Fréttir
Á Akureyri snjóaði mikið síðustu tvo dagana og mældist snjódýpt 75 cm þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.
Á Akureyri snjóaði mikið síðustu tvo dagana og mældist snjódýpt 75 cm þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.

Tíðarfar í nóvember 2018

Stutt yfirlit

3.12.2018


Nóvember var hlýr og hiti var yfir meðaltali á landinu öllu. Austanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Mikil hlýindi voru á landinu helgina 16. til 18. nóvember með sunnanátt og óvenju mikilli úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu. Í Reykjavík mældist úrkoman 83,2 mm á tveimur sólarhringum og er það mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Norðaustan hvassviðri gekk yfir landið í lok mánaðar með þó nokkru fannfergi norðanlands. Snjódýpt mældist 75 cm á Akureyri þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 4,2 stig og er það 3,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 1,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn í Reykjavík var hærri (+0,3 stigum) í nóvember heldur en í október sem er heldur sjaldgjæft. Á Akureyri var meðalhitinn 1,5 stig, 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,0 stig og 4,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 4,2 3,1 13 148 1,7
Stykkishólmur 3,0 2,1 23 173 1,0
Bolungarvík 2,6 1,8 21 til 22 121 1,0
Grímsey 2,9 2,3 18 145 0,7
Akureyri 1,5 1,8 28 til 29 138 0,5
Egilsstaðir 1,4 2,1 16 64 0,4
Dalatangi 3,8 2,0 19 81 0,4
Teigarhorn 3,7 2,4 15 146 0,8
Höfn í Hornaf. 4,0


1,1
Stórhöfði 4,9 2,5 12 142 1,3
Hveravellir -1,9 2,8 9 54 1,4
Árnes 2,7 3,0 13 139 1,9

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2018

Hlýtt var á landinu í nóvember og hiti var allstaðar yfir meðallagi síðustu tíu ára (sjá mynd). Að tiltölu var hlýjast á Suðvesturlandi, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,5 stig við Skarðsfjöruvita en minnst 0,2 stig á Torfum í Eyjafirði. Hitavik sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum, 1,6 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli -3,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -1,6 stig.

Mesta frost í mánuðinum mældist -19,2 stig í Veiðivatnahrauni og í Þúfuveri þ. 2. Mest frost í byggð mældist -16,4 stig þ. 27. á Grímsstöðum á Fjöllum. Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,2 stig á Siglufirði þ. 18 og er það nýtt landsdægurhámark þess 18. Nýtt landsdægurhámark var einnig sett á Siglufirði þ. 17. þegar hitinn mældist 18,8 stig. Óvenju mikil hlýindi voru á landinu þessa daga og féllu nóvemberhitamet á allmörgum stöðvum auk þess sem hæsti hiti ársins mældist á Siglunesi þ. 18. (17,8 stig). 

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 106,7 mm sem er tæplega 50 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þar af féllu 83,2 mm á tveimur sólarhringum helgina 16. til 18. nóvember. Þetta er mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Úrkoma var víða mikil á sunnan- og vestanverðu landinu þessa daga . Á Akureyri mældist úrkoman 119,2 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 81,8 mm og 164,6 mm á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, fjórum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 13 daga mánaðarins, tveimur fleiri en í meðalári.

Snjór

Mikill snjór féll á norðanverðu landinu í lok mánaðar. Á Akureyri snjóaði mikið síðustu tvo dagana og mældist snjódýpt 75 cm þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.

Alhvítt var 7 morgna á Akureyri, 8 færri en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítt var 1 dag í Reykjavík, 6 færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 39,7 sem er í meðallagi. Á Akureyri mældust 19,5 sólskinsstundir, um 5 fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,2 m/s yfir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Norðaustan hvassviðri gekk yfir landið dagana 28. til 30. og var sá 29. langhvassasti dagur ársins í byggðum landsins. Nokkur nóvembervindhraðamet féllu þann daginn, t.d. á Fíflholti á Mýrum, Mörk á Landi, Gauksmýri, Blönduósi, Svínadal í Dölum og Þverárfjalli.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,3 hPa sem er 1,8 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1034,9 hPa á Teigarhorni þ. 20. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 967,7 hPa á Kirkjubæjarklaustri-Stjórnarsandi þ. 29.

Fyrstu 11 mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins var 5,4 stig, sem er 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 41. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig sem er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 15. sæti á lista 138 ára.

Fyrstu 11 mánuðir ársins hafa verið úrkomusamir á landinu. Úrkoman í Reykjavík hefur mælst 972,7 mm og er það um 35% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þetta er mesta úrkoma sem mælst hefur í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins síðan árið 1989. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 629,5 mm sem er um 45% umfram meðallag. Þar hefur úrkoman ekki mælst eins mikil fyrstu 11 mánuði ársins síðan árið 1991.  

Haustið (október og nóvember)

Meðalhiti haustsins í Reykjavík var 4,0 stig. Það er 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 2,4 stig, 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en jafnt meðallagi síðustu tíu ára.

Samanlögð úrkoma október og nóvembermánaða í Reykjavík mældist 220,6 sem er 40% umfram meðalhaustúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoma haustsins 194,8 mm sem er 75% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. 

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2018 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica