Fréttir
Snjoboltar_004
Vindgerðir snjóboltar við Gíslabæ á Hellnum.

Tíðarfar í febrúar 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.3.2010

Fyrstu tvær vikur mánaðarins máttu heita einn samfelldur góðviðriskafli. Lengst af var hlýtt á landinu, en frost þó allmikið dag og dag inn til landsins. Síðari hluta mánaðarins var vetrartíð, talsvert snjóaði, fyrst um landið norðaustan- og austanvert, en allra síðustu dagana einnig á Suður- og Vesturlandi og urðu þá nokkrar truflanir á samgöngum. Hitinn á Suður- og Vesturlandi var ekki fjarri meðallagi en nokkuð undir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi, einkum inn til landsins.

Meðalhitinn í Reykjavík var 0,0 stig og er það 0,3 stigum undir meðallagi. Þetta er þriðji febrúarmánuðurinn í röð með meðalhita við frostmark í Reykjavík. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,5 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi. Á Akureyri mældist meðalhitinn -3,0 stig og er það um 1,6 stigum undir meðallagi, þetta er ívið hlýrra en var í febrúar í fyrra. Á Höfn í Hornafirði mældist meðalhitinn -0,5 stig og er það 1,1 stigi undir meðallagi. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 0,0 -0,3 63 140
Stykkishólmur -0,5 0,2 63 165
Bolungarvík -1,2 -0,2 54 113
Akureyri -3,0 -1,6 86 129
Egilsstaðir -4,1 -2,2 53 61
Dalatangi 0,2 -0,5 45 72
Höfn í Hornaf. -0,5 -1,1
Stórhöfði 1,6 -0,4 57 133
Hveravellir -7,2 -1,2 31 45

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 9,2 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi þann 7. og á Vatnsskarðshólum í Mýrdal þann 15. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Keflavíkurflugvelli þann 12., 8,5 stig. Það hefur ekki gerst áður að hæsti hiti mánaðarins á landinu hafi mælst á þessari stöð.

Lægsti hiti á landinu mældist á Brúarjökli þann 23., -24,2 stig. Lægstur hiti í byggð mældist í Svartárkoti þann 24., -23,2 stig. Sama dag mældist lágmarkshiti á Torfum í Eyjafirði -20.9 stig og er það lægsti hiti mánaðarins á mannaðri veðurstöð.

Úrkoma og sólskinsstundir

Mánuðurinn var mjög þurrviðrasamur á Suður- og Vesturlandi, úrkoma í Reykjavík mældist aðeins 26,4 mm. Þetta er þurrasti febrúar síðan 1990. Síðustu þrír mánuðir hafa samtals verið mjög þurrviðrasamir í Reykjavík og er úrkomusumma þeirra sú lægsta frá 1976-1977. Ámóta lítil úrkoma og nú mældist einnig í desember 1978 til febrúar 1979.

Tvöföld meðalúrkoma mældist á Akureyri, 86,0 mm, og varð mánuðurinn úrkomusamasti febrúar þar frá árinu 2000.

Mjög þurrt var á Höfn í Hornafirði og mældist úrkoman aðeins 10,3 mm. Þetta er líklega þurrasti febrúar á þessum slóðum frá 1965, en flutningar stöðva skapa nokkra óvissu um samfellu mælinganna.

Á Vesturlandi var mánuðurinn yfirleitt sá þurrviðrasamasti sem vitað er um á stöðvum þar sem úrkomumælingar hafa aðeins verið stundaðar í 10 til 15 ár. Á Keflavíkurflugvelli hefur verið mælt samfellt frá því í apríl 1952 og var febrúar nú sá þurrasti sem komið hefur þar á þessu tímabili, næstþurrastur var febrúar 1966.

Sólskinsstundir mældust 87 í Reykjavík, 35 fleiri en í meðalári. Þetta er þó mjög langt frá meti febrúarmánaðar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 34 og er það í meðallagi.

Snjór

Framan af mánuðinum var óvenjusnjólétt og alautt var í Reykjavík fyrstu 24 dagana. Syrpa alauðra daga varð alls 47 dagar að þessu sinni og hefur aldrei orðið lengri eftir áramót. Hér eru gögn aðgengileg aftur til 1961. Árið 1964 var alauða syrpan 46 dagar og endaði með snjókomu aðfaranótt 24. mars. Dagafjöldinn milli alhvítra daga varð 58 að þessu sinni. Syrpa sem endaði 1. apríl 1977 er sú lengsta milli alhvítra daga að vetrarlagi, 85 dagar.

Í Reykjavík var alhvítt aðeins 3 daga í mánuðinum. Það er 10 dögum færra en að meðaltali 1971 til 2000. Í desember, janúar og febrúar voru aðeins 8 alhvítir dagar og hafa ekki verið færri í þessum mánuðum frá 1977.

Fjórtán alhvítir dagar voru á Akureyri og er það 7 dögum færra en í meðalári.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði mánaðarins var 0,7 m/s undir meðallagi á mönnuðu stöðvunum. Ekki var tiltakanlega hvasst í hríðarveðrinu suðvestan- og vestanlands þann 25. og 26. þótt samgöngur á þjóðvegum á þeim slóðum færu úr skorðum um tíma. Nokkuð snarpt norðankast gerði þann 15. er lægð dýpkaði snögglega austur af landinu, en það gekk fljótt niður.

Loftþrýstingur var með hærra móti, meðalþrýstingur í Reykjavík var 1014,0 hPa. Fimm ár eru síðan meðalþrýstingur í febrúar var svo hár. Meðalþrýstingur í desember til febrúar var með allra hæsta móti, eða 1010,3 hPa, meðalþrýstingur þessa þrjá mánuði hefur ekki orðið jafn hár síðan í desember 1968 til febrúar 1969 og hefur aðeins fimm sinnum orðið hærri allt frá upphafi samfelldra mælinga 1823. Þrýstingur í mánuðunum einum og sér var alllangt frá metum, en mjög óvenjulegt er að allir þrír mánuðirnir séu langt ofan meðallags samfellt. Kuldar í Evrópu fylgja gjarnan háum þrýstingi á Íslandi, eins og raunin hefur verið í vetur og nao-fyrirbrigðið hefur verið í neikvæðri stöðu lengst af.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica