Fréttir
Uppsafnað skjálftavægi sem losnað hefur í jarðskjálftum í Bárðarbungu. Í efra línuritinu sýnir gula línan vægi sem losnaði í jarðskjálftum í ganginum sunnan gosstöðva en bláa línan sýnir vægi sem hefur losnað í jarðskjálftum í eða við Bárðarbunguöskjuna. Á neðra grafinu sést stærð skjálfta sem fall af tíma annars vegar í öskjunni (blátt) og hinsvegar í ganginum (gult).

Um jarðskjálftana í Bárðarbungu

Uppsafnað skjálftavægi í öskjunni hefur farið stigvaxandi

20.5.2016

Jarðskjálftamælingar sýna að uppsafnað skjálftavægi í Bárðarbunguöskjunni hefur farið stigvaxandi frá miðjum september 2015. Þetta þýðir að stærri jarðskjálftar hafa verið að mælast undanfarna mánuði. Þrátt fyrir þessa auknu virkni sjást engin merki um gosóróa.

Greining á skjálftagögnum bendir til að hreyfing í Bárðarbunguskjálftum sé þveröfug við það sem hún var á sigtímabilinu á meðan á eldgosinu í Holuhrauni stóð. Samfelldar GPS mælingar sýna færslur í átt frá Bárðarbungu sem benda til mögulegrar þenslu. Gervitunglamyndir unnar af Háskóla Íslands virðast sýna að jarðhitakatlar á öskjurimanum hafi dýpkað, sem gæti verið afleiðing vaxandi jarðhitavirkni.

Alls hafa mælst 45 jarðskjálftar stærri en M3 frá goslokum í Bárðarbunguöskunni, þar af 42 síðan 1. september 2015 og 31 síðan 1. janúar 2016. Stærstu skjálftarnir mældust M4.2 þann 8. apríl 2016 og M4.4 þann 20. maí 2016. Þrátt fyrir þessa auknu virkni sjást engin merki um gosóróa.

Vaxandi virkni undir Bárðarbungu undanfarna mánuði gæti endurspeglað kvikuuppsöfnun en aðrar skýringar hafa verið nefndar, svo sem aukinn vatnsþrýstingur í jarðhitakerfum inni í öskjunni, fargbreytingar á jöklinum og/eða aukinn núningur á sprungum vegna aukins kvikuþrýstings.

Veðurstofan fylgist grannt með þróun mála allan sólarhringinn og mun upplýsa um frekari virkni.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica