Fréttir
Þrír veðurfræðingar eru nú á vakt á morgnana í spásal Veðurstofunnar.

Veðurstofan tekur við flugveðurþjónustu á flugvellinum í Vogum í Færeyjum

Veðurfræðingum á vakt fjölgað úr tveimur í þrjá

22.1.2020

Í dag tók Veðurstofa Íslands við flugveðurþjónustu á flugvellinum í Vogum í Færeyjum. Fram að þessu hefur Veðurstofan séð um að vara við ókyrrð og ísingu yfir Færeyjum, en danska veðurstofan, DMI, séð um spár fyrir flugvöllinn sjálfan. Veðurþjónustan fyrir flugvöllin í Vogum er því komin á eina  hendi, en það er danska veðurstofan  sem greiðir fyrir þessa þjónustu sem Veðurstofa Íslands mun veita.

Á sama tíma hefur veðurfræðingum á vakt á morgnanna verið fjölgað úr tveimur í þrjá, sem er  mikill áfangi fyrir Veðurstofuna, en aldrei áður hafa verið þrír veðurfræðingar á vakt ef frá eru talin eldgos síðustu ára. Með því að taka við flugveðurþjónustu á flugvellinum á Vogum fær Veðurstofan aðgang að háupplausnalíkönum af Færeyjum og hafinu þar í kring. Það mun gera Veðurstofunni kleift að bæta sjóveðurspár á því spásvæði þegar fram í sækir.

FlugvedurthjonustaVI

Spásvæðið flugveðursþjónustu Veðurstofunnar er gríðarstórt og nær upp að pólnum og er eitt stærsta spásvæði fyrir flugveðurþjónustu í heiminum. Flugveðurþjónustan nær yfir svæðið sem er merkt með rauðum línum á kortinu og er tvískipt.  Veðurstofan gefur út spár fyrir háloftin á svæðinu sem nær upp að pólnum og yfir Grænland. Á svæðinu umhverfis Ísland gefur Veðurstofan út spár fyrir háloftin sem og flugvelli. Bláu línurnar tákna spásvæði á landi og á hafinu í kringum Ísland.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica