Fréttir
Einhyrningsflatir
Við Einhyrningsflatir 25. september 2017

Tíðarfar í september 2017

Stutt Yfirlit

3.10.2017

September var hlýr og úrkomusamur mánuður, óvenju hlýtt og blautt var á austanverðu landinu. Mjög hlýir dagar voru í byrjun mánaðarins og svo aftur um hann miðjan, þá sérstaklega norðaustan- og austanlands þar sem hiti fór víða vel yfir 20 gráður og allmörg hitamet voru slegin. Sunnan- og austanáttir voru ríkjandi. Mikil úrkoma í lok mánaðar og hlýindi til fjalla ollu miklum vatnavöxtum á Suðaustur- og Austurlandi. Mikið tjón hlaust af flóðum og skriðuföllum á þessum svæðum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 9,7 stig, 2,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,1 stig, 3,8 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 1,9 stigum ofan meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er 6. hlýjasti september á Akureyri. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,5 stig og 10,1 á Höfn í Hornafirði. 

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016 °C
Reykjavík 9,7 2,3 11 147 1,0
Stykkishólmur 9,5 2,8 9 172 1,2
Bolungarvík 9,3 3,2 7 120 1,6
Grímsey 9.0 3,7 2 144 1,8
Akureyri 10,1 3,8 6 136 1,9
Egilsstaðir 10,5 4,3 2 63 2,4
Dalatangi 9,7 3,1 3 80 1,4
Teigarhorn 9,7 2,8 3 145 1,3
Höfn í Hornaf. 10,1


1,3
Stórhöfði 9,3 2,0 13 til 14 141 0,7
Hveravellir 5,6 3,2 5 53 1,6
Árnes 9,2 2,3 12 138 1,2
Meðalhiti og vik (°C) í september 2017

Mjög hlýtt var á landinu í september. Óvenju hlýtt var austan- og norðaustanlands, bæði í byggð og til fjalla. Mjög hlýir dagar voru í byrjun mánaðar og aftur um hann miðjan. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Brúaröræfum, +2,8 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Seyðisfirði, 10,8 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli, 3,0 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Svartárkoti, 7,7 stig.

Fjöldi septemberhitameta féllu á veðurstöðvum landsins í mánuðinum og hiti fór víða vel yfir 20 stig. Þann 1. mældist hitinn hæstur á Egilsstaðaflugvelli, 26,4 stig sem er nýtt mánaðarhámarksmet, eldra met var 26,0 stig á Dalatanga þ.12. 1949. Þrjú önnur landsdægurhámarksmet voru slegin síðar í mánuðinum. Það var þ. 16. á Seyðisfirði þegar hitinn mældist 23,4 stig, þ. 17. á Egilsstaðaflugvelli þegar hitinn mældist 24,5 stig og þ. 18. í Ásbyrgi þegar hitinn mældist 19,8 stig. Þessir dagar voru með þeim hlýjustu á landinu yfir árið.

Mesta frost í mánuðinum mældist -5,0 stig á Sátu þann 29. Mesta frost í byggð mældist -4,8 stig á Möðruvöllum þ. 12.

Úrkoma

Úrkoma var mikil í september og mældist yfir meðallagi á flestum stöðvum landsins. Óvenjulega mikil úrkoma var á Austur- og Suðausturlandi í lok mánaðar sem olli miklum vatnavöxtum í ám, flóðum og skriðuföllum í þeim landshluta.

Úrkoma í Reykjavík mældist 89,4 mm og er það 34 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990 en um 15 % undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist úrkoma í september 73,1 mm og er það 87 % yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og um 20% yfir meðallagi síðustu tíu ára. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 109,2 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 15 í Reykjavík, 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 15 daga mánaðarins, 7 fleiri en í meðalári.

Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 336,8 mm sem er það mesta sem hefur mælst þar í september. Þó nokkrar tilfærslur hafa verið á úrkomumælingum á Höfn. Mælingar hófust á Höfn 1965 og stóðu til 1985. Síðan var mælt í Hjarðarnesi og Akurnesi og svo aftur á Höfn frá árinu 2007.

Nokkur önnur septemberúrkomumet voru sett, t.d. á Gilsá í Breiðdal (492 mm), Neskaupstað (417 mm), Stafafelli í Lóni (383 mm) og Skaftafelli (384 mm). Að auki mældist mikil úrkoma á flestum sjálfvirkum úrkomustöðvum á Austurlandi í mánuðinum. Að öllum líkindum hefur einnig mikið ringt til fjalla á Suðaustur- og Austurlandi í lok mánaðar sem kemur ekki nægilega vel fram í mælingum þar sem fáar úrkomustöðvar eru á því svæði.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 114,9 sem er um 10 stundum færri en að meðallagi í september. Á Akureyri mældust 79,8 sólskinsstundir sem er 5,6 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var 0,5 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára á sjálfvirku stöðvunum. Austlægar áttir voru ríkjandi og oftast var áttin úr suðaustri.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1000,7 hPa sem er 4,7 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1025,3 hPa á Reykjarvíkurflugvelli þ. 15. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 974,2 hPa í Surtsey þ. 4.

Sumarið (júní til september)

Meðalhitinn í Reykjavík var 10,5 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 , en -0,15 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,4 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,3 stigum yfir meðalhita síðustu tíu ára. Sumarið í Reykjavík er það 21. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og það 16. hlýjasta á Akureyri frá upphafi mælinga 1882.

Úrkoma í Reykjavík mældist 208,1 mm í sumar sem er 90 % af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoma í sumar 163,8 mm sem 20 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 4 færri en í meðalári í Reykjavík en 6 fleiri á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 682 í Reykjavík, 70 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 , en 17 stundum færri en síðustu tíu ár. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 529 sem er 27 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 61 stundum færri en að meðaltali síðustu tíu ár.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Fyrstu níu mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar, maí og september voru sérlega hlýir. Í Reykjavík var hiti 1,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ár. Á Akureyri var hiti 2,0 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 fyrstu níu mánuði ársins og 0,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðirnir níu eru í 8. hlýjasta sæti í Reykjavík frá upphafi samfeldra mælinga og í því 5. á Akureyri. Úrkoma í Reykjavík hefur verið 30 % umfram meðallag og um 24 % umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2017 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica