Fréttir

Tíðarfar í september 2024

Stutt yfirlit

3.10.2024


September var óvenjukaldur um allt land og þurrari en í meðallagi víðast hvar. Loftþrýstingur var hár í mánuðinum og sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Á Austurlandi var hvassara en í meðalári en lygnara á vesturhelmingi landsins.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 6,9 stig. Það er 1,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,8 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri mældist meðalhitinn 5,6 stig sem er 2,4 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og 2,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðarins var 6,2 stig í Stykkishólmi og hann var 7,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík 6,9 -1,7 113 154 -1,8
Stykkishólmur 6,2 -1,8 145 179 -2,2
Bolungarvík 5,7 -1,6 98 127 -2,1
Grímsey 5,1 -1,8 108 151 -2,4
Akureyri 5,6 -2,4 120 144 -2,9
Egilsstaðir 6,1 -1,7 53 70 -2,3
Dalatangi 7,0 -1,0 56 til 57 87 -1,6
Teigarhorn 6,7 -1,6 107 152 -2,0
Höfn í Hornaf. 7,0


-2,0
Stórhöfði 7,1 -1,4 114 148 -1,7
Hveravellir 1,7 -2,2 52 60 -2,5
Árnes 6,2 -1,8 115 145 -2,0

Meðalhiti og vik (°C) í september 2024.

September var óvenjukaldur um allt land. Á landsvísu hefur september ekki verið eins kaldur síðan 2005. Meðalhiti mánaðarins var undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum. Á nokkrum stöðvum mældist lægsti meðal- og/eða lágmarkshiti sem mælst hefur í september.

Að tiltölu var kaldast inn til landsins norðanlands. Neikvætt hitavik mældist minnst -1,1 stig í Skaftafelli en mest -3,0 stig á Reykjum í Fnjóskadal.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).


Meðalhiti mánaðarins var hæstur 8,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægstur var hann 0,1 stig á Gagnheiði. Lægsti meðalhiti í byggð mældist 3,1 stig í Svartárkoti.

Mikil hlýindi gerði á Norðaustur- og Austurlandi 1. og 5. dag mánaðarins. Þessa daga mældist hæsti hiti mánaðarins um og yfir 20 stigum víða á norðausturfjórðungi landsins. Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,1 stig á Seyðisfirði þ. 5. Lægsti hiti mánaðarins mældist -10,4 stig við Upptyppinga þ. 16. Í byggð mældist lægsti hitinn -8,1 stig á Þingvöllum þ. 26.   

Úrkoma

Að tiltölu var þurrara en í meðalári um mestallt land

 Heildarúrkoma mánaðarins mældist 57,8 mm í Reykjavík. Það er um 66% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 51,3 mm sem er nærri meðallagi, eða um 97% af meðalúrkomu septembermánaða áranna 1991 til 2020. Mánaðarúrkoman var einnig nærri meðallagi í Stykkishólmi, en þar mældust 79,9 mm. Á Höfn í Hornafirði mældust 150,6 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, eða þremur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 9 daga mánaðarins, líkt og í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 153,5, sem er 35,2 stundum yfir meðallagi septembermánaða árin 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 128,2 sólskinsstundir, eða 37,8 stundum yfir meðallagi. Aðeins þrisvar sinnum hafa mælst fleiri sólskinsstundir í septembermánuði á Akureyri, en það var í september 1976, 1994 og 2022.  

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,2 m/s undir meðallagi. Að tiltölu var hvassara en í meðallagi á Austurlandi en lygnara en í meðallagi á vestari helmingi landsins. Hvassast var 5. (suðsuðvestanátt) og 10. (norðnorðvestanátt) dag mánaðarins. Í hvassviðrinu þ. 5. varð einkar hvasst á Vestfjörðum og Mývatns- og Möðrudalsöræfum en norðanveðrið 9. til 10. september hafði mest áhrif norðan- og austanlands.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var óvenjuhár um allt land í september. Á þónokkrum stöðvum mældist hæsti meðalloftþrýstingur septembermánaðar sem mælst hefur á þessari öld og víða mældist hæsti loftþrýstingur aldarinnar í septembermánuði. Á Dalatanga mældist hæsti loftþrýstingur sem mælst hefur í september frá því mælingar hófust þar árið 1938.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,9 hPa sem er 8,9 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík hefur meðalloftþrýstingur í september ekki mælst hærri síðan árið 1976. 

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1039,1 hPa við Font á Langanesi þ.20., en það er hæsti loftþrýstingur sem þar hefur mælst í september frá upphafi mælinga þar árið 1994. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 988,8 hPa í Grindavík þ. 16.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var tiltölulega kalt sé miðað við sumur þessarar aldar og hlýir dagar voru fáir. Á landsvísu var sumarhitinn 0,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sumarið hefur ekki verið eins kalt síðan árið 1998 þegar það var álíka kalt og nú. Hiti var undir meðallagi á landsvísu alla mánuði sumarsins nema í júlí, en ágætis hlýindi voru á Norðaustur- og Austurlandi um miðjan júlí.

Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst, þá sérstaklega í ágúst. Sumarið einkenndist af lægðagangi og fremur óhagstæðri tíð. Loftþrýstingur septembermánaðar var aftur á móti óvenjuhár og tíð hagstæðari þó það hafi verið kalt.

Nokkuð langvinnt norðanhret gekk yfir landið í byrjun júní og óvenjumikið snjóaði á norðanverðu landinu miðað við árstíma. Mikil vætutíð ríkti um nánast allt land í sumar, en september var þó tiltölulega þurr. Júlí var óvenjulega blautur á vestanverðu landinu. Á nokkrum úrkomustöðvum á Vesturlandi var júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur. Óvenjumikið rigndi á Snæfellsnesi dagana 13. og 14. júlí og mældist sólarhringsúrkoman á Grundarfirði að morgni þess 14. júlí 227 mm sem er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í júlímánuði á landsvísu. Ágúst var svo óvenju blautur á norðanverðu landinu. Vætutíðinni í sumar hafa fylgt miklir vatnavextir í ám og lækjum og aurskriður hafa fallið víða.

Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 9,1 stig sem er 1,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarsins er í 117. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Sumarið hefur ekki verið eins kalt í Reykjavík síðan árið 1992. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 8,9 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 89. hlýjasta sæti á lista 144 ára. Á Akureyri var sumarið 2005 álíka kalt og nú. Meðalhiti sumarsins var 8,7 stig í Stykkishólmi (0,9 stigum undir meðallagi), 8,8 stig á Egilsstöðum (0,7 stigum undir meðallagi) og 8,7 stig á Stórhöfða (0,8 stigum undir meðallagi).

Úrkoma í Reykjavík mældist 294,0 mm í sumar sem er 20% umfram meðallag áranna 1991 til 2020.  Á Akureyri mældist úrkoman í sumar 207,9 mm sem er 40% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 41, eða 4 færri en í meðalári í Reykjavík. Á Akureyri voru slíkir dagar líka 41, 13 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundir mældust 617,7 í Reykjavík sem er 38 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 583,0 sem er 12 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingur sumarsins 1005,4 hPa sem er 3,3 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalloftþrýstingur var óvenjulágur frá júní og út ágúst. Þrýstingur ágústmánaðar var sértaklega lágur, lægsti meðalloftþrýstingur sem mælst hefur í Reykjavík (mælt frá 1820). Meðalloftþrýstingur í september var aftur á móti óvenjuhár. 

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins mældist 5,2 stig. Það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna níu í Reykjavík raðast í 82. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins 4,4 stig sem er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 74.til 76. hlýjasta sæti á lista 144 ára. Fyrstu níu mánuðir ársins hafa ekki verið eins kaldir á þessari öld, hvorki í Reykjavík (álíka kalt 1999) né á Akureyri (kaldara 1998).

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 588,3 mm sem er um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 449,7 mm sem er um 25% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica