Fréttir
Ljósmynd
Fjöllin vestan Eyjafjarðar, 28. júní 2017.

Tíðarfar í júní 2017

Stutt yfirlit

4.7.2017

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í júní. Hiti var þó í svalara lagi miðað við meðaltal síðustu 10 ára en yfir meðallagi á flestum stöðum sé miðað við tímabilið 1960-1990. Úrkoma var vel yfir meðallagi á Austurlandi. Sólskinsstundir voru mjög fáar norðanlands og hafa sólskinsstundir ekki verið færri í júní á Akureyri síðan 1972, þá voru þær jafnfáar og nú en enn færri 1968. 

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 9,9 stig, 0,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,9 stig, -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og -1.2 undir meðallagi síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,5 stig og 9,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu. 

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016 °C
Reykjavík 9,9 0,9 39 til 40 146 -0,5
Stykkishólmur 8,5 0,4 69 til 70 172 -1,2
Bolungarvík 7,3 0,3 79 120 -1,7
Grímsey 6,1 0,2 66 144 -1,2
Akureyri 8,9 -0,2 81 til 82 136 -1,2
Egilsstaðir 8,4 -0,3 37 63 -0,7
Dalatangi 7,1 0,9 21 79 0,1
Teigarhorn 8,1 0,9 31 145 0,3
Höfn í Hornaf. 9,3


-0,1
Stórhöfði 8,5 0,5 68 141 -0,5
Hveravellir 5,6 0,8 25 53 -1,3
Árnes 9,7 0,5 61 137 -0,8
Meðalhiti og vik (°C) í júní 2017

Fremur svalt var í veðri í júní um mest allt land. Langflestar stöðvar voru með neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Papey, +0.3 stig. Á nokkrum stöðvum á hálendinu og jaðri þess var júní kaldari en maímánuður sem var óvenju hlýr þetta árið.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Reykjarvíkurflugvelli, 10,0 stig en lægstur á Gagnheiði, 1,6 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur á Fonti, 5,5 stig .

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,1 stig í Bakkagerði þann 30. og var það í eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum á landinu í júní. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 18,5 stig á Hjarðarlandi þann 14.

Mesta frost í mánuðinum mældist -4,2 stig á Gagnheiði þann 6. Mest frost í byggð mældist -3.5 stig á Þingvöllum þann 9.

Úrkoma

Úrkoma var vel yfir meðallagi á Austurlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 42,6 mm sem er 85 % af meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman í júní 26,2 mm sem er 93 % af meðallagi áranna 1961-1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 30,5 mm og 100,8 mm á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 í Reykjavík, 1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 7 daga mánaðarins, 1 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 163,0, tveimur fleiri en að meðaltali í júní . Á Akureyri mældust 111 sólskinsstundir, 66 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og hafa ekki mælst eins fáar í júní síðan 1972, þá voru þær jafn fáar og nú, en enn færri 1968.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var í rúmu meðallagi, 0,5 m/s yfir meðallagi síðustu 10 ára á sjálfvirku stöðvunum. Hvassast var þann 1. (austanátt) og dagana 23. og 24. júní (norðanátt). Austlægar áttir voru tíðari en vestlægar. Norðlægar áttir voru tíðari fyrri part mánaðar en sunnan áttir seinni helminginn.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýtstingur í Reykjavík mældist 1005,6 hPa og er það 4,5 hPa undir meðallagi áranna 1961-1990. Þetta er lægsti meðalloftþrýstingur í júní síðan 1994. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1017,8 á Höfn í Hornafirði þ. 25. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist einnig á Höfn í Hornafirði, 980,2 hPa þ. 23.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Fyrstu sex mánuðir hafa verið hlýir. Í Reykjavík var hiti 1,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,5 stigum ofan meðallagi síðustu 10 ára. Í Reykjavík hafa þessir sex mánuðir aðeins átta sinnum verið hlýrri en nú. Á Akureyri var hiti 2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallagi síðustu 10 ára. Raðast hiti þessi í 6. sæti af 136 á Akureyri. Úrkoma er um 41 prósent umfram meðallagi í Reykjavík og um 21 prósenti umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní2017(textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica