikuganginum, stærsti M1,1.

Skjálftahrina hófst við Herðubreið og Herðubreiðartögl upp úr klukkan tvö í nótt. Mesta virknin hefur verið eftir 05:30. Um 30 skjálftar hafa mælst á þessu svæði. Stærsti skjálftinn varð klukkan 08:19 M2,7. Dregið hefur úr virkninni á þessu svæði síðasta klukkutímann.

12. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 30 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn, heldur fleiri en sólarhringinn þar á undan. Stærsti skjálftinn varð í hádeginu í gær, klukkan 12:16 M4,0. Um tugur skjálfta mældist í kvikuganginum, allir um og innan við eitt stig. Ágætlega sást til gossins á vefmyndavélum í morgun og virtist svipaður gangur í gosinu og undanfarið.

11. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Hátt í 20 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Tveir skjálftar voru M3,8 annar kl. 11:44 í gærmorgun og hinn í nótt klukkan 04:51. Það voru stærstu skjálftarnir á þessu tímabili. Um 10 skjálftar mældust í kvikuganginum, stærsti M1,1.

10. febrúar 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram. Eins og er, eru engir vísindamenn á svæðinu vegna veðurs. Rannsóknarhópur sem fylgist með mengun í rigningu, snjó og leysingavatni hefur verið starfandi frá því gosið hófst; hópurinn áætlar að safna sýnum á Vatnajökli og nokkrum hæstu tindum á Austurlandi. Einnig er fylgst náið með efnasamsetningu úrkomu á öllu landinu.

Skýrsla af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb).

10. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Á þriðja tug skjálfta hefur mælst við Bárðarbugnu síðasta sólarhringinn. Tveir skjálftar voru fjögur stig eða stærri. Sá stærri varð klukkan 03:18 s.l. nótt, M4,7 og hinn í gær klukkan 13:33, M4,0. Tveir skjálftar M3,8 að stærð urðu í nótt, annar klukkan 03:13 og hinn klukkan 03:30. Aðrir skjálftar voru undir þremur stigum. Nokkrir skjálftar mældust í kvikuganginum, allir um og innan við eitt stig.

9. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Frá hádegi í gær hafa mælst tæplega 20 skjálftar í Bárðarbungu. Enginn skjálfti náði fjórum stigum. Tveir voru stærri en þrjú stig, sá stærri M3,8 og hinn M3,2. Nokkrir skjálftar voru í kvikuganginum. Ágætlega sást til gossins á vefmyndavélum í morgun og virtist með svipuðu sniði og undanfarið.

8. febrúar 2015 - sig öskjunnar undir smásjá

Nú er hafinn samanburður á færsluhraða GPS stöðva við Bárðarbungu á tveimur tímabilum.

8. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 20 skjálftar mældust við Bárðarbungu síðasta sólarhring. Stærstir voru tveir M3,9 skjálftar, annar kl. 16:38 í gær og hinn kl. 04:18 í nótt. Fleiri mældust ekki yfir þrjá að stærð. Um 10 skjálftar mældust í kvikuganginum, stærsti M2.

Hitadreifing
""
LANDSAT 7 hitamynd fimmtudaginn 5. febrúar 2015 (NASA & USGS), unnin á Jarðvísindastofnun þannig að hún nær að sýna hitadreifingu innan hraunbreiðunnar; stækkanleg. Samskonar mynd frá 6. febrúar, óunnin, sýnir aðeins heitustu svæðin.

7. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 20 skjálftar mældust við Bárðarbungu á tímabilinu frá kl. 10 í gær til kl. 12 í dag. Í morgun urðu tveir skjálftar um 4 stig að stærð, kl. 07:05 M4,1 og kl. 07:20 M4,0. Nokkrir skjálftar mældust af stærð milli M3 og M4. Um tugur skjálfta mældist í kvikuganginum, um og innan við M1,5 að stærð.

6. febrúar 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Greinilega hefur dregið úr gosinu síðustu tvær vikur. Mikil jarðskjálftavirkni er þó enn til staðar í Bárðarbungu. Skýrsla af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb)

6. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Rúmlega 20 skjálftar mældust við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn, sá stærsti kl. 03:48 í nótt, M4,9. Einn skjálfti mældist af stærð M3,9. Fáir skjálftar mældust í kvikuganginum, allir minni en M1,5.

Komið til að vera
""
Sentinel 1 gervitunglamynd frá ESA af nýja hrauninu 5. febrúar 2015. Afstaða til Öskju og Dyngjujökuls sést vel. Stækkanleg. Jarðvísindastofnun.

5. febrúar 2015 - punktar JHÍ úr eftirlitsflugi

Jarðvísindastofnun HÍ hefur sent frá sér punkta úr eftirlitsflugi 5. febrúar 2015 (á ensku, pdf 0,9 Mb).

5. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Um 25 skjálftar mældust við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Stærsti varð kl. 03:13 í nótt, M4,5. Skjálftar af stærð milli M3 og M4 voru þrír. Aðeins 5 skjálftar mældust í kvikuganginum, allir minni en M1,5.

4. febrúar 2015 - ný mælitæki við eldstöðvarnar

Í vinnuferð 22. janúar 2015 voru ný tæki sett upp nærri eldstöðvunum í Holuhrauni, veðurstöð og gasmælitæki.

Gastegundirnar sem vaktaðar eru H2O, SO2, CO2, H2S og H2 eða vatn, brennisteinstvíildi, kolefnistvíildi, brennisteinsvetni og vetni. Gögnin munu nýtast við að spá fyrir um þessa þætti í eldgosum framtíðarinnar. Gasmælitækið fellur undir FutureVolc verkefnið og er hluti samstarfs við ítalskan háskóla, University of Palermo.

Veðurstöðin mælir ýmsa staðbundna umhverfisþætti, svo sem vindhraða, vindátt og rakastig, sem auðveldar ráðgjöf til þeirra sem vinna nærri eldgosinu og auðveldar einnig túlkun sjáanlegra breytinga á gosmekkinum. Veðurstöðin er hluti af samstarfi við breska jarðvísindafélagið British Geological Survey.

4. febrúar 2015 09:50 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Skjálftavirkni í Bárðarbungu og kvikuganginum mældist heldur meiri í gær en dagana á undan, enda veðrið á svæðinu stillt langt fram eftir degi. Eldgosið sást á vefmyndavélum allan síðasta sólarhringinn. Um 45 skjálftar mældust við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Stærsti varð kl. 16:09 í gær, M4. Skjálftar af stærð milli M3 og M4 voru 10. Á annan tug skjálfta mældist í kvikuganginum, allir minni en M1,5.

3. febrúar 2015 - ljósmyndir úr eftirlitsflugi

Í sérstakri grein má skoða ljósmyndir úr eftirlitsflugi 3. febrúar 2015 af gosmekkinum og eldstöðvunum.

3. febrúar 2015 12:00 - frá vísindamannaráði Almannavarna RLS

Lítið virðist hafa dregið úr eldgosinu í Holuhrauni síðustu vikurnar. GPS mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu. Á laugardag (31. janúar) mældist styrkur SO2 2300 μg/m³ á Höfn í Hornafirði. Vinna við nýtt hættumat fyrir gossvæðið stendur yfir.

Skýrsla af fundi vísindamannaráðs Almannavarna RLS (pdf 0,4 Mb)

3. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Aðeins fleiri skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn en sólarhringana á undan, eða um 45. Stærsti skjálftinn varð í gærkvöldi kl. 21:35, M4,6.  Fjórir skjálftar  milli M3 og M4 mældust á tímabilinu. Um 15 skjálftar hafa mælst í kvikuganginum síðan í gærmorgun. Sá stærsti var M1,9.

2. febrúar 2015 10:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Skjálftavirkni í Bárðarbungu og kvikuganginum síðasta sólarhringinn er svipuð og verið hefur. Eldgosið sást oftast á vefmyndavélum, en hvarf á milli í hríðum. Um 30  skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu á þessu tímabili, stærstu í morgun  kl. 08:00 og kl. 08:09, M4,1 og M4,0. Innan við tug skjálfta hefur mælst í kvikuganginum, um og minni en eitt stig að stærð.

1. febrúar 2015 12:00 - frá vakthafandi jarðvísindamanni

Engar stórvægilegar breytingar er að merkja á virkni síðasta sólarhringinn. Vel hefur sést til gossins á vefmyndavélum og virðist virknin vera nokkuð stöðug. Á þriðja tug skjálfta hefur mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn, sá stærsti varð  kl 08:18 í morgun af stærðinni M4,4. Á annan tug skjálfta hefur mælst í kvikuganginum, allir litlir. Tveir skjálftar mældust nærri Grímsvötnum í morgun (kl. 06:20 og 08:35), báðir um 1,2 að stærð, en síðan hefur ekki orðið vart við frekari skjálftavirkni þar.

Hraunið þykknar
""
Þykktarkort af nýja hrauninu frá 21. jan. Hraunið hefur einkum þykknað síðustu vikurnar en lítið breiðst út. Stækkanlegt. Jarðvísindastofnun. Úr skýrslu Vísindamannaráðs Almannavarna RLS, 30. jan. 2015.

31. janúar 2015 - janúarmánuður

Upplýsingar frá því í janúar 2015, um jarðhræringarnar og eldsumbrotin í Bárðarbungu, eru í annarri grein, m.a. gervitunglamynd af Íslandi sem sýnir nýja hraunið og Þingvallavatn og tilvísun í gallerí með flugljósmyndum fyrstu fimm mánuðina.

Aftur upp

Þessa febrúargrein má einnig sækja sem pdf (1,28 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica