Fréttir
Skaftárhlaup 2018.

Viðvörun: Skaftárhlaup stendur yfir

Fréttin er uppfærð reglulega

2.8.2018

Nýjustu upplýsingar: Rennsli í Skaftá komið í eðlilegt horf

9.8. 14:30

Rennsli í Skaftá er komið aftur í eðlilegt horf miðað við árstíma og Skaftárhlaupinu því að mestu lokið. Enn mælist mikið rennsli í Grenlæk og Tungulæk þar sem vatnshæð stendur hátt, en áætlað er að það muni taka 7-8 daga að ná jafnvægi.

Skaftárhlaupið nú eitthvert stærsta jökulhlaup í Skaftá síðan mælingar hófust

8.8. 12:30

Skaftárhlaup stendur yfir og er í rénun. Rennsli Skaftár við Sveinstind fer nú mjög minnkandi, mælist nú um 180 m³/s en var nærri 400 m³/s á hádegi í gær. Rennsli í byggð fer nú einnig minnkandi og mun draga úr vatnsmagni í Skaftá næstu daga. Á hádegi í dag mældust sama rennsli um 180 m³/s í Eldvatni við Ása.

Vatn flæðir út á Eldhraun þar og þaðan skilar vatnið sér í Grenlæk og Tungulæk og stendur vatnshæð þar hátt. Rennsli í Grenlæk og Tungulæk minnkar um helming á um það bil 7-10 dögum eftir hlaup þar til það nær jafnvægi.

Rúmmál hlaupsins nú er metið um 500 gígalítrar, þar af runnu um 435 gígalítrar frá jökli en grunnrennsli árinnar meðan á hlaupinu stóð er metið 65 gígalítrar. Rúmmál hlaupsins 2015 hefur verið metið um 425 gígalítrar, þar af um 365 gígalítrar frá jökli. Skaftárhlaupið nú er því stærra að rúmmáli til en hlaupið 2015 og eitthvert stærsta jökulhlaup í Skaftá síðan mælingar hófust, en sambærileg hlaup að rúmmáli féllu 1970, 1982, 1984 og 1995 auk hlaupsins 2015.

Skafta-sveinstindur-heildarrennsli-bradabnst-2015-2018_NYTT

Nýafstaðið Skaftárhlaup náði næsthæsta rennsli við Sveindtind sem mælst hefur síðan rennslismælingar hófust þar árið 1972. Með leiðréttingu fyrir framhjárennsli náði rennslið rúmlega 2000 m³/s en rennsli í hlaupinu 2015 er metið rúmlega 3000 m³/s þegar leiðrétt hefur verið fyrir framhjárennsli.

Skaftárhlaup í rénun

7.8. 15:30

Rennsli Skaftár við Sveinstind fer nú mjög minnkandi og var nærri 400 m3/s á hádegi í dag. Rennsli niðri í byggð fer nú einnig minnkandi og mun draga úr vatnsmagni í Skaftá næstu daga. Hins vegar er vatnsmagn í Grenlæk og Tungulæk enn að aukast. Þar skilar sér vatn sem runnið hefur út í Eldhraun og rennur svo út í lækina.

Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.

Hlaupið nú með stærri hlaupum úr Eystri Skaftárkatli

Um hádegi föstudaginn 3. ágúst var venjulegt sumarrennsli í ánni (um 140 m3/s) en jókst þá skyndilega og var komið yfir 1.000 m3/s á miðnætti þann dag. Þann 4. ágúst jókst rennslið enn og náði hámarki um 2.000 m3/s á miðnætti. Sú tala gerir ráð fyrir framhjárennsli sem mælirinn við Sveinstind nemur ekki. Hlaupið er því með stærri hlaupum úr Eystri Skaftárkatli.

Laugardaginn 4. ágúst var flogið yfir katlana og kom þá í ljós að hlaup væri einnig hafið úr Vestari Skaftárkatli. Áhrif hlaupvatns úr honum koma fram sem einskonar "öxl" á hlaupferlinum, sem sést á meðfylgjandi mynd. Við tæmingu katlanna léttir þrýstingi á jarðhitakerfinu undir lónunum og hvellsýður þá vatn undir jöklinum og óróahviður koma fram á skjálftamælum. Hviður með upptök í báðum kötlunum hafa nú verið greindar á mælum.

Skaft_Graf

Rennslisferill Skaftár við Sveinstind 3.-7. ágúst 2018. Athuga ber að þegar rennslið er meira en 1.000 m3/s er hluti hlaupvatns tekinn að renna um aðra farvegi og mælist því ekki. Leiðrétt hámarksrennsli nú áætlað um 2.000 m3/s.

Skafta_Ey_Fyrir

Eystri Skaftárketill fyrir hlaup – mynd tekin til suðausturs 6. júlí 2018. Mynd: Þorsteinn Þorsteinsson

Skafta_Ey_Eftir

Eystri Skaftárketill nærri lokum hlaups – mynd tekin til vesturs 4. ágúst 2018. Mynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Í úttekt á Skaftárhlaupinu 2015, sem Veðurstofan vinnur nú að leggja lokahönd á, kemur meðal annars fram að vatnshæð og þar með útbreiðsla flóða í Eldhrauni stjórnast mikið af grunnvatnsstöðu; þ.e. útbreiðsla hlaupvatns á yfirborði verður mun meiri þegar grunnvatn stendur hátt. Þessu til útskýringar er meðfylgjandi mynd af vatnsstöðu í hverjum mánuði fyrir sig í borholu í Eldhrauni. Á myndinni er einnig sýnd hækkun grunnvatnshæðar samfara þremur hlaupum úr Eystri Skaftárkatli. Hlaupið 2006 hefur átt sér stað við lága vatnsstöðu eða vatnsstöðu undir meðalgrunnvatnshæð en hlaupin 2008 og 2010 við fremur háa grunnvatnsstöðu.

Skafta_Medalvatnshaed

Meðalvatnshæð hvers mánaðar  í borholu SKA-7 í Eldhrauni yfir árabilið 2002 – 2014.

Þegar hlaupvatnið hættir að renna í hraunin fellur grunnvatnshæð að fyrri stöðu. Rennsli í Grenlæk og Tungulæk minnkar um helming á um það bil 7-10 dögum eftir hlaup þar til það nær jafnvægi.

Hlaupvatnið er mjög gruggugt og setið sem berst í hraunið með vatninu stíflar hraunið með tímanum og leitar fram við endurtekin flóð eins og sést vel á meðfylgjandi mynd úr einni af skýrslunum úr hættumatsverkefninu.

Skafta_Framras

Framrás sets við Skálarál í átt að Tungulæk. Mynd 21 á bls. 48 í VÍ-skýrslu 2018-005, Hættumat vegna jökulhlaupa í Skaftá: Mat á setflutningi með sögulegu yfirliti.

Starfsmenn Veðurstofu halda áfram að fylgjast náið með þróuninni næstu sólarhringa.

Vestari Skaftárketill er að tæmast

5.8. kl. 15:30

Rennsli við Sveinstind fer áfram minnkandi og mælist nú um 1300 m³/s (raunverulegt rennsli árinnar er þó líklega meira þar sem vatn flæðir framhjá mælistöðvum í einhverju magni). Rennsli í Eldvatni við Ása hefur verið í hámarki síðan um kl. 9 í morgun og vatn flæðir út í Eldhraun. Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.

Þegar skoðuð eru gögn úr óróamælum Veðurstofunnar virðist sem að Vestari-Skaftárketill sé einnig að tæmast. Óvenjulegt er að katlarnir hlaupi báðir á sama tíma.

Skafta-sveinstindur-heildarrennsli-bradabnst-2015-2018

Mynd sem sýnir heildarennsli við Sveinstind fyrir hlaupin 2015 og 2018. Þetta eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir rennslislykil sem tekur tillit til rennslis utan meginfarvegarins þar sem rennslismælingar fara fram. Sjá má að hlaupið nú nær ekki svo mikilli vatnshæð að viðbót vegna rennslis utan meginfarvegarins skipti miklu máli.


Skaftárhlaup náði hámarki við Sveinstind upp úr miðnætti

5.8. kl. 09:30

Rennsli við Sveinstind hefur farið lækkandi frá því á miðnætti og mælist nú um 1400 m³/s. Rennsli fer enn hækkandi í Eldvatni við Ása og vatn flæðir út í Eldhraun. Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.

Á mælitækjum Veðurstofunnar hefur mælst órói sem bendir til þess að suða sé hafin í jarðhitakerfinu undir jöklinum, vegna þrýstingslækkunar. Því má gera ráð fyrir að Eystri-Skaftárketill sé að tæmast.

Tilkynnt hefur verið um brennisteinslykt á Suðausturlandi, t.d. í Meðallandi og í Öræfum. Einnig fannst sterk lykt vestan Skaftárjökuls í eftirlitssflugi með Landhelgisgæslunni í gær. Lyktin getur borist langar vegalengdir og var m.a. tilkynnt um brennisteinslykt í Noregi í Skaftárhlaupi 2015.

Hlaupið með stærri hlaupum sem mælst hafa

5.8. kl. 01:00

Rennsli við Sveinstind hækkar örlítið ennþá og hámarki virðist ekki náð. Rennslið nálgast nú 1600 m3/s. Staðfest hefur verið með eftirlitsflugi að bæði Eystri og Vestari Skaftárketill hafa hlaupið. Ekki er þó talið að mikið vatn hafi verið í V-Skaftárkatli. Vatnsmagn úr þeim katli gæti verið 10-20% af heildarvatnsmagni hlaupsins.Ljóst er að hlaupið er með stærri hlaupum sem mælst hafa.

Rennsli og vatnshæð hefur aukist verulega við Ása og Kirkjubæjarklaustur og búist er við að hlaupið verði í hámarki þar u.þ.b. 6-8 klst eftir að hámarki er náð við Sveinstind. Óljóst er hvenær því verður náð.

Sterk brennisteinslykt hefur fundist vestan Skaftár og allt vestur fyrir jökul. Eindregið er varað við því að vera á ferð á þessum slóðum vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu, auk þess sem stór ísflykki geta brotnað úr jökulsporðinum og ofan hans.

Eftirlitsflug yfir útfall og farveg Skaftár

Þrír vísindamenn Veðurstofu Íslands flugu yfir Skaftárkatla í Vatnajökli með þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, seinni part laugardags 4. ágúst. Flogið var fyrst að útfalli Hverfisfljóts við Síðujökul og var þar nokkuð útrennsli vatns við jaðarinn, en ekki er ljóst hvort þar væri um hlaupvatn að ræða. Óvenjulegur litur hefur sést á Hverfisfljóti eftir að Skaftárhlaupið hófst.

Flogið var að útfalli Skaftár og var útrennsli hlaupvatns undan Skaftárjökli á svipuðum slóðum og í fyrri hlaupum. Ekki voru teljandi merki umbrota við jökuljaðar.

Skyggni var gott yfir Vatnajökli og var fyrst flogið að Eystri Skaftárkatli og aðstæður kannaðar. Sprungur liggja kringum allan ketilinn og miðja hans hefur sigið meir en 70 metra. Mælistöðin, sem sent hefur GPS gögn um lækkunina stendur enn. Ekki reyndist unnt að síga niður að stöðinni til að ná GPS tækinu og þar með gögnum, sem safnast hafa síðan samband við stöðina rofnaði á laugardagsmorgun.

Lítil lægð teygðist suður úr Eystri-katlinum og er hún á sama stað og mun stærri lægð, sem myndaðist við stóra hlaupið 2015. Útlit ketilsins nú er í samræmi við að nokkru minna vatnsmagn hafi hlaupið úr honum en í október 2015.

Skafta_Eystri-Ketill

Eystri Skaftárketill úr eftirlitsflugi, nærri lokum hlaups úr katlinum. Mynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Næst var flogið að Vestari Skaftárkatli og bar hann greinileg merki nýlegs sigs. Hlaup úr honum hefur því hafist í kjölfar hlaupsins úr eystri katlinum og er þessi viðbót skýringin á því að vatnshæð við Sveinstind eykst enn nú á miðnætti aðfaranótt sunnudags. Enn má því búast við auknu rennsli niðri í byggð þegar líður á nóttina.

Skafta_Vestari-Ketill

Vestari Skaftárketill úr eftirlitsflugi, hlaup úr katlinum er hafið. Mynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Flogið var niður eftir farvegi Skaftár og útbreiðsla hlaupsins könnuð og ljósmynduð. Brýrnar við bæinn Skaftárdal eru umflottnar hlaupvatni en standa enn.

Skafta_bruSmall

Brú á veginum að Skaftárdal. Mynd: Benedikt G. Ófeigsson


Skafta_Upptokin2.

Hlaupvatnið riðst undan jökulsporðinum. Mynd: Benedikt Ófeigsson.


Rennsli við Sveinstind helst nú nokkuð stöðugt

4.8. kl. 14:30
Rennsli við Sveinstind helst nú nokkuð stöðugt og hlaupiðvirðist vera að ná  hámarki. Líklegt er að rennslið verði í hámarki í nokkrar klukkustundir. Búast má við hámarki hlaupsins í byggð (við þjóðveg 1) í kvöld. GPS mælitæki í Eystri-Skaftárkatli hafði sigið um tæplega 70 metra þegar samband rofnaði um kl. 9 í morgun. Tilkynningar hafa borist frá Kirkjubæjarklaustri og nágrenni um brennisteinslykt. Ólíklegt er talið að gasmengun frá hlaupinu skapi hættu við þjóðveg.

Flogið verður yfir svæðið í dag til að meta útbreiðslu og rannsaka frekar upptök hlaupsins.

Áfram er fylgst með stöðu og þróun mála.

Rennslið enn ekki náð hámarki við Sveinstind

4.8. kl. 9:50

Rennslið virðist enn vera að aukast við Sveinstind, þótt ferillinn hafi beygt af og sjálfsagt sé vatn nú farið að renna út í hraunið þannig að taka verður rennslistölum með varúð. Mælirinn við Sveinstind sýnir nú kl. 9:50 rennsli vera 1350 m3/s og aukning vatnshæðar er um 430 cm á 19 tímum.

Í hlaupinu 2015 var aukning vatnshæðar um 570 cm á 25 tímum og mælirinn sýndi rúmlega 2000 m3/s við hámarkið. 

Enn gætu því verið nokkrir klukkutímar í hámarkið við Sveinstind í hlaupinu sem nú stendur yfir.

Flogið verður yfir svæðið í dag og nánari upplýsingar verða gefnar síðar.

Likan_Skafta_2015

Heildarlíkanreiknuð útbreiðsla jökulhlaups 2015 með (ljósblár) og án (dökkblár) írennslis. Við þjóðveg sýnir þetta kort of mikla útbreiðslu miðað við mælingar.

Kortagrunnur: Landmælingar Íslands. Myndin er fengin úr skýrslunni " Hermun flóðasviðsmynda " sem finna má á vefnum okkar.

Rennsli eykst mjög hratt

3.8. kl. 16:00

Hlaup er hafið í Skaftá og eykst rennslið nú mjög hratt. Fyrstu gögn benda til þess að rennslisaukningin sé meiri en í stóru jökulhlaupi úr sama katli árið 2015. Rennsli við Sveinstind hafði náð um 400 m3/s um kl.15:30. Búist er við að aukins rennslis gæti við Hólaskjól nú síðdegis og að hámarki rennslis verði náð þar seint í nótt eða í fyrramálið. Lögreglan á Suðurlandi vinnur nú að lokun vega á svæðinu.

Hlaupið brýst nú fram undan Skaftárjökli og munu umbrot þar aukast á næstu klukkutímum. Eindregið er varað við því að vera á ferð á þessum slóðum vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu, auk þess sem stór ísflykki geta brotnað úr jökulsporðinum og ofan hans.

Líklegar tímasetningar á ferðaleið hlaupvatnsins:

  • Hlaupið hefur brotist undan jöklinum skömmu fyrir hádegi í dag.
  • Hlaupvatnið nær Sveinstindi á 2-3 klst. Vatnshæðarmælir þar sýndi snögga aukningu vatnshæðar kl. 13:30.
  • Ferðatími frá Sveinstindi niður að Hólaskjóli er áætlaður 3-4 klst og frá Sveinstindi niður að bænum Skaftárdal um 6 klst.
  • Líklegt er að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur á morgun, laugardaginn 4. ágúst.
  • Rennslishámark mun standa yfir í nokkrar klukkustundir en eftir það mun draga hægt úr hlaupinu. Ekki er vitað með vissu hve lengi hlaupið mun standa en líklegt er að því verði að mestu lokið innan einnar viku.

GPS-mælir í Eystri Skaftárkatli hefur lækkað um tæpa 20 metra á einum og hálfum sólarhring síðan fyrst varð vart við lækkun. Í stóra hlaupinu úr sama katli í október 2015 seig mælistöðin alls um 80 metra.

Áfram er fylgst með stöðu og þróun mála.

Vdv_graph_200141351741946

Myndin sýnir aukningu rennslis í Skaftá við Sveinstind

Ska2_cauldron_gps

Myndin sýnir hvernig miðbik Eystri Skaftárketils fer hraðlækkandi skv. gögnum úr GPS stöðinni þar

2.8. kl: 16:00

GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka og rennsli úr lóni við jökulbotn er hafið. Rennsli úr katlinum hófst líklega snemma á þriðjudag 31. júlí og nemur nú á stærðarþrepinu 100 m3/s. Rennslið úr katlinum er vaxandi og vænta má jökulhlaups í Skaftá á næstu dögum. Ef atburðarásin verður með sama hætti og í jökulhlaupinu í október 2015 gæti hlaupið brotist undan jökuljaðrinum aðfaranótt næstkomandi laugardags 4. ágúst og rennslið nærri jökuljaðri náð hámarki snemma á sunnudag. Hlaupið verður um hálfum sólarhring síðar á láglendi við hringveg 1. Ekki er þó unnt að útiloka að hlaupið verði fyrr á ferðinni nú og fylgist náttúruvárvakt Veðurstofunnar með framvindu hlaupsins.

Graf_Skaftarhlaup_Juli2018

GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka og rennsli úr lóni við jökulbotn er hafið. Myndin sýnir rauntímaúrvinnslu úr GPS tæki staðsettu í Eystri Skaftárkatli.

Vænta má minna hlaups en 2015

Fyrir hlaupið 2015 höfðu liðið rúm fimm ár frá síðasta hlaupi þar á undan en nú eru liðin tæp þrjú ár frá síðasta hlaupi. Það er heppilegt að því leitinu til að þá má vænta minna hlaups en eftir jafn langt hlé og fyrir hlaupið 2015. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar Háskólans sýna einnig að nokkru minna vatn er í lóninu nú en var í upphafi hlaups 2015. Því er búist við því að rennsli í hlaupinu sem nú er hafið verði minna en í hlaupinu 2015 en það er þó ekki fullvíst vegna þess að hugsanlegt er að hlaup nú brjótist hraðar fram. 

Möguleg vá

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá::

  • Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Dæmi eru um að hlaup frá katlinum hafi komið að hluta til undan Síðujökli, sem mundi þá valda hlaupi í Hverfisfljóti og þá koma fram við brúna á þjóðvegi 1. Fylgst er vel með Hverfisfljóti þótt ekki sé talið líklegt að það gerist.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni næstu sólarhringa.

Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli.

Þegar hleypur úr jarðkötlunum rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Söfnunarhraði í katlana er nokkuð jafn, því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum. Úr hvorum katli hleypur að jafnaði á tveggja ára fresti en hlé milli hlaupa úr eystri katlinum var óvenju langt fyrir hlaupið 2015. Hámarksrennsli í hlaupum úr eystri katlinum hefur mest orðið um 3.000 m3/s. Áin getur vaxið úr eðlilegu rennsli, sem er nú um 100-200 m3/s í 2.000 til 3.000 m3/s á innan við sólarhring. Vatn tekur nokkurn tíma að ná niður að þjóðvegi, en það mun flæða út á hraunið neðan Skálarheiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eftir að það tekur að draga úr rennsli við Sveinstind. Nánari upplýsingar um hlaup í Skaftá má finna í nýútkomnum skýrslum um hættumat vegna jökulhlaupa í Skaftá.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica