Fréttir
Vaktmaður í Eldhrauni 2. mars 2017.

Tíðarfar í mars 2017

Stutt yfirlit

3.4.2017

Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar. Hiti var nærri meðallagi, en úrkoma heldur minni en venja er í flestum landshlutum nema sums staðar austanlands. Vindar voru talsvert hægari en oftast er í marsmánuði.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,8 stig og er það 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 0,4 stig, 1,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 3,0 stig á Höfn í Hornafirði.  

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð mhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2007 til 2016 °C
Reykjavík 1,8 1,3 37 147 0,1
Stykkishólmur 0,8 1,7 41 172 0,0
Bolungarvík 1,0 2,2 21 120 0,7
Grímsey 1,1 2,9 16 144 1,0
Akureyri 0,4 1,6 37 til 38 136 0,0
Egilsstaðir 1,0 2,4 18 63 0,9
Dalatangi 2,6 2,5 14 79 1,0
Teigarhorn 2,5 2,1 21 145 0,9
Höfn í Hornaf. 3,0 0,8
Stórhöfði 3,1 1,4 31 141 0,5
Hveravellir  -4,8 1,2 19 53 -0,4
Árnes 0,8 1,5 36 137 0,3

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2017

Að tiltölu var hlýjast við norðaustur- og austurströndina, 1,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára á Raufarhöfn, Kaldast að tiltölu var inn til landsins á Vestur- og Norðvesturlandi, neikvæða vikið mest á Hvanneyri, -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,7 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal og á Húsafelli.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,0 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu, -5,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur i Svartárkoti, -3,4 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -23,3 stig í Svartárkoti þann 21. Mesta frost á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 4., -18,6 stig.  Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,5 stig á Seyðisfirði þann 26. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.  

Úrkoma

Úrkoma var minni en í meðalárferði um allt vestan- og norðanvert landið, en í ríflegu meðallagi á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Hún mældist 51,5 mm í Reykjavík og er það um 62 prósent meðallagsins 1961 til 1990.  

Á Akureyri mældist úrkoman nú 28,0 mm, um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 47,4 mm og 122,3 á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 12, tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Alhvítt var 11 morgna í Reykjavík, einum færri en að meðaltali 1971 til 2000. Snjódýpt var óvenjumikil fyrstu dagana í Reykjavík, eftirhreytur af miklum snjó sem féll seint í febrúar. Þann 1. voru enn 36 cm af þeim snjó á jörðu og hefur snjódýpt í Reykjavík aldrei mælst meiri í mars.

Aðeins 1 alhvítur dagur var á Akureyri í marsmánuði, 18 dögum færri en að meðaltali. Þetta er óvenjulegt og hafa alhvítir dagar ekki orðið jafnfáir þar í mars síðan 2003. Í mars 1963 og 1964 var alautt á Akureyri – það hefur ekki gerst síðan.

Elliðavatn undir ís og snjó hinn 17. mars 2017. Margar vakir voru á vatninu en línurnar eru skuggi trjáa á vatnsbakkanum. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 131,1, 20 fleiri en í meðalmarsmánuði, þær voru enn fleiri í þessum mánuði árið 2013. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 87,3, 11 fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var um 1 m/s minni en að meðaltali og hefur ekki verið svona hægur í marsmánuði síðan 2002. Hvassast var dagana 23. til 25. en þá blés nokkuð hraustlega af suðri og síðar vestri. Austlægar áttir voru þó ríkjandi í mánuðinum eins og algengast er.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist  1001,6 hPa og er það -1,5 hPa undir meðaltali áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1030,8 hPa í Grímsey þann 28. en lægstur 970,5 hPa þann 13. í Surtsey.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar var sérlega hlýr. Í Reykjavík hafa þessir þrír mánuðir saman aðeins átta sinnum verið hlýrri en nú og sjö sinnum á Akureyri. Úrkoma hefur verið í ríflegu meðaltali í Reykjavík, en í meðallagi á Akureyri.

Veturinn (desember 2016 til mars 2017)

Nýliðinn vetur var óvenjuhlýr, desember og febrúar voru sérlega hlýir, en janúar og mars nær meðallaginu. Í Reykjavík er aðeins vitað um þrjá hlýrri vetur frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Það eru 1963 til 1964, 1928 til 1929 og 2002 til 2003. Á Akureyri er þetta einnig fjórði hlýjasti veturinn og eru það sömu vetur og í Reykjavík sem voru hlýrri. Það sama á einnig við um Stykkishólm.

Úrkoma var um 30 prósent umfram meðallag í Reykjavík, en 10 prósent á Akureyri.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2017 (textaskjal)

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica