Greinar
línurit
Úrkoma og úrkomuákefð við Ölkelduháls 27.9. 2007

Úrkomumet við Ölkelduháls 2007

27. september 2007

Trausti Jónsson 28.9.2007

Óvenjumikil úrkoma var á landinu vestan- og sunnanverðu 26. til 27. september 2007. Mest sólarhringsúrkoma mældist á sjálfvirkri veðurstöð við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu, 220,2 mm, frá kl. 9 þann 26. til kl. 9 þann 27., en í úrkomumælingum er venjulega skipt á milli sólarhringa kl. 9 að morgni. Eldra met á þessum stað er 148 mm sem mældust á árinu 2006, en mælingarnar hófust árið 2001.

Mynd 1 sýnir uppsöfnun úrkomu og ákefð hennar (úrkomuákefð - sjá orðskýringar) við Ölkelduháls metsólarhringinn og 9 klukkustundum betur. Þar sést að rigningin byrjaði um kl. 9 og stóð linnulítið til kl. um 7 að morgni næsta dags, en frá því kl. 10 til kl. 17 síðari daginn féllu um 50 mm. Milli kl. 13 og 14 síðari daginn var ákefðin svipuð og mest var í aðalhrinunni, eða um 15 mm á klukkustund. Á rúmum sólarhring mældist úrkoman því 272 mm.

Tvísmella þarf á myndina til að fá hana stærri og með ítarlegum texta.

Í Grundarfirði mældist úrkoman á sama tíma 169,9 mm, það mesta sem mælst hefur í sjálfvirka mælinn þar á sólarhring, en sá mælir hefur aðeins verið þar í um tvö ár. Mannaðar úrkomumælingar voru í Grundarfirði 1991 til 1996, á því tímabili mældist sólarhringsúrkoman mest 138 mm. Úrkoma í Bláfjöllum mældist 128,3 mm, en sólarhringsúrkoman hefur nokkrum sinnum mælst meiri þar. Í Ólafsvík mældust 96,7 mm, en þar hefur úrkoma nokkrum sinnum mælst meiri, mest 177 mm á sólarhring.

Á mönnuðu stöðvunum mældist mest í Hænuvík í Rauðasandshreppi, 98,6 mm. Þetta er langmesta sólarhringsúrkoman þar, en aðeins hefur verið mælt í rúm tvö ár. Á Lambavatni í sömu sveit hefur úrkoma verið mæld samfellt síðan 1939, þar hefur sólarhringsúrkoma aðeins þrisvar orðið meiri en þeir 85,6 mm sem mældust nú, mest 106,4 mm 1961.

Á mönnuðum stöðvum hefur úrkoma aðeins fjórum sinnum mælst meiri en 220 mm, þar af á tveim stöðvum sama daginn. Þetta eru:

Kvísker 28. febrúar 1968 228,4 mm
Vagnstaðir 28. febrúar 1968 233,9 mm
Kvísker 1. október 1979 242,7 mm
Kvísker 10. janúar 2002 293,3 mm

Sjá umfjöllun um úrkomu á Íslandi frá 1860.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica