Tíðarfar í janúar 2017
Stutt yfirlit
Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar. Fremur hlýtt var í veðri og með snjóléttara móti á láglendi. Úrkoma var ekki fjarri meðallagi. Minna var um illviðri en venjulegt er á þessum tíma árs.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,4 stig og er það 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,2 stig, 2,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 1,8 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalh | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2007-2016 |
Reykjavík | 1,4 | 2,0 | 25 | 147 | 0,4 |
Stykkishólmur | 0,8 | 2,2 | 28 | 172 | 0,2 |
Bolungarvík | 0,2 | 1,4 | 35 | 120 | -0,2 |
Grímsey | 0,7 | 1,4 | 21 | 144 | -0,3 |
Akureyri | 0,2 | 2,4 | 27 til 28 | 136 | 0,6 |
Egilsstaðir | -0,2 | 2,3 | 16 | 63 | 0,4 |
Dalatangi | 2,3 | 1,9 | 24 | 79 | 0,2 |
Teigarhorn | 1,6 | 1,8 | 32 | 145 | 0,3 |
Höfn í Hornaf. | 1,9 | 0,5 | |||
Stórhöfði | 2,6 | 1,3 | 32 | 141 | 0,0 |
Hveravellir | -4,2 | 2,5 | 13 | 53 | 0,4 |
Árnes | -0,1 | 1,9 | 30 til 31 | 138 | 0,3 |
Meðalhiti og vik (°C) í janúar 2017.
Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi og sums staðar suðvestanlands, 1,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu var norðan til á Vestfjörðum. Vék hiti á Hornbjargsvita þar mest frá meðallagi síðustu tíu ára og var -0,9 stigum neðan þess.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,8 stig. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -5,7 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum, -3,1 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -24,7 stig í Möðrudal þann 14. Mesta frost á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 14., -20,4 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,3 stig á Sauðanesvita þann 15..
Landsdægurhámarksmet féll þegar hiti komst í 14,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum þann 2. Eldra metið, 13,6 stig, var sett á mönnuðu stöðinni á sama stað árið 2002.
Úrkoma
Úrkoma víðast hvar ekki fjarri meðallagi og mældist 83,4 mm í Reykjavík. Er það 10 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990, en 90 prósent meðallags síðustu tíu ára.
Á Akureyri mældist úrkoman nú 49,9 mm, 90 prósent meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 82,8 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 18, fimm fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 9 daga, tveimur færri en að meðallagi.
Snjór
Alhvítt var 13 morgna í Reykjavík, tveimur færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir líka 13, tíu færri en í meðaljanúar og hafa ekki verið jafnfáir í mánuðinum síðan 2006.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust aðeins 17,7, níu færri en í meðaljanúar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1,6, fimm stundum undir meðallagi – en langoftast er sólarlítið á Akureyri í janúar.
Steðjaský séð frá Hafnarfirði 27. janúar 2017. Ljósmynd: Hjálmar Sigurðsson.
Vindur
Vindhraði var lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára, um -0,3 m/s undir því á sjálfvirku stöðvunum. Suðlægar áttir voru algengari en þær norðlægu, en austan- og vestanáttir skiptust nokkuð á. Mesta hvassviðrið gerði þann 5., þá af suðvestri og vestri.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,6 hPa og er það 2,3 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1041,0 hPa á Reykjavíkurflugvelli og Eyrarbakka þann 1., en lægstur 972,3 hPa í Grindavík þann 31.
Skjöl fyrir janúar
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2017 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.