Fréttir
Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1.-21. ágúst, 2021. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris og blái sig (sjá kvarða). (Smelltu á myndina til að lesa meira)

Land rís við Öskju

3.9.2021

Samfelldar GPS mælingar og gervitunglagögn úr Sentinel-1 (InSAR) sýna að þensla hófst í Öskju (Dyngjufjöllum) í byrjun ágúst 2021. Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns nálægt Ólafsgígum nærri GPS stöð sem sýnir nú landris upp á um það bil 5 cm á mánuði.

Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar, en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust að nýju  árið 1983 hafði land sigið. Síðan þá hefur mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til nú.

Ekki er alveg ljóst hvað veldur þenslunni sem nú mælist, en talið er líklegast að um innflæði kviku sé að ræða. Eldfjöll sýna oft lotubundna virkni þar sem þau liggja svo að segja í dvala með lítilli virkni árum og áratugum saman en inn á milli koma virknitímabil með þennslu, jarðskjálftum og jarðhita. Engin leið er að segja til um það fyrirfram hvernig slík virknitímabil þróast, en algengast er að slíkum tímabilum ljúki án þess að til eldgoss komi.   

Veðurstofan fylgist vel með þróun mála og mun veita upplýsingar um allar breytingar sem verða á virkninni.

Nánari upplýsingar um eldstöðina Öskju má lesa á islenskeldfjoll.is


Gröfin sýna færslur á GPS stöðinni OLAC í norður, austur og upp fyrir tímabilið 27. júlí til 2. september, 2021. Stöðin, sem er staðsett nærri miðju landrissins (sjá InSAR mynd), sýnir að um mánaðarmótin júlí-ágúst fór ris að mælast og mælist enn, 2. september. Grafið sýnir að rishraðinn er um það bil 5sm á mánuði.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica