Fréttir
GPS stöðin KASC. Öskjuriminni ofan við Öskjuvatn í baksýn
GPS stöðin KASC. Öskjuriminni ofan við Öskjuvatn í baksýn

Vöktun Öskju efld

Áskorun að koma fyrir mælitækjum á hálendinu

18.10.2021

Landris fór að mælast við Öskju í byrjun ágúst. þetta sást bæði á GPS stöðinni OLAC sem staðsett er í miðju öskjunnar í Öskju og á InSAR myndum. InSAR sýnir að um er að ræða þennslumerki, merki sem er 5-6 km í þvermál og er rishraðinn við OLAC um 75 sm/ári og var orðnn um 15 sm þann 12. október. Módelreikningar sýna að risið, sem er enn í gangi, er líklegast merki um að kvika sé að flæða inn á 2-3 km dýpi í jarðskorpunni.

Þrátt fyrir að InSAR myndir, sem unnar eru úr radar gervitunglum, sýni vel þennsluna á svæðinu þá hætta þær að nýtast þegar að fer að snjóa og því er nauðsynlegt að fjölga GPS mælum svo hægt sé að halda áfram að meta umfang, dýpi og rúmmál kvikunnar sem er að safnast fyrir undir Öskju á meðan hún er þakin snjó.

Endurvarpi-TANC

Endurvarpinn á norðanverðum Öskjurimanum og GPS stöðin TANC, Öskjuvatn í baksýn. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson)

Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar, en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust að nýju  árið 1983 hafði land sigið. Síðan þá hefur mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til nú.

Mikilvægt að efla vöktun

Til að viðhalda getu Veðurstofunnar að vakta landrisið í Öskju var því afráðið í samráði við Almannavarnir og Vísindamenn í HÍ að bæta við þremur nýjum GPS stöðvum í Öskju. Rekstur og viðhald á tækjum í Öskju er gríðarlega krefjandi, enda er Askja nánast á miðju hálendi Íslands og ekkert GSM samband inni í Öskjunni. því hefur samhliða rekstri GPS stöðvarinnar í Ólafsgígum (OLAC) verið rekinn endurvarpi á norðanverðum öskjurimanum sem tengir OLAC með radíólink við umheiminn. þessi Raídólinkur bilaði í óveðri þann 21. september. Þann 24. september fóru þrír sérfræðingar frá Veðurstofunni í Öskju til að setja upp þrjár nýjar GPS stöðvar, tvær skjálftastöðvar og tvær myndavélar ásamt því að laga endurvarpann. Þar sem byrjað er að vetra var mjög mikilvægt að komast til að setja upp stöðvarnar áður en snjór setur allt á kaf. Veður og færð settu hins vegar strik í reikninginn í þessari ferð og einungis tókst að setja upp eina GPS stöð (TANC) og ekki tókst að laga endurvarpann.

Monitor-map-45x25-cm-GPS-stations-20211014

kort sem sýnir staðsetningar á  GPS stöðvum og endurvarpanum (JONC, KASC og TANC nýjar)

Mikil áskorun að reka mælitæki uppi á hálendi

Veðurstofan rekur mælakerfi sem samanstendur af rúmlega 800 mælitækjum og mörg hver eru staðsett utan hefðbundis farsímasambands og ekki tengd raforkukerfi landsins. Það getur því verið mikil áskorun að útbúa mælibúnað þannig að hann þoli veðráttu landsins og noti um leið litla orku en sé í stöðugu sambandi við fjarskiptakerfi. „Það virðist hafa skemmst radíó uppi á endurvarpanum sem talar við allar stöðvarnar sem eru inni í Öskjunni og við skiptum um það radíó og þá komst allt í gang aftur,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga, sem var einn þeirra sem tók þátt í leiðangrinum.

GPS stöðin JONC, Öskjuvatn í baksýn

GPS stöðin JONC, Öskjuvatn í baksýn. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson)

Seinni leiðangurinn var farinn þann 9. Október en mjög gott vetraverður var þann 10. og 11. október og í þessari ferð tókst að laga endurvarpann og setja upp tvær GPS stöðvar í viðbót (JONC og KASC), ásamt því að myndavélum sem horfa á virkustu jarðhitakerfin í Öskju, komið fyrir við GPS stöðvarnar OLAC og JONC en vefmyndavélarnar horfa beint yfir Öskjuvatn og svo í átt að Mývetningahrauni. Einnig var skjálftamælir, sem rekinn er af Cambrige háskóla við Herðubreið, komið í samband við umheiminn. Nú er tryggt að Veðurstofan getur haldið áfram að vakta landrisið í Öskju í vetur og fram á sumar.  Í ferðinni kom þó í ljós að radíolinkurinn á endurvarpanum er ekki nógu öflugur til að þjónusta þær stöðvar sem eru nú í rekstri inni í öskjunni. þetta veldur því að gagnasendingar er alveg á mörkum þess sem endurvarpinn ræður við og geta því legið niðri í einhvern tíma þegar aðstæður t.d. í veðri eru slæmar. Þegar er hafinn undirbúningur að auka aflið í radíólinknum til að tryggja betur uppitíma endurvarpans.

GPS stöðin KASC. Öskjuriminni ofan við Öskjuvatn í baksýn

GPS stöðin KASC. Öskjuriminni ofan við Öskjuvatn í baksýn (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson)

Leiðangurinn var mjög mikilvægur til þess að tryggja að hægt sé að vakta í rauntíma virkni í Öskju sérstaklega ef dregur til frekari tíðinda í vetur. Rekstur við þessar aðstæður, sérstaklega að vetri til, krefst mikils undirbúnings og tækjabúnaðar svo hægt sé þjónusta stöðvarnar við gríðarlega krefjandi vetrar aðstæður uppi á miðju hálendi Íslands. Í þessari síðustu ferð tókst að koma upp þeim innviðum sem þarf til að reka stöðvarnar og gerir það Veðurstofunni kleift að vakta Öskju í vetur. Fyrirsjánlegt er að vetrarveður setji  strik í reikningin hvað varðar rekstur á þessum stöðvum en  Veðurstofan mun gera allt sem hægt er til að halda þeim gangandi og í sambandi svo hægt sé að fylgjast vel með þróunn virkninnar í Öskju.


tímaröðin úr GPS stöðinni Ólafsgígum síðan 19. Júlí. á myndinni sést vel um 15 sm breyting í lóðrétta þættinum en einnig suðvesturfærsla.

Tímaröðin úr GPS stöðinni Ólafsgígum síðan 19. Júlí. á myndinni sést vel um 15 sm breyting í lóðrétta þættinum en einnig suðvesturfærsla.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica