Fréttir
Kort13052024

Vorþing um svæðisbundnar langtímaspár á norðurslóðum

13.5.2024

Dagana 22. og 23. maí fer fram þrettándi samráðsfundur um veðurfarshorfur á norðurslóðum (Arctic Climate Forum 13, ACF13). Fundurinn er á vegum Arctic Regional Climate Network (ArcRCC-N) en gestgjafinn þetta vorið er Veðurstofa Íslands, í samstarfi við Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO).  Samráðsfundurinn fer fram í netheimum og er opinn öllum þeim sem skrá sig.

Dagskrána má finna hér og hægt er að skrá sig á fundinn hér

Samstarfsnet fyrir betri loftslagsþjónustu 

Veðurstofa Íslands er aðili að samstarfsnetinu Arctic Regional Climate Centre Network  sem er samstarfvettvangur veðurstofa á norðurslóðum og er á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Netið miðar að því að efla loftslagsþjónustu á norðurslóðum, m.a. með því að gefa reglulega út yfirlit um veðurfarshorfur næstu mánaða. ArcRCC-N nær yfir allt norðurslóðasvæðið, en vinnu hópsins er skipt í þrjú landfræðileg undirsvæði (i) svæði innan Norður-Ameríku, (ii) svæði innan Norður-Evrópu og Grænlands og (iii) svæði innan Evrasíu (mynd 1). Samstarfsnetið fundar reglulega um starfið en opnir fundir fyrir hagaðila eru haldnir tvisvar sinnum yfir árið, að vori og hausti.

Í ár kemur það í hlut Veðurstofu Íslands að halda vorfund samstarfsins.Þar verður m.a. farið yfir veðurfar síðustu mánaða á norðurslóðum, farið yfir hversu vel þær horfur sem lýst var á síðasta fundi gengu eftir og í framhaldinu spáð í  veðurhorfur næstu mánaða. Veðurstofan kynnir m.a. veðurlag síðustu mánaða á Íslandi og Grænlandi og hafsvæðinu austan við Grænland. 

Á þinginu verða, eins og á síðustu þingum, kynningar frá notendum þeirra upplýsinga sem vettvangurinn veitir. Til dæmis mun Andri Gunnarsson frá Landvirkjun fjalla um notkun langtímaveðurspár auk þess sem Jóhanna Gísladóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Matthías Kokorsch frá Háskólasetri Vestfjarðar munu kynna niðurstöður CliCNord verkefnisins um loftslagsþol smærri samfélaga á Norðurlöndum. Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica