Fréttir
Skjáskot af fagsíðum Vatnafars.

Viltu tilkynna vatnsflóð?

Nýtt og öflugt skráningarform

20.10.2016

Veðurstofan þiggur með þökkum hvers konar tilkynningar um vatnsflóð undanfarinna daga.

Nýtt og öflugt skráningarform er komið á vefinn fyrir þá sem það kjósa. Vissulega er enn hægt að hringja og koma upplýsingum þannig á framfæri en vonir standa til þess skráningarformið henti langflestum betur. Veðurstofa Íslands áskilur sér rétt til að birta skráningarnar á vefnum og er litið á þátttöku sem samþykki fyrir slíkri birtingu.

Tilkynning um vatnsflóð

Mikilvægt er að vita hvers konar vatnsflóð fólk hefur orðið vart við. Það skýrist þegar gefnar eru þær upplýsingar sem óskað er eftir; staðsetning, umfang, skemmdir og fleira. Ljósmyndir eða önnur gögn sem sýna atburðinn eru líka vel þegnar (hámarksstærð 10 Mb).

Skráningarformið byggist á Íslandskorti sem þysjanlegt, hvort heldur með snertingu í snjalltæki eða með mús ef notast er við borðtölvu og skjá. Einnig er hægt að láta hugbúnaðinn skrá staðsetningu þess sem tilkynnir, ef hann er staddur á flóðastaðnum.

Ganga þarf úr skugga um að netsamband sé virkt áður en vistað er til að ljúka skráningu.

Ákall

Veðurstofan hefur oft fengið góð viðbrögð við óskum um upplýsingar, bæði vegna náttúruvár og líka vegna algengra eða sjaldgæfra náttúrufyrirbrigða.

Viðburðir undanfarinna daga eru óvenjulegir. Með samstilltu átaki getur skrásetning þeirra orðið mjög góð. Þegar upplýsingarnar safnast saman verður hægt að skoða vistaðar skráningar öllum til fróðleiks, jafnt almenningi sem vísindamönnum (sjá hnapp neðst í forminu).

Skráningarformið er að finna í tengli ofar í fréttinni. Varanlegan tengil á það má finna á Vatnafarssíðum (sjá meðfylgjandi skjáskot af vefnum).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica