Fréttir

Tíðarfar í mars 2018

Stutt yfirlit

4.4.2018


Mars var mjög tvískiptur. Fyrri helmingur mánaðarins var fremur kaldur. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi, nánast úrkomulaust var um landið sunnan- og vestanvert og sérlega sólríkt. Á meðan var töluverður snjór um landið norðan og austanvert. Seinni hluti mánaðarins var hlýrri og suðlægari áttir algengari. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um illviðri.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,3 stig, 1,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,6 stig, 1,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 1,2 stig og 2,0 stig á Höfn í Hornafirði. 

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 2,3 1,9 30 148 0,7
Stykkishólmur 1,2 2,0 36 til 37 173 0,4
Bolungarvík 0,9 2,5 21 121 1,0
Grímsey 0,8 2,6 23 145 0,7
Akureyri 0,6 1,8 35 138 0,3
Egilsstaðir 0,4 1,8 22 64 0,4
Dalatangi 1,6 1,5 28 80 0,0
Teigarhorn 1,7 1,3 45 146 0,1
Höfn í Hornaf. 2,0


-0,2
Stórhöfði 2,9 1,2 37 142 0,4
Hveravellir -4,7 1,3 19 54 -0,3
Árnes 1,1 1,9 30 138 0,7

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2018

Að tiltölu var hlýjast á Vestfjörðum og á útnesjum norðanlands, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Ólafsfirði 1,1 stig. Að tiltölu var kaldast á Suðaustur- og Austurlandi, neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,4 stig í Skarðsfjöruvita í Skaftárhreppi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,9 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli, -5,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -2,9 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -22,4 stig í Hágöngum þ. 10. Mest frost í byggð mældist -21,2 stig þ. 10. í Svartárkoti. Hæsti hiti mánaðarins mældist 13,1 stig á Akureyri þ. 16. 

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju þurr um landið sunnan og vestanvert. Fyrri helmingur mánaðarins var nánast úrkomulaus í þessum landshlutum. Á meðan var úrkomusamt norðan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 25,3 mm sem er um 30% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Aðeins tólf sinnum hefur úrkoma mælst minni í Reykjavík í mars frá upphafi mælinga, síðast árið 2001 þegar úrkoman mældist 24,0 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 49,0 mm sem er um 10% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 24,8 mm, sem er það minnsta sem hefur mælst þar í marsmánuði síðan árið 2001. Á Höfn í Hornafirði mældust 134,6 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, fimm færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 10 daga og er það í meðallagi.

Snjór

Óvenju snjólétt var sunnan- og vestanlands en um tíma var töluverður snjór um landið norðan og austanvert. Jörð varð aldrei alhvít í Reykjavík, það gerðist síðast í mars 2005. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 15, sex fleiri en að meðaltali 1971 til 2000.

Sólskinsstundafjöldi

Óvenju sólríkt var í Reykjavík. Sólskinsstundir mældust 152,0 sem er 40,9 stundum fleiri en að meðallagi í mars. Á Akureyri mældust 87,6 sólskinsstundir, 10,8 fleiri en í meðalári.

Vindur

Mars var hægviðrasamur og lítið um illviðri. Vindhraði á landsvísu var um 0,6 m/s minni en að meðaltali. Norðaustanáttir voru ríkjandi fyrri helming mánaðarins en suðlægari áttir seinni helminginn.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1009,2 hPa sem er 6,1 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1042,9 hPa á Gjögurflugvelli þ. 1. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 976,3 hPa á Önundarhorni þ. 22.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins var 1,1 stig, sem er 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 32. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja 0,1 stig, sem er 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 25. til 26. sæti á lista 138 ára. Úrkoma hefur verið um 30% umfram meðallag í Reykjavík og um 10% umfram meðallag á Akureyri.

Veturinn (desember 2017 til mars 2018)

Meðalhiti í Reykjavík var 0,6 stig og er það 0,6 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990, en 0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Veturinn í fyrra var mun hlýrri en nú, en veturnir 2015 og 2016 voru ögn kaldari. Veturinn var í 41.-42. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig sem er 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 33. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga.

Úrkoma var um 15 prósent umfram meðallag í Reykjavík, en í meðallagi á Akureyri.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2018 (textaskjal).
Daglegtyfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica