Fréttir
ljósmynd
Öræfajökull 17. nóvember 2017. Ljosmynd: Ágúst J. Magnússon.

Yfirlit vegna Öræfajökuls

Almannavarnir funduðu með vísindamönnum

13.7.2018

Að loknum samráðsfundum í gær og í dag, meðal annars með Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og Íslenskum orkurannsóknum, hafa Almannavarnir gefið út samantekt um núverandi stöðu, mögulega þróun og viðbragðsáætlanir.

Núverandi staða Öræfajökuls:

  • Skýr merki eru um ókyrrð í Öræfajökli en fjallið hefur þanist út, a.m.k. frá áramótum 2016-17.
  • Þenslunni fylgir aukin jarðskjálftavirkni og aflögun, sem kemur fram í úrvinnslu  gervitunglagagna og GPS mælinga.
  • Engin merki eru að hraði þenslunnar fari minnkandi þó svo að jarðhitavirkni hafi minnkað frá því í desember 2017.
  • Orsök þenslunnar er talin vera innskot nýrrar kviku í rótum eldstöðvarinnar.  Rúmmálsbreyting síðan þessi atburðarás hófst er af stærðargráðunni 10 milljón rúmmetrar (um 0.2 m3/s) sem er sambærilegt við kvikuinnskot í Eyjafjallajökli á árunum fyrir gosið 2010.
  • Nýjar viðnámsmælingar sýna jarðhitaummyndun á litlu dýpi inni í öskju Öræfajökuls sem er merki um tilvist háhitakerfis, svipað og sést í mörgum megineldstöðvum á Íslandi. 

Möguleg þróun:           

  • Virkni Öræfajökuls nú er dæmigerð fyrir eldfjöll sem búa sig undir eldgos.  Virknin getur hætt áður en til goss kemur en um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi.
  • Ein möguleg afleiðing núverandi þróunar er aukin jarðhitavirkni sem gæti orsakað jökulhlaup og gasmengun.

Viðbrögð almannavarna og annarra aðila:

  • Haldnir hafa verið fundir með íbúum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu þar sem þeir hafa verið upplýstir um atburðarás undanfarinna mánaða í Öræfajökli. Fyrirhugað er að halda fund með sömu aðilum undir lok september þar sem farið verður yfir stöðu mála að nýju.
  • Unnin hefur verið neyðarrýmingaráætlun fyrir Öræfasveit sem virkjuð verður komi til eldgoss í Öræfajökli fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Neyðarrýmingaráætlunina má nálgast hér: https://www.almannavarnir.is/utgefid-efni/neydarryming-oraefajokull/?wpdmdl=23348
  • Unnið er að gerð viðbragðsáætlunar vegna eldgos í Öræfajökli á vegum almannavarna í héraði.
  • Tækjum til vöktunar eldfjallsins hefur verið fjölgað verulega og náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands fylgjast grannt með atburðum. Þeir senda viðvaranir til almannavarna ef þeir verða varir við breytingar.
  • Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun háskólans og Íslenskar orkurannsóknir með aðstöð Jöklarannsóknarfélags Íslands hafa unnið að auknum rannsóknum á Öræfajökli á undanförnum misserum til að auka skilning á aukinni jarðskjálftavirkni í Öræfajökli, þenslu eldfjallsins og breytingum á jarðhitavirkni.
  • Fjarskipafyrirtæki hafa unnið að því að bæta farsímasamband í Öræfum.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica