Fréttir
Í Mývatnssveit 11. september 2012 kl. 18:13.

Tíðarfar í september 2012

Stutt yfirlit

1.10.2012

Septembermánaðar verður að þessu sinni einkum minnst fyrir óvenjulegt hríðarveður sem gerði um landið norðanvert dagana 9. til 11. Mikið fannfergi og ísing fylgdi veðrinu og olli hvort tveggja miklu tjóni, ísing felldi raflínur og fé fennti þúsundum saman. Enn er ekki ljóst hversu margt fórst.

Hiti

Hiti mánaðarins í heild var nærri meðallagi, ýmist lítillega undir því eða rétt yfir. Hlýjast að tiltölu var á Austfjörðum en kaldast inn til landsins um það vestanvert. Óvenjuúrkomusamt var víða á landinu. Meðalhiti í Reykjavík mældist 7,3 stig, 0,1 stigi undir meðallagi september 1961 til 1990. Þetta er að tiltölu kaldasti mánuður þessa árs í Reykjavík. Meðalhitinn á Akurreyri var 6,0 stig og er það 0,3 stigum undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,1 stig, 0,6 stigum undir meðallagi. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 7,3 -0,1 93 142
Stykkishólmur 7,0 0,2 100 167
Bolungarvík 5,9 -0,2 84 115
Akureyri 6,0 -0,3 100 131
Egilsstaðir 6,2 0,0 41 58
Dalatangi 7,2 0,6 39 74
Teigarhorn 7,3 0,4 69 til 70 140
Höfn í Hornaf. 7,1 -0,6
Kirkjubæjarklaustur 7,3 -0,2 68 87
Stórhöfði 7,4 0,0 88 135
Árnes 6,4 -0,5 [99] [132]
Hveravellir  1,8 -0,6 39 48

 

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Garðskagavita, 8,6 stig, og í Surtsey var hann 8,5. Mánaðarmeðalhitinn var lægstur í Sandbúðum og á Gagnheiði, -0,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 2,8 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hallormsstað og Kollaleiru þann 1., 19,6 stig. Á mannaðri stöð mældist hiti hæstur í Miðfjarðarnesi þann 1., 19,5 stig.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist á Brúarjökli þann 20., -8,4 stig. Lægstur hiti í byggð mældist í Árnesi þann 12., -7,7 stig.

Úrkoma

Fádæma úrkomusamt var víða um landið norðanvert og úrkoma var vel ofan meðallags á flestum stöðvum sem meðaltöl hafa verið reiknuð fyrir.

Í Reykjavík mældist úrkoman 101,7 mm og er það 53% umfram meðallag. Úrkoma hefur oft mælst meiri en þetta í september, síðast 2008. Á Akureyri mældist úrkoman 140,6 mm og er það meir en þreföld meðalúrkoma. Meiri úrkoma hefur aðeins mælst einu sinni á Akureyri í september. Það var 1946 þegar hún mældist 166 mm, þar af meir en helmingur á einum degi.

Þetta er úrkomumesti september á nokkrum stöðvum í Skagafirði og í Eyjafirði, en mælt hefur verið mislengi.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 142,6 í Reykjavík og er það 18 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 84,7 og er það í meðallagi.

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1001,0 hPa og er það 4,6 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1026,1 hPa. Það var á Akureyri þann 25. Lægstur mældist þrýstingurinn á Dalatanga þann 3., 964,3 hPa.

Vindhraði var lítillega yfir meðallagi.

Sælöður eða froða í Ávík á Ströndum. Það myndaðist í sjógarðinum 10. september. Eyðibýlið Stóra-Ávík fjær. Ljósmynd: Jón G. Guðjónsson.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var hlýtt um mikinn hluta landsins, sérstaklega í júlí og ágúst. Að tiltölu var svalast austanlands en um landið vestanvert var sumarið í flokki þeirra hlýjustu sem vitað er um. Meðalhiti í Reykjavík var 10,7 stig og er sá tíundi hæsti sem vitað er um þar. Í Stykkishólmi var hefur aðeins tíu sinnum orðið hlýrra en nú í sumarmánuðunum. Hlýindin voru ekki jafn eindregin á Akureyri en þar hafa 40 sumur verið hlýrri en nú frá því að samfelldar mælingar hófust þar haustið 1881.

Mjög þurrt var um mestallt land framan af sumri en úrkoma jókst eftir því sem á leið og var september úrkomusamur. Í heild mældist úrkoman í Reykjavík 217 mm og er það 94 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri var sérlega þurrt framan af en úrkoma í september var meiri en þrefalt meðaltal þannig að í heild var sumarúrkoman þar nærri 40 prósent umfram meðallag.

Sólríkt var á landinu - einkum framan af sumri. Alls mældust 847 sólskinsstundir í Reykjavík, 145 fleiri en í meðalsumri. Sólskinsstundir að sumri hafa einungis þrisvar sinnum orðið fleiri í Reykjavík, það var þrjú sumur í röð, 1927, 1928 og 1929. Sólskinsstundafjöldi á Akureyri var enn óvenjulegri því þar hafa sólskinsstundir aldrei orðið fleiri að sumri heldur en nú, 775. Það er 219 stundum fleiri heldur en meðaltalið og 25 stundum fleiri en fyrra met, en það var frá sumrinu 2000.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Fyrstu níu mánuðir ársins hafa verið mjög hlýir. Í Reykjavík hefur meðalhiti tímabilsins aðeins sex sinnum verið hærri en nú og einu sinni jafnhár (1960). Í Stykkishólmi hefur aðeins tvisvar orðið hlýrra en nú (frá 1845), það var 2003 og 2010, og einu sinni jafnhlýtt (2004). Á Akureyri hefur 5 sinnum orðið hlýrra fyrstu níu mánuði ársins heldur en nú, síðast 2004.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica