Fréttir
Sólríkur dagur 2. maí. Gosstöðvarnar við Fagradalsfjall sjást frá Bakkavör á Seltjarnarnesi. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust óvenju margar eða 355,0 sem er 126 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. (Ljósmynd: Veðurstofan/Haukur Hauksson)

Tíðarfar í maí 2021

Stutt yfirlit

2.6.2021


Maí var kaldur og þurr. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fram eftir mánuðinum, það var kalt og óvenju úrkomulítið um land allt. Gróður tók lítið við sér og sinueldar voru tíðir. Það tók svo að hlýna og rigna í lok mánaðar. Sólskinsstundir mældust óvenjumargar í Reykjavík.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 5,7 stig og er það -1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig, -1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,4 stig og 4,2 stig á Höfn í Hornafirði. Maíhitinn var sá kaldasti á öldinni á Egilsstöðum, Dalatanga, Teigarhorni og á Höfn.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 5,7 -1,1 105 151 -1,1
Stykkishólmur 4,4 -1,3 112 til 114 176 -1,4
Bolungarvík 3,6 -1,1 90 124 -1,2
Akureyri 4,7 -1,5 98 141 -1,7
Egilsstaðir 3,0 -2,5 60 67 -2,6
Dalatangi 2,4 -1,9 73 83 -2,0
Teigarhorn 3,3 -2,0 121 til 123 149 -2,0
Höfn í Hornaf. 4,2


-2,1
Stórhöfði 4,8 -1,4 129 145 -1,3
Hveravellir -0,4 -2,0 50 57 -2,0
Árnes 4,8 -1,7 114 142 -1,6

Meðalhiti og vik (°C) í maí 2021

Maí var mjög kaldur um allt land og meðalhitinn alls staðar vel undir meðallagi. Að tiltölu var kaldast austanlands en hlýrra vestanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,4 stig á Kárahnjúkum en minnst -0,5 stig á Gjögurflugvelli.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2011-2020).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 5,8 stig við Garðskagavita en lægstur var hann á Gagnheiði -4,0 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 0,2 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,4 stig á mönnuðu stöðinni á Akureyri þ. 28. Á sjálfvirku stöðvunum mældist hæsti hitinn 20,3 stig þ. 27. á Staðarhól og í Húsafelli. Mest frost í mánuðinum mældist -14,0 stig á Setri þ. 11. Mest frost í byggð mældist -9,7 stig á Brú á Jökuldal.

Úrkoma

Maí var þurr um land allt. Óvenju lítið rigndi fyrstu 3 vikur mánaðarins. Sinueldar voru tíðir.

Úrkoma í Reykjavík mældist 38,9 mm sem er 74% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 14,9 mm sem er 62% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 20,1 mm og 20,9 mm í Höfn í Hornafirði. Nánast úrkomulaust var á Höfn þar til þ. 28.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 7, þremur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 3 daga mánaðarins, tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Alautt var í Reykjavík og á Akureyri allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Mánuðurinn var mjög sólríkur.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust óvenju margar eða 355,0 sem er 126 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aldrei mælst eins margar í Reykjavík í maímánuði. Fyrra sólskinsstundarmet maímánaðar í Reykjavík var frá 1958, 330,1 stund.

Hafa ber þó í huga að skipt var um mæliaðferð í Reykjavík síðastliðin áramót. Hætt var að mæla sólskinsstundir með svokölluðum Campbell–Stokes mæli, þar sem sól skín í gegnum glerkúlu og brennir rauf í blað sem þar er komið fyrir. Skipt var um blað einu sinni á sólarhring og lengd randarinnar á blaðinu mæld. Nú er notast við sjálfvirkan sólskinsstundamælir. Örlítill munur er á mælunum tveimur, mestur á heiðríkum dögum, en þá mælir sjálfvirki mælirinn meira en sá gamli. Því má ætla að sólskinsstundirnar í Reykjavík í maí 2021 hafi jafnað metið frá því 1958.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 206,6, sem er 35,6 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var jafn meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum fram til þess 25. Þá tóku suðaustlægar áttir við.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1017,5 hPa og er það 4,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1030,9 hPa á Flateyri þ. 1. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 997,7 hPa í Bolungarvík þ. 30.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins var 2,8 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 33. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fimm 1,3 stig. Það er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 40.sæti á lista 141 ára.

Þurrt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári. Heildarúrkoma mánaðanna fimm var 232,4 mm sem er 63% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mánuðirnir fimm hafa ekki verið jafnþurrir frá 1995 í Reykjavík. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna fimm mælst 215,8 mm sem er rétt yfir meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Meðalloftþrýstingur ársins heldur áfram að vera óvenjuhár.

Vorið (apríl og maí)

Vorið var kalt, þurrt og sólríkt. Gróður fór seint af stað.

Meðalhiti vorsins var alls staðar undir meðallagi áranna 1991 til 2020 (vik miðað við síðustu tíu ár eru innan sviga). Hann var -0,6 stigum undir í Reykjavík (-0,8), -0,6 stigum undir á Akureyri (-1,0), -0,6 stigum undir í Stykkishólmi (-1,0) og -1,3 stigum undir á Egilsstöðum (-1,6).

Í Reykjavík var úrkoman um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var heildarúrkoma vorsins um 60% af meðalúrkomu og í Stykkishólmi var hún um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Vorið var mjög sólríkt bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica