Fréttir
Mynd sem sýnir lægð nálgast landið þann 14. febrúar. Austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Myndin er svokölluð innrauð hitamynd sem þýðir að kaldir fletir eru ljósir og þeir hlýrri dökkir. Kalt efra borð skýja verður hvítt þar sem frostið er oft á tíðum nálægt 50 stigum í 8 til 9 km hæð.

Tíðarfar í febrúar 2020

Stutt yfirlit

3.3.2020

Febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst. Loftþrýstingur var óvenju lágur yfir landinu í febrúar.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í febrúar var 0,3 stig og er það -0,1 undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig, -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,2 stig og 1,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 0,3 -0,1 60 150 -1,2
Stykkishólmur -0,1 0,6 56 175 -0,9
Bolungarvík -0,6 0,4 49 123 -1,1
Grímsey -0,3 0,7 50 147 -1,2
Akureyri -1,5 -0,1 72 140 -1,6
Egilsstaðir -1,8 0,1 35 66 -1,8
Dalatangi 1,1 0,5 34 82 -1,1
Teigarhorn 0,7 0,4 58 til 59 148 -1,1
Höfn í Hornaf. 1,1


-0,9
Stórhöfði 1,8 -0,2 62 144 -1,0
Hveravellir -6,0 -0,1 31 56 -1,6
Árnes -1,1 -0,1 58 141 -1,3

Meðalhiti og vik (°C) í febrúar 2020

Febrúar var kaldur og hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,5 stig á Breiðadalsheiði en mest -2,0 stig í Möðrudal.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár (2010-2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 2,8 stig í Surtsey en lægstur -7,0 stig í Sátu. Í byggð var meðalhitinn lægstur -4,9 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,0 stig á Kvískerjum þ. 5. Mest frost í mánuðinum mældist -28,1 stig við Mývatn þ. 13.

Úrkoma

Úrkomusamt var á Austur- og Norðurlandi í febrúar á meðan þurrara var á vestari hluta landsins.

Úrkoma í Reykjavík mældist 55,4 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 82,6 mm sem er nærri tvöfalt meiri úrkoma en að meðallagi 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 46,8 mm og 169,4 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 11, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga mánaðarins, 6 fleiri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 10, tveimur færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar 25 sem er 6 dögum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 50,5 sem er 1,4 stundum færri en í meðallagi í febrúar. Sólskinsstundir voru fáar á Akureyri, 13,2 sem er 23 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi. Mánuðurinn var illviðrasamur og riðluðust samgöngur margoft vegna veðurs. Mikið austanveður gekk yfir landið þ. 14. og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Töluvert tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var óvenju lágur í febrúar.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 981,9 hPa og er það 20,7 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Mánaðarþrýstimeðaltalið hefur aðeins 5 sinnum verið lægri í febrúar síðustu 200 árin. Lægsta meðaltalið er frá 1990, 976,3 hPa.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1013,8 hPa í Önundarhorni þ. 4. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 932,3 í Surtsey þ. 15. Það er þriðji lægsti þrýstingur sem mælst hefur í febrúarmánuði, síðast var hann lægri 1989 þegar þrýstingur á Stórhöfða mældist 931,9 hPa.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík var 0,3 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 53. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja -1,0 stig. Það er 0,9 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 46. til 47. sæti á lista 140 ára. Úrkoma hefur verið 20% umfram meðallag í Reykjavík, en um 65% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2020 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica