Fréttir

Tíðarfar í mars 2024

Stutt yfirlit

5.4.2024

Mars var sólríkur, þurr og tiltölulega hlýr á suðvestanverðu landinu. Það var kaldara og úrkomusamara á norðanverðu landinu. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi stóran hluta mánaðarins. Töluverð snjóþyngsli voru á norðan- og austanverðu landinu í lok mánaðar, auk hvassviðris sem ollu þónokkrum samgöngutruflunum. Nokkur fjöldi snjóflóða féll í þessum landshlutum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í mars var 1,7 stig. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,3 stig, 0,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 0,2 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík 1,7 0,5 43 154 0,2
Stykkishólmur 0,2 -0,2 61 179 -0,4
Bolungarvík -0,5 0,0 56 127 -0,5
Grímsey 0,1 0,3 39 til 41 151 -0,2
Akureyri -0,3 -0,4 57 144 -0,7
Egilsstaðir 0,4 0,6 24 70 0,2
Dalatangi 1,4 0,2 35 86 -0,4
Teigarhorn 1,7 0,4 48 til 49 152 0,1
 Höfn í Hornafirði 2,7       0,6
Stórhöfði 3,1 0,9 31 148 0,7
Hveravellir -5,1 -0,1 27 60 -0,3
Árnes 0,8 0,8 39 til 40 145 0,5

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2024

Að tiltölu var hlýjast á Suður- og Suðvesturlandi en kaldara á Norður- og Norðvesturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,5 stig á Skarðsfjöruvita. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,9 stig á Nautabúi í Skagafirði.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,1 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -6,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,1 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,4 stig í Húsafelli þ. 6. Mest frost í mánuðinum mældist -22,3 stig á Mývatni og við Setur sunnan Hofsjökuls þ. 3.

Úrkoma

Mánuðurinn var þurr á suðvestan- og vestanverðu landinu. Í öðrum landshlutum var úrkoma vel yfir meðallagi. Úrkoma í Reykjavík mældist 51,3 mm sem er um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 71,6 mm sem er um 50% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 45,8 mm og 175,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9 sem er 5 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga sem er 5 fleiri en í meðalári.

Snjór

Töluverð snjóþyngsli voru á norðan- og austanverðu landinu í lok mánaðar sem ollu þónokkrum samgöngutruflunum. Auk þess féll nokkur fjöldi snjóflóða í þessum landshlutum.

Það var snjólétt í Reykjavík mars og þar var aðeins einn alhvítur dagur skráður í mánuðinum, sem er 8 dögum færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 18, sem eru 2 fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Það var mjög sólríkt í Reykjavík í mars. Þar mældust sólskinsstundirnar 178,4 sem er 68,2 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 84,0 sem er 6,2 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir ríktu fyrstu þrjá daga mánaðarins. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi dagana 4. til 10. með þónokkrum hlýindum. Eftir það tóku norðaustlægar áttir við og ríktu að mestu út mánuðinn. Hvassast var dagana 21. og 22. (norðanátt) og 30. og 31. (norðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 1005,3 hPa í Reykjavík. Það er 2,1 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1033,1 hPa á Hólum í Dýrafirði og á Flateyri þ. 31. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 957,2 hPa í Árnesi þ. 21.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins var 0,2 stig sem er 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu þriggja mánaða ársins raðast í 64. til 65. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -1,6 stig sem er 1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 72. hlýjasta sæti á lista 144 ára.

Heildarúrkoman í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins mældist 199,3 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna þriggja 182,7 mm sem er um 15% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Veturinn (desember 2023 til mars 2024)

Veturinn 2023 til 2024 var nokkuð hagstæður. Það var tiltölulega hægviðrasamt og tíð góð. Illviðri voru með færra móti. En það var kalt og hiti var vel undir meðallagi um land allt. Veturinn var þurr og sólríkur suðvestanlands en það var úrkomusamara á norðanverðu landinu, þá sérstaklega í febrúar og mars.

Meðalhiti í Reykjavík í vetur var -0,1 stig og er það 0,9 stigum undir meðallagi sömu mánaða 1991 til 2020. Veturinn er í 85. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík árið 1871. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -2,3 stig sem er 1,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var veturinn í 101. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881.

Veturinn var þurr í Reykjavík. Heildarúrkoma vetrarins var 276,3 mm sem er 78% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma í vetrarmánuðunum fjórum 237,5 mm sem er rétt umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Í Reykjavík voru alhvítir dagar í vetur 47, sem eru jafn margir og að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru alhvítir dagar 86, 13 fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Veturinn var sólríkur í Reykjavík. Þar mældust sólskinsstundirnar í vetrarmánuðunum fjórum 313,5 sem er 106,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er 4. sólríkasti veturinn í Reykjavík frá upphafi mælinga, en það var sólríkara veturna 1947, 2023 og 1966. Á Akureyri mældust sólskinsstundir vetrarins 134, sem er 15,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja ísérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica