Fréttir
Hitavik sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020). Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,6 stig í Surtsey en lægstur var hann -5,4 stig í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð var -3,1 stig í Svartárkoti.

Tíðarfar í nóvember 2021

Stutt yfirlit

3.12.2021


Tíð var nokkuð hagstæð í nóvember. Mánuðurinn var kaldari en meðalnóvembermánuður undanfarinn áratug um allt land. Úrkomusamt var á sunnan- og vestanverðu landinu. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í nóvember í Reykjavík síðan árið 1993.

Hiti

Í nóvember var meðalhiti í Reykjavík 2,1 stig. Það er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,6 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Meðalhitinn var 0,3 stig á Akureyri sem er 0,3 stigum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga og 0,7 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 1,7 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 2,1 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 2,1 -0,1 55 151 -0,6
Stykkishólmur 1,7 -0,2 71 176 -0,6
Bolungarvík 1,0 -0,4 60 124 -1,0
Grímsey 1,0 -0,9 76 148 -1,5
Akureyri 0,3 -0,3 61 141 -0,7
Egilsstaðir 0,2 -0,4 30 til 31 67 -0,8
Dalatangi 2,8 -0,3 36 84 -0,8
Teigarhorn 2,2 -0,4 62 149 -0,9
Höfn í Hornaf. 2,1


-0,9
Stórhöfði 3,4 0,0 46 145 -0,4
Hveravellir -3,6 0,0 24 57 -0,6
Árnes 0,5 -0,3 60 til 61 142 -0,5

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2021

Mánuðurinn var kaldari en meðalnóvembermánuður undanfarinn áratug um allt land. Hitavik mánaðarins var m.ö.o. neikvætt alls staðar þegar mánaðarhitinn er borinn saman við meðalhita nóvember síðustu tíu ára. Að tiltölu var hitavikið meira á norðan- og austanverðu landinu en á Suðvesturlandi. Neikvæða hitavikið var mest -1,7 stig á Vantsskarði eystra en minnst var það -0,1 stig við Skarðsfjöruvita.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,6 stig í Surtsey en lægstur var hann -5,4 stig í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð var -3,1 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,8 stig á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum þ. 22. Á sjálfvirkum stöðvum fór hitinn hæst í 13,9 stig, annars vegar þ. 14. á Skjaldþingsstöðum og hins vegar þ. 23. á Kvískerjum. Lægsti hiti mánaðarins mældist -18,9 stig í Svartárkoti þ. 12.

Úrkoma

Nóvember var úrkomusamur í Reykjavík. Þar var heildarúrkoma mánaðarins 139,6 mm sem er 61% yfir meðalúrkomu nóvembermánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Ekki hefur mælst eins mikil úrkoma í Reykjavík í nóvember síðan árið 1993. Á Akureyri mældust 59,9 mm sem er 88% af meðalúrkomu mánaðarins undanfarna þrjá áratugi. Í Stykkishólmi mældist heildarúrkoman 94,2 mm sem er yfir meðallagi 1991 til 2020.

Úrkoma var 1,0 mm eða meiri 22 nóvemberdaga í Reykjavík, níu fleiri en í meðalári. Á Akureyri var úrkoman 1,0 mm eða meiri 13 daga sem er þremur fleiri en að meðaltali.

Snjór

Jörð var alhvít einn nóvembermorgun í Reykjavík og alauð 24 morgna. Á Akureyri voru alauðir morgnar 8 og alhvítir morgnar 15, þremur fleiri en í meðalári síðustu þrjá áratugi en fimm daga umfram meðallag undanfarins áratugar.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 21,7 í Reykjavík sem er 18 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 13,4 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 1,8 stundum undir meðallagi undangenginna þriggja áratuga.

Vindur

Á landsvísu var vindur 0,4 m/s undir meðallagi nóvembermánaðar. Hvassast var 13. (suðaustanátt) og 14. (sunnanátt) daga mánaðarins.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1004,9 hPa sem er 3,9 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,1 hPa á Grundarfirði þ. 24. Lægstur mældist loftþrýstingur 967,2 hPa í Grindavík þ. 9.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins

Fyrstu ellefu mánuði ársins var meðalhiti í Reykjavík 5,7 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn raðast í 21. til 22. sæti á lisita 151 árs í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 5,2 stig fyrstu ellefu mánuði ársins. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og 0,2 stigum yfir meðallagi síðastliðinna tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 8. sæti á lista 141 árs.

Úrkoma fyrstu ellefu mánaðanna var 86% af meðallagi áranna 1991 til 2020 í Reykjavík en á Akureyri var hún 18% yfir meðallagi sama tímabils. Þegar borið er saman við síðustu tíu ár er úrkoman 80% af meðalúrkomu í Reykjavík en 8% yfir meðallagi á Akureyri.

Haustið (október og nóvember)

Í Reykjavík var meðalhiti haustsins 3,9 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu þriggja áratuga en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn í höfuðborginni raðast í 37. sæti á lista 151 árs. Meðalhiti haustsins var 1,6 stig á Akureyri. Það er 0,5 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,3 stigum undir meðallagi áranna 2011 til 2020. Haustmeðalhitinn á Akureyri raðast í 72. til 74. sæti á lista 141 árs.

Samanlögð úrkoma október- og nóvembermánaða mældist 194,7 mm í Reykjavík. Það er 28,5 mm eða 17% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 8,9 mm eða 5% yfir meðaltali síðustu tíu ára. Úrkoma haustsins mældist 224,7 mm á Akureyri sem er 82,4 mm eða 58% umfram meðallag síðustu þriggja áratuga og 77,3 mm eða 52% umfram meðallag tímabilsins 2011 til 2020. Ekki hefur mælst eins mikil haustúrkoma á Akureyri síðan árið 2011.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2021

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica