Fréttir
Ljósmynd: Einar Guðmann

Verkefni til að bæta vatnsgæði á Íslandi hlýtur stóran styrk

13.12.2024

Veðurstofan, ásamt 22 samstarfsaðilum undir forystu Umhverfisstofnunar, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum m.a. til að bæta vatnsgæði á Íslandi.

Verkefnið ber yfirskriftina ICEWATER og er ætlað að: 

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi 
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum 
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni 
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns  

Verkefninu er ætlað að flýta fyrir innleiðingu vatnaáætlunarfyrir Ísland þar sem fram kemur stefna stjórnvalda hvað varðar verndun íslenskrar vatnsauðlindar.

Með verkefninu gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum. 

Tafla

Helstu verkefni Veðurstofunnar í ICEWATER snúa að vöktun og söfnun gagna tengt grunnvatni (3) og ferskvatni á yfirborði (4). Auk þess tekur stofnunin þátt í stjórnun, upplýsingamiðlun og þekkingarnýtingu innan verkefnisins.

Styrkhlutur Veðurstofunnar er um 125 milljónir króna til næstu sex ára, en stærstur hluti styrksins fer í vinnu Umhverfisstofnunar sem leiðir verkefnið og til uppbyggingar vatnstengdra innviða hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum, s.s. hreinsun yfirborðsvatns og úrbætur í fráveitu.

Styrkurinn fyrir ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030. 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica