Fréttir
Eyjafjörður
Eyjafjörður að kvöldi 27. júlí 2017.

Tíðarfar í júlí 2017

Stutt yfirlit

1.8.2017

Tíðarfar var almennt hagstætt í júlí. Hlýtt var um meginhluta landsins, helst að svalt þætti suðvestanlands fram eftir mánuði. Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári.  

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 11,7 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,6 undir meðallagi síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 12,7 stig, 2,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 1,5 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,1 stig og 11,5 stig á Höfn í Hornafirði. 

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh. °C vik 1961-1990 röð af vik 2007 til 2016
Reykjavík 11,7 1,1 30 147 -0,6
Stykkishólmur 11,1 1,2 29 172 -0,1
Bolungarvík 10,4 1,4 32 120 0,1
Grímsey 9,8 2,2 11 144 1,0
Akureyri 12,7 2,2 9 til 10 137 1,5
Egilsstaðir 11,6 1,4 13 63 1,1
Dalatangi 9,4 1,4 9 til 10 79 0,7
Teigarhorn 10,4 1,7 4 145 1,0
Höfn í Hornaf. 11,5 0,8
Stórhöfði 10,2 0,6 64 141 -0,7
Hveravellir  8,9 1,9 10 til 11 53 0,4
Árnes 11,9 1,1 38 til 39 137 -0,4

Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2017.

Að tiltölu var hlýjast um miðbik Norðurlands, 1,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára á Akureyri og Ólafsfirði. Kaldast að tiltölu var á Reykjanesfjallgarðinum, neikvæða vikið mest á Skarðsmýrarfjalli, -0.8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,8 stig. Lægstur var hann Brúarjökli, 3,3 stig. Í byggð og við strendur var meðalhitinn lægstur í Seley, 8,6 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -0,4 stig við Gæsafjöll þann 10. Mest frost í byggð mældist á Þingvöllum þann 11., -0,3 stig. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 10., 0,8 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,7 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal þann 25. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu síðan í ágúst 2012. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 24,3 stig, á Ásgarði í Dölum þann 26.

Eitt landsdægurhámarksmet féll í mánuðinum þegar hiti fór í 25,9 stig á Végeirsstöðum þann 20. Eldra met var sett á Hallormsstað 1944, 25,5 stig.

Júlíhitamet féllu á allmörgum veðurstöðvum, helst má nefna staði þar sem athugað hefur verið í 20 ár eða meira, Ólafsfjörð, Hornbjargsvita (sjálfvirku stöðina), Neslandatanga við Mývatn, Siglufjörð, Hálsa, Öxnadalsheiði, Hólasand, Steingrímsfjarðarheiði og Siglufjarðarveg.

Úrkoma

Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári, náði aðeins meðallagi á Austfjörðum, í Vestur-Skaftafellssýslu og á Írafossi (óstaðfest).

Úrkoma í Reykjavík mældist 37,1 mm, um 70 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri mældist hún 20,1 mm, um 60 prósent meðalúrkomu, en 29,3 mm í Stykkishólmi og er það um 70 prósent meðalúrkomu þar um slóðir. Úrkoma mældist 67,4 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 8, tveimur færri en í meðalári. Slíkir dagar voru 5 á Akureyri, tveimur færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 188,2, 17 fleiri en í meðaljúlímánuði áranna 1961 til 1990, en 17 færri en að meðalllagi í júlí síðastliðin tíu ár. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 166,8, rétt við meðallag.

Vindur

Vindhraði var í meðallagi á landsvísu. Framan af mánuðinum skiptust austlægar og vestlægar áttir nokkuð á, en þær austlægu voru ríkjandi eftir þann 18. Suðlægar og norðlægar áttir gengu á víxl. Nokkuð hvasst varð inn til landsins á Norðausturlandi þann 18. og voru júlívindhraðamet þá slegin á fáeinum stöðvum þar um slóðir - og sama dag var júlímet einnig slegið á Skrauthólum á Kjalarnesi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist  1006,0 hPa og er það -4,1 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990, sá lægsti í júlí síðan 2010. Hæstur mældist þrýstingurinn 1023,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði þann 24., en lægstur 987,5 hPa þann 15. á Dalatanga.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Fyrstu sjö mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar og maí voru sérlega hlýir. Í Reykjavík eru mánuðirnir sjö í 7. til 8. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga, í því 6. á Akureyri og í því 4. á Egilsstöðum. Úrkoma í Reykjavík hefur verið um þriðjung umfram meðallag og sú mesta í þessum sjö mánuðum frá 2003, en um 10 prósent umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júli 2017 (textaskjal) .

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica