Tíðarfar í febrúar 2025
Stutt yfirlit
Febrúar var óvenjulega hlýr, úrkomusamur og snjóléttur. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Töluvert var um illviðri, sérstaklega í byrjun mánaðar. Verst var veðrið dagana 5. og 6. febrúar þegar mikið sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Veðrið bættist í hóp verstu óveðra síðustu ára. Samgöngur lágu niðri og veðrið olli töluverðu tjóni víða um land.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í febrúar var 3,1 stig. Það er 2,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 2,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,9 stig, 2,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 2,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 1,7 stig og 3,5 stig á Höfn í Hornafirði. Á landsvísu var hitinn 2,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Febrúarmánuður hefur aðeins sex sinnum verið hlýrri en nú á landsvísu frá upphafi mælinga á 19.öld. Þar af má finna nokkurra hlýja febrúarmánuði á þessari öld, 2017, 2013, 2012 og 2006 (sem var álíka hlýr og nú). Febrúar var hlýjastur árið 1932. Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í töflu 1.
Tafla 1: Meðalhiti
og vik (°C) í febrúar 2025.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2015-2024 °C |
Reykjavík | 3,1 | 2,6 | 6 | 155 | 2,4 |
Stykkishólmur | 1,7 | 1,8 | 12 | 180 | 1,6 |
Bolungarvík | 1,2 | 1,9 | 17 | 128 | 1,3 |
Grímsey | 1,7 | 1,9 | 7 til 8 | 152 | 1,3 |
Akureyri | 1,9 | 2,7 | 13 | 145 | 2,6 |
Egilsstaðir | 2,3 | 3,3 | 3 | 71 | 3,2 |
Dalatangi | 3,4 | 2,1 | 6 | 87 | 1,6 |
Teigarhorn | 3,0 | 2,2 | 11 | 153 | 1,9 |
Höfn í Hornaf. | 3,5 | 2,1 | |||
Stórhöfði | 4,2 | 2,1 | 6 til 7 | 149 | 2,1 |
Hveravellir | -2,6 | 2,8 | 7 | 61 | 2,7 |
Árnes | 2,4 | 3,3 | 3 | 146 | 3,1 |
Febrúar var hlýr og hiti var vel yfir meðallagi á landinu öllu. Að tiltölu var hlýjast í innsveitum landsins, en að tiltölu kaldara út við sjó (sjá mynd 1). Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 3,7 stig við Mývatn, en minnst 1,1 stig í Seley.

Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surstey 5,2 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -3,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal -1,0 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,6 stig á Sauðanesvita þ. 1. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar á Sauðanesvita frá upphafi mælinga þar árið1990. Einnig var nýtt febrúarhitamet sett í Stykkishólmi þegar hitinn mældist 11,7 stig þ. 1, en þar hefur hiti verið mældur frá árinu1845.
Lægsti hiti í mánuðinum mældist -14,1 stig í Möðrudal, sem er óvenjulega hár lágmarkshiti fyrir landið í febrúarmánuði, og með þeim hæstu sem vitað er um.
Á mynd 2
má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita
síðustu tíu ára. Þar má sjá að hiti var vel yfir meðallagi langflesta daga í
febrúar.
Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Úrkoma
Febrúar var úrkomusamur og var úrkoma yfir meðallagi um mest allt land. Það var sérstaklega blautt á sunnan- og vestanverðu landinu.
Úrkoma í Reykjavík mældist 141,7 mm sem er um 55% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 61,5 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í febrúar 181,2 mm, sem er meira en tvöföld meðalúrkoma og raðast mánuðurinn á meðal úrkomusömustu febrúarmánaða þar frá upphafi úrkomumælinga 1856. Úrkoman mældist 148,0 mm á Dalatanga sem er um 30% umfram meðallag.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 19, eða 5 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 9 daga sem er einum færri en í meðalári.
Snjór
Mánuðurinn var snjóléttur.
Í Reykjavík var jörð alhvít þrjá morgna mánaðarins, eða níu færri morgna en í meðalfebrúarmánuði árin 1991 til 2020. Á Akureyri voru aðeins fjórir alhvítir dagar í mánuðinum, sem er tólf færri en að meðallagi 1991 til 2020. Alhvítir dagar hafa ekki verið eins fáir í febrúar á Akureyri frá því 2006.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 44,4 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 17,2 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist 48,1 sólskinsstund, eða 14,2 stundir umfram meðallag áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var rétt yfir meðallagi í febrúar. Suðlægar áttir voru ríkjandi og að tiltölu var hvassast á sunnanverðu landinu, en lygnara nyrst á landinu og á Vestfjörðum.
Töluvert var um illviðri, sérstaklega í byrjun mánaðar. Verst var veðrið dagana 5.og 6. febrúar þegar mikið sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Vindhraði var mikill og hviður mældust mjög háar um nær land allt og bættist veðrið í hóp verstu óveðra síðustu ára. Samgöngur lágu niðri og veðrið olli töluverðu tjóni í víða um land. Veðrið reyndist einna verst á Austfjörðum, og það var til að mynda mikið tjón í Stöðvarfirði. Óveðrinu fylgdi líka talsvert eldingaveður á vestan- og sunnanverðu landinu sem olli tjóni víða.
Einnig var hvasst dagana 1., 3. og 28. Sunnanáttir voru ríkjandi í öllum þessum veðrum.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 997,4 hPa í Reykjavík. Það er 1,4 hPa undir meðallagi 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1038,5 hPa á Fonti á Langanesi þ. 13. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 940,9 hPa á Siglufirði þ.3.
Fyrstu tveir mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins var 1,4 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu tveggja mánaða ársins raðast í 18. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti janúar og febrúar -0,6 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja í 35. til 36. hlýjasta sæti á lista 145 ára. Á báðum stöðunum var janúar kaldur, en febrúar mjög hlýr.
Heildarúrkoman í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins mældist 249,6 mm sem er 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna tveggja 135,1 mm sem er 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir febrúar
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2025 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.