Fréttir
hámarksmet í Reykjavík
Nýtt hitamet var sett í Reykjavík kl. 18:00 hinn 30. júlí 2008.

Ný hitamet 30. júlí 2008

Ný hitamet á mönnuðum stöðvum

31.7.2008

Síðustu viku júlímánaðar 2008 voru mikil hlýindi um stóran hluta landsins og náðu hámarki miðvikudaginn 30. Þá voru sett ný hitamet á nokkrum stöðvum.

Á Þingvöllum mældist hitinn á sjálfvirku veðurstöðinni 29,7 stig og er það hæsti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri stöð á Íslandi. Þetta er aðeins 0,8°C lægra en landsmetið frá Teigarhorni frá 1939 (30,5°C).

Á mönnuðu stöðvunum voru sett ný met á nokkrum stöðvum. Í Reykjavík fór kvikasilfursmælirinn í 25,7°C og er það 0,9°C ofan við gamla metið frá því í ágúst 2004. Met var einnig sett á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík, en sá mælir fór í 26,4°C um kl. 17:32. Hiti á Reykjavíkurflugvellli mældist þá 26,2°C. Hæstur hiti á höfuðborgarsvæðinu mældist á Skrauthólum á Kjalarnesi, 28,4°C. Þetta er hæsti hiti sem vitað er um á þessu svæði. Á Hólmsheiði mældist hitinn 27,9°C, 27,5°C í Geldinganesi og 27,2°C á Korpu.

Nýtt hitamet var sett á Vestfjörðum, en þar mældust 26,0°C á Hólum í Dýrafirði, reyndar ekki fyrr en kl. 21 um kvöldið. Á öðrum mönnuðum stöðvum voru met sett á Hjarðarlandi í Biskupstungum, 28,8°C, og var það hæsti hiti á mannaðri stöð þennan dag, og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór hitinn í 21,6°C og hefur ekki orðið hærri þar, en mælt hefur verið á Stórhöfða frá 1921. Gamla metið var frá 1924. Á sjálfvirku stöðinni í kaupstaðnum fór hitinn í 23,6°C sem er líka nýtt met.

Endanlegt uppgjör á öllum stöðvum bíður næstu daga þegar hitabylgjan verður um garð gengin. Þá verður metalisti allra stöðva endurnýjaður. Talsvert þrumuveður gerði við suðausturströndina að kvöldi 30.

Sjá eldri lista yfir hitamet á íslenskum veðurstöðvum 1873-1923 og 1924-2007.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica