Fréttir

Tíðarfar í október 2018

Stutt yfirlit

2.11.2018


Október var fremur svalur, hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Tíð var þó nokkuð hagstæð. Úrkoma var víðast hvar yfir meðallagi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 3,9 stig og er það -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 3,3 stig, 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,6 stig og 4,9 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 3,9 -0,5 95 148 -1,3
Stykkishólmur 3,6 -0,2 102 173 -1,3
Bolungarvík 2,9 -0,6 78 121 -1,4
Grímsey 3,5 0,5 64 145 -0,9
Akureyri 3,3 0,3 66 til 67 138 -0,5
Egilsstaðir 3,9 0,8 22 64 -0,4
Dalatangi 5,3 0,8 33 81 -0,3
Teigarhorn 4,9 0,5 53 146 -0,5
Höfn í Hornaf. 4,9


-0,6
Stórhöfði 4,7 -0,3 85 142 -1,0
Hveravellir -1,4 -0,2 36 54 -1,1
Árnes 2,9 -0,6 89 til 90 139 -1,2

Meðalhiti og vik (°C) í október 2018

Hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu (sjá mynd). Að tiltölu var hlýrra á norðaustanverðu landinu þar sem neikvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár voru hvað minnst en kaldara suðvestanlands. Neikvætt vik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,2 stig í Seley en mest á Skálafelli, -1,8 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey 5,7 stig en lægstur -2,7 stig á Þverfjalli. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 0,1 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,7 stig í Skaftafelli þ. 11. Mesta frost í mánuðinum mældist -16,4 stig á Setri þ. 6. Í byggð mældist mesta frostið -11,1 stig í Möðrudal þ. 6.

Úrkoma

Úrkoma í október var víðast hvar yfir meðallagi.

Í Reykjavík mældist úrkoman 113,9 mm sem er rúmlega 30% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 75,6 mm, 30% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 77,0 mm og 266,1 mm á Höfn.

Dagar sem úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 21, sex fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 12 daga mánaðarins, 1 fleiri en í meðalári.

Alhvítt var 2 morgna á Akureyri en í Reykjavík var alautt allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 85,0 sem rétt rúmlega yfir meðallagi í október. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 38,7 sem er um 13 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var um 0,1 m/s undir meðallagi. Hvassast var á landinu þ. 4. (norðaustanátt), dagana 20. til 21. (suðvestanátt) og þ. 28. (sunnanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 998,5 hPa og er það 3,8 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1046,0 hPa á Gjögurflugvelli þ. 27. Það er hæsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í októbermánuði. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 969,4 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 13.  

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins var 5,5 stig, sem er 0,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 50. til 51. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 5,3 stig sem er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 19. sæti á lista 138 ára.

Úrkoman í Reykjavík hefur mælst 866,0 mm og er það um 35 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 510,3 mm sem er einnig um 35% umfram meðallag.


Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2018 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica