Fréttir
Vatnsflóð
Vatnsflóð.

Óvenjumikil úrkoma

27. september 2007

28.9.2007

Óvenjumikil úrkoma hefur verið um landið vestan- og sunnanvert undanfarna daga. Mest sólarhringsúrkoma mældist á sjálfvirkri veðurstöð við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu, 220,2 mm, frá kl. 9 þann 26 til kl. 9 þann 27. Í úrkomumælingum er venjulega skipt á milli sólarhringa kl. 9 að morgni. Eldra met á þessum stað er 148 mm sem mældust á árinu 2006, en mælingarnar hófust árið 2001. Þetta er mesta úrkoma sem vitað er um á einum sólarhring á Suðvesturlandi, en hafa verður í huga að úrkomumælingum í fjalllendi hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Líklega falla því fleiri met af þessu tagi innan tíðar.

Síðastliðin sólarhring (27. til 28. september) mældist úrkoman mest í Kvískerjum í Öræfum, 157,0 mm.

Sjá ítarlegri umfjöllun

September hefur verið mjög úrkomusamur, svo mjög að heggur nærri meti í Reykjavík. Fram til kl. 9 í morgun (28.) hafði úrkoman í mánuðinum mælst 153,6 mm og hefur aðeins fjórum sinnum verið meiri í öllum mánuðinum. Það er árið 1887 (176,0 mm), 1906 (157,3 mm), 1959 (156,2 mm) og 1900 (154,0 mm). Telja má mjög líklegt að úrkoman síðustu daga mánaðarins komi honum upp í að minnsta kosti annað sætið í úrkomuröðinni. Spár gefa meira segja til kynna að metið frá 1887 sé í hættu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica