Fréttir
Jarðskjálftamælar sem tengdir eru rauntímavöktun Veðurstofunnar eru merktir á kortinu með þríhyrningi. Nýju mælarnir þrír sem bæst hafa við eru merktir með rauðum hring. Kortið sýnir einnig jarðskjálftavirkni síðustu tvo sólarhringa.

Vísindaráð Almannavarna fundaði í dag

Rýnt í þær sviðsmyndir sem liggja fyrir og reynt að draga fram þá þætti sem þarf að kanna betur

30.1.2020

Jarðvísindamenn hittust á vísindaráðsfundi Almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni í grennd við Þorbjörn. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku, Umhverfisstofnun og lögreglunni á Suðurnesjum.

Á fundi vísindaráðs kom fram að jarðskjálftavirkni heldur áfram á svæðinu og dreifist á nokkrar sprungur norður af Grindavík. Þrír jarðskjálftamælar hafa bæst við rauntímavöktun Veðurstofunnar og tveir í viðbót bætast við á næstu dögum, sem bætir áreiðanleika í staðsetningu skjálfta. Fjölgun jarðskjálftamæla bætir einnig getu eftirlitskerfisins til að greina mögulegan gosóróa.

Kvikuinnskot líklegasta skýringin á landrisinu

Landið við Þorbjörn rís enn og nemur landrisið 3-4 cm þar sem það er mest. Veðurstofan hefur sett upp þrjá nýja GPS mæla á svæðinu. Þær niðurstöður sem fengist hafa benda til að risið eigi upptök á um 4 km dýpi en töluverð óvissa er enn á dýpi þenslumiðjunnar. Merkin sem sjást eru til samræmis við að kvika sé að safnast fyrir í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til að rúmmál kvikunnar sé nú 1-2 milljón rúmmetrar. Of snemmt er að útiloka aðrar skýringar, en kvikuinnskot þykir sú líklegasta. Engin áhrif kviku hafa komið fram í jarðhitakerfi Svartsengis.

Gas- og efnamælingar í jarðhitavökva hafa verið auknar á jarðhitasvæðinu við Svartsengi og Eldvörp í samstarfi við HS-orku. ÍSOR vinnur að þyngdarmælingum til að kanna og fylgjast með mögulegum breytingum í jarðskorpunni samfara landrisinu.

Á fundinum var rýnt í þær sviðsmyndir sem liggja fyrir og reynt að draga fram þá þætti sem þarf að kanna betur. Sviðsmyndirnar voru meðal annars bornar saman við þekkta atburði á Íslandi og annarsstaðar.

Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður eftir viku að öllu óbreyttu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica