Fréttir
vhm 102
Leiðnimælingar í Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði og Upptyppinga frá 1. september til 7. nóvember.

Rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum stöðug

8.11.2017

Undanfarnar tvær vikur hefur rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum farið hækkandi. Handmælingar starfsmanna Veðurstofunnar staðfesta sjálfvirk mæligildi. Þeir tóku eftir því að áin var óvenju mórauð miðað við árstíma og jarðhitalykt var af ánni. Rafleiðnihækkunin var mæld, bæði við vatnshæðamæli við Upptyppinga og Grímsstaði. Núverandi gildi við Upptyppinga er 295μS/cm sem er tvöfalt meira en eðlilegt væri á þessum árstíma. Rafleiðnimælingar við Grímsstaði sýna fylgni við mælingarnar við Upptyppinga.

Sérfræðingar Veðurstofunnar funduðu kl. 9 í dag, 8. nóvember, með fulltrúum Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og fóru yfir stöðuna. Á þessari stundu er rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum stöðug og rennsli ekki að aukast.

Vísindamenn hjá Jarðvísindastofnun Háskólans hafa  borið saman ratsjármyndir af NV-hluta Vatnajökuls, annars vegar frá 26. október og hins vegar frá í gærmorgun (7.11.2017). Þær benda til lítilsháttar breytinga í vestanverðum Kverkfjöllum, á jarðhitasvæði í svokölluðu Gengissigi. Nokkuð sterk jarðhitalykt fannst af ánni inni við Kverkfjallaskála á sunnudag. Að sögn umsjónarmanns skálans í  Kverkfjöllum hefur slík lykt fundist áður í tengslum við lítil vatnsskot undan jöklinum. Uppruni aukinnar rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum er því líklega í Kverkfjöllum.

gervihnattarmynd

Kverkfjöll að morgni 7. nóvember 2017. Gervitunglamynd. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands.

Verið er að greina nánar öll aðgengileg gögn, svo sem vatnamælagögn, gervitunglamyndir, skjálftagögn/óróagögn og fleira. Ekki er líklegt að hægt verði að fljúga yfir svæðið í dag vegna veðurs en vonast er til að hægt verið að fara á vettvang sem fyrst.

Fólk er hvatt til þess að sýna aðgát við upptök árinnar vegna mögulegs gasútstreymis við upptök.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica