Fréttir
Atlas13062024
Spásvæði Veðurseturs vesturs. Fyrir sameiginlegar keyrslur var hver veðurstofa að keyra veðurspá fyrri sitt svæði (svæði merkt með rauðu, bláu, grænu og gulu), og var mikil skörun á milli þeirra svæða. Sameiginleg svæði eru sýnd með fjólubláu. Athugið að sameiginlegt svæði sem þekur Ísland og Grænland var áður sameiginlegt svæði Veðurstofu Íslands og dönsku veðurstofunnar.

Veðurstofan tekur í notkun nýtt spálíkan

Nýja líkanið er einn af ávinningum Veðursetur vestur (UWC-West) samstarfsins milli Danmerkur, Íslands, Írlands og Hollands.

13.6.2024

Þann 19. mars náðist stór áfangi í Veðursetur vestur (UWC-W samstarfinu). Formlegur rekstur á ofurtölvunni er hafinn og veðurstofurnar fjórar á Íslandi, Írlandi og í Danmörku og Hollandi taka í rekstur sameiginlega veðurlíkanareikninga. Formlegur rekstur þýðir að sameiginlegir veðurspárreikningar og rekstur ofurtölvunnar, sem er hýst í kjallaranum á B7, eru vaktaðir allan sólarhringinnn til að tryggja framsleiðsluna og gagnaflæði.

UWC samstarfið hófst árið 2018 og má lesa nánar um það hér.

Fyrir Veðurstofu Íslands þýðir þetta að ný veðurspákeyrsla sem keyrð er fyrir Ísland og Grænland á ofurtölvunni verður að aðalveðurspá Veðurstofunnar. Sú spákeyrsla, nefnd IG (Ísland/Grænland), er keyrð í hærri upplausn en þær eldri, bæði lárétt og lóðrétt. Auk þess er spálengdin aukin upp í 72 klst og spárnar keyrðar átta sinnum á sólarhring. 

Uwc-ig_ig_10uv_fg10m_2024031900_12

Vindaspá úr IG-keyrslunni, 12 klst spá í gildi 19. mars 2024 kl. 12. Myndin sýnir vindhraða (m/s, með lit) og vindátt (örvar) á öllu spásvæðinu.

Seinni spákeyrslan í UWC samstarfinu, DINI (upphafsstafir landanna), er keyrð í safnspáham. Hún er keyrð yfir gríðarlega stórt svæði sem nær yfir löndin öll í sömu láréttu og lóðréttu upplausn eins og IG.

Uwc-dini_dini_10uv_2024031900_12

Vindaspá úr DINI-keyrslunni, 12 klst spá í gildi 19. mars 2024 kl. 12. Myndin sýnir vindhraða (m/s, með lit) og vindátt (örvar) á öllu spásvæðinu.

Á hverri klukkustund er keyrð ein aðalkeyrsla og fimm spár sem byggja á aðeins breyttum skilyrðum. Á þriggja og sex klukkustunda fresti er þessum spám safnað saman í safnspá til að meta líkindi á t.d. úrkomu eða vindhraða yfir ákveðnum þröskuldum.

Nú og á næstu mánuðum verður unnið í því að koma safnspánum á form sem að í fyrstu umferð nýtist veðurfræðingum á vakt og í seinni umferð þróaðar aðferðir til að geta gefið líkindi á ákveðnum veðuraðstæðum á vef Veðurstofunnar. 

Löndin sem eru með okkur í UWC koma til með að nýta sér DINI og vinna nú að því að sannreyna það líkan fyrir sín spásvæði og munu á næstu mánuðum taka þau formlega í notkun.

Ítarlegri umfjöllun má finna í fræðslupistli hér



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica