Fréttir
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár

Um jarðskjálftann á Ítalíu

Samspil náttúruvár og tjónnæmis

26.8.2016

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar, hefur kynnt sér aðstæður á Mið-Ítalíu, þar sem skjálfti reið yfir í fyrrinótt og olli miklum hörmungum. Engir augljósir forboðar voru að skjálftanum.

Bærinn Amatrice, sem rómaður er fyrir fegurð, hrundi nánast til grunna. Hann er í Rieti sýslu í Lazio héraði, í um 40 kílómetra fjarlægð frá upptökunum. Þar voru fjölmargir aðkomumenn vegna matarhátíðar, sem eykur enn á ringulreiðina.

Stóri jarðskjálftinn var 6,0 að stærð. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið og óttast er að annar stór geti riðið yfir. Tala látinna hækkar; fjölda manns er saknað og nokkrar þúsundir manna vinna við rústabjörgun.
Aðeins eru rúm sjö ár síðan um 300 manns fórust í L‘Aquila, nokkru sunnar, og allstór skjálfti varð við norðurenda Appennina fjalla árið 2012. Stærri skjálftar hafa orðið á byggðu bóli án svona mikillar eyðileggingar en það er samspil náttúruvár og tjónnæmis samfélaga sem stýrir áhættunni.

Jarðfræðin

Eins og þekkt er, skiptist jarðskorpan í risastóra fleka og það er á mótum þeirra sem jarðhræringar verða; vægar á gliðnunarmótum þar sem flekana rekur í sundur eins og á Atlantshafshryggnum (og þar með hér á Íslandi) en miklar þar sem flekarnir rekast á. Stóra myndin er sú að Afríkuflekinn gengur til norðurs og rekst á Evrasíuflekann og reisir fellingafjallgarða eins og Alpana og Appenínafjöllin. Afleiðingarnar eru breytilegar á hverjum stað.

Á Ítalíu er flókin tektónik, þ.e. höggun og hnik, en skjálftavirkni er einnig algeng í Grikklandi, Tyrklandi og fleiri löndum á svæðinu. Á um 50 -100 km breiðu belti sem gengur gegnum mið-Ítalíu rísa Appenínafjöllin sem marka mót jarðskorpufleka og þar er jarðskjálftahættan sérstaklega mikil. Á svæðinu sem nú skelfur, (u.þ.b. 10.000 ferkílómetrar), má telja sautján skjálfta stærri en 6 sem hafa riðið yfir þar undanfarin þúsund ár. Þarna má sem sagt eiga von á stórum skjálfta á  u.þ.b.50 - 80 ára fresti. Vanalega mælast á svæðinu um 5 - 20 smáskjálftar daglega, sem finnast sjaldan.

Stærri skjálftarnir eru ekki svo gífurlega stórir sé litið á heiminn allan, en upptök þeirra liggja nokkuð grunnt, á 5 til 40 km dýpi, og þeir valda miklum skemmdum miðað við stærð. Tjónnæmið er mikið, bæði vegna þess hvað þarna er þéttbýlt og af því húsin eru ekki nægilega vel gerð og langflest mjög gömul.

Mannanna verk

Þarna er fallegt fjallendi eins og oft á slíkum flekamótum; í þorpunum er þéttbyggt (50 - 150 manns á ferkílómetra en bara 0,5 - 12 á íslenskum jarðskjálftasvæðum) og aðeins mjóir stígar milli húsa. Í aldaraðir hefur verið byggt úr því sem til fellur; grjóti úr árfarvegum, leir og mold. Önnur hús, t.d. kirkjur, eru oft mjög vel byggðar, fyrir þær eru sóttir fínni og betri steinar og betur vandað til verks. Svo eftirsótt er svæðið, að byggt er ofan á eldri hús, jafnvel úr þungu efni og frágangur ónógur og ekki endilega tekið tillit til reglugerða varðandi skjálftahættu.

Þetta viðgengst, þrátt fyrir 200 ára sögu reglugerða um byggingar. Nútímalegir staðlar voru settir á sjöunda ártugnum en það er ekki farið eftir þeim því eftirfylgni skortir. Þær byggingar sem byggðar eru eftir stöðlum standast skjálftana og því eru þessar hörmungar nú þyngri en tárum taki. Mjög dýrt er að gera viðeigandi breytingar á gömlu húsunum og þó endurgreiðsla sé í boði frá ríkinu, hefur gengið treglega að fá þau fyrirheiti uppfyllt.

Óvissan og áhættan

Frægustu eldfjöll Ítalíu eru Vesúvíus, Etna og Strombólí og jarðfræði þeirra hefur auðvitað mikið verið rannsökuð; svo og jarðfræði þessa beltis sem gengur yfir mið-Ítalíu. En vandamál jarðskjálftafræðanna er það, að enn er ekki hægt að spá, a.m.k. ekki nægilega vel. Viðmiðið, samkvæmt reynslunni síðastliðin hundrað ár, er að á Ítalíu komi skjálftar yfir 5,8 að stærð á u.þ.b. þriggja ára fresti en það er ekki vitað hvar og hvenær þeir bresta á.

Á Íslandi er vandað til bygginga, það skiptir öllu máli. Þarna stóðust vel byggð hús og það er afar sorglegt til þess að hugsa hve margir fórust í þeim samfélögum, sem rómuð eru fyrir það að varðveita gamla byggingarlist.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica