Fréttir
mynd
Þátttakendur á stýrifundi Polar Prediction verkefnisins.

Veðurmælingar frá Akureyri

16.3.2018

Sumir Eyfirðingar hafa eflaust tekið eftir lítilli rauðri flugvél sem hefur flogið inn og út fjörðinn núna í mars. Vélin er rannsóknaflugvél af gerðinni Twin Otter, í eigu Bresku heimskautarannsóknastofnuninnar (British Antarctic Survey, BAS). Hún er hér á landi við veðurrannsóknir á vegum verkefnisins Iceland Greenland seas Project (IGP), einkum á hafsvæðinu fyrir norðan Ísland. Tilgangur verkefnisins er að mæla flæði á hita, raka og skriðþunga á milli sjávar og lofthjúps á svæðinu að vetrarlagi og hvernig veðurkerfi stjórna slíku flæði. Rannsóknaskipið R/V Alliance hefur auk þess verið á svæðinu við haf- og veðurmælingar síðan í byrjun febrúar.

IGP verkefnið fellur undir stærra verkefni á vegum Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO), kallað Year of Polar Prediction (YOPP). Dagana 12.-15. mars var stýrifundur verkefnisins haldinn á Veðurstofu Íslands.

Innan YOPP eru þrjú tímabil með auknum mælingum á Norðurheimsskautssvæðin: febrúar og mars 2018; júlí til september 2018; og febrúar 2019. Veðurstofan tekur þátt í mæliátökunum með því að tvöfalda tíðni háloftaathugana. Veðurblöðrum verður því sleppt fjórum sinnum á sólarhring frá Keflavíkurflugvelli og tvisvar frá Egilsstaðaflugvelli á þessum þremur tímabilum. Hliðstæðar mæliátak verður við Suðurheimskautslandið frá nóvember 2018 til febrúar 2019.

mynd

Guðrún Nína Petersen og Haraldur Ólafsson taka þátt í IGP verkefninu. Í bakgrunni rannsóknarflugvél Bresku heimskautarannsóknastofnuninnar (British Antarctic Survey, BAS). Á Akureyrarflugvelli 5. mars 2018. Ljósmynd: Daniel Beeden.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica