Fréttir
Dalatangi
Dalatangi, nóvember 2016.

Tíðarfar í nóvember 2016

Stutt yfirlit

1.12.2016

Hlýtt var á landinu í nóvember. Mjög úrkomusamt var sunnanlands og nyrðra var úrkoma einnig ofan meðallags víða. Tíð var talin mjög hagstæð og veðragóð um mikinn hluta landsins, en veður var samt harla þungbúið og drungalegt lengst af.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,5 stig og er það 2,4 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990, en 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 3,0 stig, 3,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 2,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,7 stig og 3,4 á Höfn í Hornafirði.  

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð m.hiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2006-2015 °C
Reykjavík 3,5 2,4 17 146 0,9
Stykkishólmur 3,7 2,8 9 171 1,7
Bolungarvík 3,2 2,4 14 119 2,0
Grímsey 4,0 3,5 3 143 2,3
Akureyri 3,0 3,3 11 135 2,2
Egilsstaðir 2,1 2,8 8 62 1,4
Dalatangi 4,7 2,7 8 78 1,4
Teigarhorn 3,3 2,0 25 144 0,6
Höfn í Hornaf. 3,4 0,6
Stórhöfði 4,0 1,6 24 140 0,3
Hveravellir  -1,8 3,0 8 52 0,0
Árnes 1,8 2,1 22 137 0,7

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2016

Að tiltölu var hlýjast norðaustanlands, 2,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára í Svartárkoti. Kaldast að tiltölu var undir Eyjafjöllum þar sem hiti var í meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 5,2 stig. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -3,1 stig. Á Dyngjujökli var meðalhitinn  -8,1 stig, en ekki er um staðalmæliaðstæður að ræða þar. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,8 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -19,9 stig á Dyngjujökli þann 20, og -18,6 á Brúarjökli þann 22. Mest frost í byggð mældist -13,7 stig á Húsafelli þann 21. Mesta frost á mannaðri stöð mældist í Stafholtsey þann 22., -13,2 stig.  Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,1 stig á Dalatanga þann 24. Hámark á mönnuðu stöðinni þar mældist 19,1 stig.

Hámarkið á Dalatanga þann 24. er nýtt landsdægurhámark, 17,9 stig, hámark þess 25. á Dalatanga er einnig nýtt landsdægurhámark.   

Úrkoma

Úrkoma var víða mjög mikil um landið sunnanvert, á fáeinum stöðvum meiri en áður er vitað um í nóvember – þar á meðal á Vatnsskarðshólum og Nesjavöllum.  Á nokkrum stöðvum norðaustan- og austanlands var úrkoma undir meðallagi, en ekki mikið.

Úrkoman í Reykjavík mældist 127,4 mm, sjónarmun minni en í nóvember í fyrra en þá mældist hún 129,0 mm. Þetta er 75 prósent umfram meðallag en þó langt frá nóvembermetinu 1993, en þá mældist úrkoman í Reykjavík 259.7 mm.  Á Akureyri mældist úrkoman nú 94,4 mm, einnig rúm 70 prósent umfram meðallag og það mesta í nóvember síðan 2012.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 17, fjórum fleiri en í meðalári, Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 11 daga og er það í meðallagi.  

Snjór

Alhvítt var tvo morgna í Reykjavík, fimm færri en að meðaltali 1971 til 2000, en einum færri en að meðaltali síðustu tíu ár. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 7, 11 færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust aðeins 18,1 um helmingur meðaltals. Sólskinsstundir eru aldrei margar í skammdeginu, en hafa þó ekki verið færri í nóvember er nú síðan 1993. Fæstar voru sólskinsstundirnar í nóvember í Reykjavík 1956, aðeins 4,6. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 15, og er það í meðallagi.

Vindur

Vindhraði var í meðallagi áranna 1961 til 1990, en lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára. Vestanátt var talsvert algengari en verið hefur undanfarna mánuði og var ríkjandi í 15 daga.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist  1005,1 hPa og er það 1,0 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1034,1 hPa á Húsafelli þann 1., en lægstur 967,1 hPa á Gufuskálum þann 15.

Mjóifjörður

Mjóifjörður í nóvember 2016. Ljósmynd: Vilhjálmur S. Þorvaldsson.

Haustið (október og nóvember)

Haustið hefur verið sérlega hlýtt á landinu, það næsthlýjasta sem vitað er um í Reykjavík. Talsvert hlýrra var 1945, en 1941 var hiti aðeins sjónarmun lægri en nú. Á Akureyri er haustið hins vegar það langhlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga. Meðalhiti var 5,2 stig. Næsthlýjast var 1920 (nokkuð óáreiðanlegar mælingar) 4,6 stig og einnig 4,6 stig 1945 (áreiðanlegar mælingar).

Mjög úrkomusamt hefur verið í haust. Samanlögð úrkoma október og nóvembermánaða hefur aldrei mælst meiri en nú, 334,3 mm, en var þó nánast sú sama 1956 (332,6 mm) og 1958 (325,8 mm). Úrkoma þessara mánaða mældist 383 mm á Vífilsstöðum 1912. Október var í þurrara lagi á Akureyri þannig að þrátt fyrir úrkomusaman nóvember þar er ekki um nein met að ræða.

Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnfáar að hausti í Reykjavík síðan 1945, en voru ámótafáar 1956.

Fyrstu 11  mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins er  6,2 stig og hafa þeir aðeins sex sinnum verið hlýrri frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Á Akureyri er meðalhiti þessara mánaða 5,1 stig og hefur sex sinnum verið hærri en nú (og tvisvar jafnhár að auki).

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 787 mm og er það tæp 10 prósent umfram meðallag. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 548 mm og er það um 25 prósent umfram meðallag en hefur alloft verið meiri á sama tíma.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2016 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í nóvember 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica